Dómari úrskurðaði á síðasta ári að leikarinn Kevin Spacey og framleiðslufyrirtæki hans skulduðu MRC kvikmyndaverinu sem framleiðir Netflix þáttaröðina „House of Cards“, nærri 31 milljón dollara fyrir samningsrof í kjölfar fjölmargra ásakana um kynferðislega áreitni á hendur leikaranum.
Dómurinn sem kveðinn var upp fyrir 13 mánuðum síðan var birtur opinberlega á mánudag þegar lögfræðingar kvikmyndaversins MRC fóru fram á það við dómstól í Kaliforníu að staðfesta úrskurðinn.
Spacey var eitt sinn miðpunkturinn í hinn vinsælu Netflix þáttaröð sem voru sýndar á árunum 2013 til 2018 þar sem hann lék aðalpersónuna, hinn snjalla stjórnmálamann Frank Underwood. Spacey gegndi einnig hlutverki framkvæmdastjóra í framleiðslu þáttanna.
Þegar verið var að taka upp sjöttu og síðustu þáttaröðina árið 2017 sakaði leikarinn Anthony Rapp Spacey um að hafa áreitt sig kynferðislega árið 1986, þegar Rapp var 14 ára. MRC og Netflix stöðvuðu framleiðslu á þáttaröðinni á meðan rannsókn átti sér stað.
Í desember 2017, eftir frekari ásakanir á hendur Spacey, þar á meðal af leikurum og starfsfólki í „House of Cards“, ráku MRC og Netflix leikarann úr þættinum.
Í dómnum héldu stjórnendur MRC því fram að hegðun Spacey hafi orðið til þess að kvikmyndaverið hafi tapað milljónum dollara þar sem þegar var búið að eyða tíma og peningum í að þróa, skrifa og taka upp síðustu þáttaröðina. MRC sagði líka að þetta hefði leitt til tekjutaps þar sem taka þurfti Spacey úr handritinu og fækka þáttunum úr þrettán í átta.
Leikaranum var gert að greiða MRC um 31 milljón dollara í skaðabætur.