Lögbann sett á skyldubólusetningu heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum

frettinErlent

Alríkisdómari í Bandaríkjunum setti lögbann á skyldubólusetningu heilbrigðis- starfsmanna í gær, sem Biden stjórnin hafði fyrirskipað. Dómurinn gildir fyrir heilbrigðisstarfsfólk í þeim tíu ríkjum sem höfðuðu mál gegn stjórnvöldum í þessum mánuði. Sambærilegur dómur var kveðinn upp í Louisiana ríki sem nær til allra hinna ríkjanna.

Með skyldubólusetningu Bandaríkjaforseta var þess krafist að 17 milljónir heilbrigðisstarfsmanna sem starfa hjá sjúkrastofnunum sem hljóta ríkisstyrki frá almannatryggingum verði að fullu bólusettir við Covid fyrir 4. janúar 2022.

Dómari við héraðsdóm Bandaríkjanna í Missouri setti lögbann á tilskipun Bandaríkjaforseta, sem kemur í veg fyrir að skipuninni verði framfylgt á meðan málið er fyrir dómstólum.

Dómarinn sagði í úrskurði sínum að stefnendur væru líklegir til að ná árangri á grundvelli málsins að hluta til vegna þess að Bandaríkjaþing hefði ekki veitt tryggingastofnunni (Center for Medicare and Medicaid) heimild til að gefa út bólusetningaskyldu.

Dómsmálið var höfðað af ríkjunum Alaska, Arkansas, Iowa, Kansas, Missouri, New Hampshire, Nebraska, Norður-Dakóta, Suður-Dakóta og Wyoming. Í málsskjölunum var sagt að með því að hrekja heilbrigðisstarfsmenn sem ekki vilja bólusetningu frá störfum gæti orðið alvarlegur skortur á heilbrigðisstarfsfólki, sérstaklega í dreifbýli þar sem vandinn væri þegar orðinn mikill.

Úrskurður dómarans er annað áfallið í fyrir ríkisstjórn Biden í þessum mánuði. Fyrr í mánuðinum var sett lögbann á skyldubólusetningu sem forsetinn hafði skipað öllum fyrirtækjum að innleiða sem eru með fleiri en 100 starfsmenn.

New York Times var með fréttina.