Þyrla með vegan sætum, einkaþota með sólpalli og bílskúr og áform hóteleiganda um að vera með diskótek í 35.000 feta hæð voru nokkrar af þeim hugmyndum sem kynntar voru á flugsýningu í Dubai í síðustu viku. Fjölmargt annað var á sýningunni sem ætlað er að lokka VIP ferðamenn aftur til að ferðast.
Þrátt fyrir að flugiðnaðurinn hafi orðið einna verst úti í heimsfaraldrinum og gagnrýni á iðnaðinn í tengslum við loftslagsmál fari vaxandi virðist enginn samdráttur vera í eftirspurn hinna ríku þotueigenda.
Lufthansa Technik vill bjóða upp á einkaþotur sem eru með samskonar lúxus og ofursnekkjur, þotu sem tekur eigendur hvert sem er hvenær sem er og býður jafnframt upp á þægindi á við fimm stjörnu hótel ásamt aðstöðu fyrir tómstundir.
Fyrirtækið kynnti hugmynd sína um "Explorer“ farþegarými fyrir breiðþotu Airbus A330, sem er með sólpalli sem hægt er að draga út (en opnast þó aðeins þegar vélinni hefur verið lagt á jörðu niðri), fjögur tveggja manna svefnherbergi, líkamsræktarstöð og bílskúr.
„Við fengum þá hugmynd að sýna flugvél sem er eins og fljúgandi hótel, þannig að viðskiptavinir sem leigja vélina geta farið hringinn í kringum jörðina á tveimur vikum,“ segir Wieland Timm, yfirmaður VIP söludeildarinnar hjá Lufthansa Technik. Þetta yrði hraðari lúxusferðakostur en ofursnekkja sem gerir farþegum kleift að heimsækja hin ýmsu heimshorn á nokkrum klukkutímum."