Skúli Sveinsson lögmaður skrifar:
Á undanförnum árum hefur hugtakið „samfélagsábyrgð“ rutt sér inn í nánast öll svið samfélagsins og enginn maður eða fyrirtæki virðist vera í takt við tímann nema hafa tileinkað sér slíka ábyrgð með einum eða öðrum hætti.
Þó er staðan sú að ekki er hægt að fá einfalt né skiljanlegt svar við því hvað felst í þessari „samfélagsábyrgð“ eða á hvaða leið við séum eiginlega með þessa hugmyndafræði. Útskýringarnar sem gefnar eru virðast vera einhver hringavitleysa, svo sem: „Í sinni einföldustu mynd felst sjálfbærni og samfélagsábyrgð í því að fyrirtæki, stofnanir og hverskyns skipulagsheildir axli ábyrgð....“.
En hvað er inntak hugtaksins samfélagsábyrgð í raun?
Í grunninn er þessi hugmyndafræði langt frá því að vera ný af nálinni, heldur hefur hún einungis verið klædd upp í nýjan búning og okkur talin trú um að við þurfum að undirgangast stóraukin valdboð og takmarkanir yfirvalda til að bjarga heiminum frá annars fyrirsjáanlegri glötun.
Samfélagsábyrgð merkir í raun að réttlætanlegt sé að taka hagsmuni samfélagsins í heild fram fyrir frelsi og borgaraleg réttindi einstaklingsins. Og á grundvelli þess sé rétt og skylt að takmarka með ýmsum hætti lífskjör okkar og þau grundvallarmannréttindi sem við njótum, allt „For the Greater Good“ / "Für das Größere Wohl". Vandinn er þó sá að það er hægt að réttlæta nánast hvaða illvirki og mannréttindabrot sem er með vísun til einhverskonar almannahagsmuna, einungis ef nægileg þörf eða „neyð“ er til staðar.
Minnsta eining samfélagsins er einstaklingurinn. Um leið og réttur einstaklingsins á að víkja verulega fyrir almannahagsmunum þá er réttur einstaklingsins í raun orðinn að engu og þar með jafnframt grundvallarréttindi almennings í heild. Þess vegna verða mannréttindi ávallt að ganga út frá réttindum einstaklingsins. Þetta er svo vel þekkt og reynslan af frávikum frá því hefur verið svo hræðileg í mannkynssögunni að sett hafa verið sérstök æðri lög, svokallaðar stjórnarskrár, til að koma í veg fyrir að við endurtökum mistök forfeðra okkar.
Voru þeir einstaklingar sem þetta gerðu í raun eitthvað ólíkir okkur? Eða voru það aðstæður sem leiddu þá inn á þessa óheillabraut?
Hér er tengill á greinina: Why Did So Many Doctors Become Nazis?
Hvað orsakaði það að læknar urðu í stórum stíl að handbendum sturlaðrar stefnu nasista?
Þær aðstæður sem þá voru uppi, höfðu þær afleiðingar að læknar aðhylltust í stórum stíl þá óhugnanlegu hugmyndafræði sem boðuð var og gengu sjálfviljugir til liðs við nasista og voru fúsir til að framfylgja stefnu þeirra. Því hefur ranglega verið haldið fram að læknarnir hafi verið neyddir til þessara verka en svo var í raun ekki. Hærra hlutfall læknastéttarinnar gekk til liðs við nasistana en nokkurrar annarrar stéttar og þeir reyndu jafnframt enn að réttlæta gjörðir sínar eftir að viðkomandi voru loks dregnir fyrir dóm fyrir voðaverkin.
Það sem gerðist var að læknarnir hættu að líta á sig sem þjóna sjúklinga sinna og fóru að líta á sig sem þjóna ríkisins. Þýskaland var á þessum tíma fremst landa á sviði vísinda og læknisfræði, ekki vantaði því hrokann og stoltið. Þá var einnig farið að líta svo á að sjúklingarnir sjálfir væru í raun orðnir að sjúkdómnum en það minnir óneitanlega svolítið á „Pandemic of the Unvaccinated“, er það ekki?
