Walt Disney skemmtigarðurinn í Flórída hefur gert hlé á bólusetningaskyldu starfsmanna sinna eftir að ríkið setti lög sem banna vinnuveitendum að krefja starfsfólk um að fara í bólusetningu. Þetta staðfesti talsmaður fyrirtækisins á laugardag.
Með nýju lögunum hefði Walt Disney mögulega átt yfir höfði sér háár sektir hefði það ekki látið af skyldunni.
New Yorkt Times segir þetta vera dæmi um hversu pólitísk stefnan er í tengslum við heimsfaraldrinum.
Lagafrumvarpið sem bannaði Covid-19 skyldubólusetning var lagt fram í síðustu viku og ríkisstjórinn Ron DeSantis samþykkti það á fimmtudaginn. DeSantis taldi ráðstafanirnar vera leið til að vernda starfsfólk sem gæti misst starf sitt, færi það ekki eftir þessum reglum vinnuveitenda.
DeSantis sem hefur verið í fararbroddi í baráttunni við að draga úr grímuskyldu og skyldubólusetningum sagði að alríkisstjórnin með fyrirskipun sinni um bólusetningaskyldu hafi með því farið út fyrir valdsvið sitt. „Enginn á að þurfa að missa starf sitt vegna íþyngjandi Covid skyldna og við höfðum þá ábyrgð að vernda lífsviðurværi íbúa Flórída,“ sagði ríkisstjórinn í yfirlýsingu.
Ríkisstjórn Biden hefur fyrirskipað bólusetningar fyrir allt starfsfólk í stærri fyrirtækjum auk ríkisstarfsmanna, en átakið hefur mætt mikilli mótstöðu um öll Bandaríkin. Flórída er meðal ríkja sem hafa mótmælt alríkisskyldu fyrir dómstólum.