Hinn 21 árs gamli Birkir Blær Óðinsson frá Akureyri hefur hefur heldur betur slegið í gegn í sænska Idolinu en hann er kominn í fimm manna úrslit og þykir nokkuð sigurstanglegur.
Sænska Idolið er ekkert grín. Áhorfendur eru oft hátt í tvær milljónir og þjóðin fylgist með. Nú ber svo við að ein helsta stjarnan er Íslendingur, Birkir Blær Óðinsson.
„Fyrst var ég meira svona að þetta væri bara skemmtilegt tækifæri en nú er komið meira keppnisskap í mann,“ segir Birkir Blær í samtali við fréttastofu Vísis.
Það eru þrjár vikur eftir af keppninni og spennan magnast.
Finnurðu fyrir athyglinni?
„Já, reyndar. Það er eiginlega pínu skrýtið, maður er stundum bara stoppaður út á götu og beðinn um myndir, sem er voða spes. En maður er náttúrulega á meðan maður er í keppninni í sjónvarpinu einu sinni í viku,“ segir Birkir í samtali við Visir.
Birkir flutti fyrst til Svíþjóðar fyrir tæpu ári, var að leita að vinnu og var hvattur til að skella sér í prufur. Síðan hefur þetta undið upp á sig - og Birkir kveðst sannarlega ekki hafa gert ráð fyrir þessu fyrir tveimur árum.
„Þetta er eiginlega það fyrsta sem ég geri í landinu og ég er ekki einu sinni búinn að finna vinnu á þessum tíma,“ segir Birkir, sem keppir í næstu umferð eftir tæpa viku. Hann er búinn að velja lag - en neitar að ljóstra upp um hernaðarleyndarmálin í bili.
Hægt er að fylgjast með Birki á Instagram reikningi hans hér að neðan.