Háttsettur embættismaður í Flórída sendur í leyfi fyrir að hvetja starfsfólk í bólusetningu

frettinErlent1 Comment

Háttsettur heilbrigðisfulltrúi í Flórída hefur verið sendur í leyfi þar sem embættis-menn rannsaka nú hvort hann hafi brotið ríkislög Flórída með því að senda starfsmönnum tölvupóst varðandi lágt bólusetningahlutfall þeirra og hvetja þá til að fara í sprautur.

Ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, repúblikani sem talið er að muni bjóða sig fram í forsetakosningum Bandaríkjanna, undirritaði í nóvember lög sem banna skólum, fyrirtækjum og ríkisstofnunum að krefjast Covid bólusetninga af starfsfólki sínu.

Embættismaðurinn sem sendur var í leyfi frá störfum er Dr. Raul Pino yfirmaður heilbrigðismála í Orlando. Hann sendi starfsfólki sínu tölvupóst þann 4.janúar sl. þar sem hann nefndi lágt bólusetningahlutfall starfsfólks og hvatti það til að fara í sprautur, samkvæmt sjónvarpsstöðinni WFTV í Orlando.

Pino hafði fengið sérfræðing til að sækja bólusetningagögn yfir starfsfólkið, sagði WFTV.

Heilbrigðisráðuneytið í Flórída sagði að verið væri að rannsaka málið nánar til að geta skorið úr um hvort lög hafi verið brotin.

„Þar sem ákvörðunin um að láta bólusetja sig er val hvers einstaklings ætti starfsfólkið að vera laust við þvinganir og skyldur frá vinnuveitendum. Því hefur umræddur starfsmaður verið sendur í leyfi,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í tölvupóstinum 4. janúar til starfsmana sagði Pino að hann hefði sótt bólusetningagögn 568 starfsmanna, og að innan við helmingur þeirra hafi verið tvíbólusettur og aðeins 14% fengið örvunarskammt, samkvæmt WFTV sjónvarps-stöðinni.

„Mér þykir það leitt, en ef ekki liggja fyrir skynsamlegar og raunverulegar ástæður er ábyrgðarlaust að vera ekki bólusettur,“ skrifaði Pino.

Sjónvarpsstöðin náði ekki í Pino til að fá hans viðbrögð í málinu.

Flórída var meðal nokkurra ríkja undir stjórn repúblikana sem stefndu  bandaríska vinnueftirlitinu (OSHA) til að koma í veg fyrir að skyldubólusetningum sem Biden stjórnin fyrirskipaði yrði framfylgt.

Tilskipunin hefur nú verið stöðvuð af Hæstarétti Bandaríkjanna.

Heimild.

One Comment on “Háttsettur embættismaður í Flórída sendur í leyfi fyrir að hvetja starfsfólk í bólusetningu”

Skildu eftir skilaboð