Greinarhöfundur bendir á að kollegar hans, aðrir læknar, vilji nú á dögum ekki viðurkenna að það sem nasistalæknarnir gerðu eigi eitthvað skylt við læknavísindi, eins og þau eru í dag. Og að þetta geti ekki endurtekið sig m.a. vegna „The Nuremberg Code (1947)“. Ég hef hins vegar margítrekað heyrt það upp á síðkastið að þessi Nuremberg Code sé bara eitthvað gamalt dæmi og eigi ekkert við í dag og sé jafnframt ekkert í gildi þar sem hann átti bara við um stríðið. En þetta er einfaldlega ekki rétt. Í þessum reglum eru þær grundvallarreglur sem ætlað er að koma í veg fyrir að læknar geti aftur orðið að nasistum og þá unnið voðaverk sín „For the Greater Good“. Inntak varnarorðanna er að samfélagsábyrgð í samblandi við „fyrirséða“ neyð geti breytti læknum í morðingja.
Skilaboð greinarhöfundar til kollega sinna er að læknar eiga fyrst og fremst að bera hagsmuni sjúklinga sinna fyrir brjósti en ekki hagmuni ríkisins, og þá þeirra laga sem ríkið kann að setja á hverjum tíma á grundvelli almannahagsmuna, þ.e.a.s. ef þau stangast á við hagsmuni sjúklings.
En hvernig er lagaumhverfi íslenskra lækna háttað þegar að þessu kemur?
Í 9. útgáfu (2021) siðareglna Læknafélags Íslands er komið inn ákvæði í 2. mgr. 5. gr., sem segir:
„Læknir skal mæla fyrir lýðheilsu, verndun umhverfis, lofthjúps, vistkerfis jarðar og náttúru, í þágu lífsskilyrða lífríkis og heilbrigðis alls mannkyns.“
Já, samfélagsábyrgð er komin inn í siðareglur Læknafélags Íslands og læknum er þar gert skylt að vinna að slíkum markmiðum, „For the Greater Good“. Litið hefur verið á bólusetningar sem mikilvægt lýðheilsu- og almannahagsmunamál og gæti því sú staða verið uppi að ef læknir mælir gegn bólusetningum þá sé viðkomandi þar með sjálfvirkt brotlegur við þessar siðareglur. Kann almenn þögn lækna um bólusetningar að einhverju leyti orsakast af þessu?
Vitað er að öll bóluefni geta valdið skaða en notkun þeirra er réttlætt með því að skaðinn sem þau kunna að valda sé mun minni en sá skaði sem bólusetningar eiga að afstýra. Það er samt verið að taka meðvitaða ákvörðun um að mögulega valda hópi fullfrísks fólks skaða sem réttlætt er með hagsmunum heildarinnar, „For the Greater Good“.
Skyldubólusetningar / Þvingun
„Veitum sjúklingum upplýsingar og fræðslu og virðum sjálfsákvörðunarrétt þeirra.“
Að þvinga fólk, eða mælast til þvingunar eða skyldu, til að undirgangast bólusetningar, með beinum eða óbeinum hætti, fer bersýnilega ekki saman við meginregluna um að virða skuli sjálfsákvörðunarrétt. Slík valdboðun er því nokkuð afdráttarlaust brot á þessari tilvísuðu meginreglu. Þeir læknar sem hafa talað fyrir því að slíkum þvingunum sé beitt ættu því að fara að hugsa sinn gang.
Læknaeiðurinn
Fyrst er rétt að spyrja, hvað er þessi læknaeiður? Læknaeiðurinn er yfirlýsing til landslæknis, sem allir tilvonandi læknar þurfa að undirrita. Í þessum læknaeið stendur:
„Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn, að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi, að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits, að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum, að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.“
Þetta hljómar vel í fyrstu en ef betur er að gáð þá er lækninum í raun ætlað að þjóna tveim herrum, annars vegar sjúklingnum og svo ríkinu. Læknir á annars vegar að „beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi, að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína“ og svo „halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.“
En hver er staða læknisins ef þetta fer ekki saman?
Á læknirinn þá að fylgja eigin kunnáttu og samvisku eða á hann að fara eftir lögum og fyrirmælum yfirvalda?
Svarið við því er að ef læknirinn fer ekki að fyrirmælum yfirvalda þá á hann á hættu að vera sviptur læknaleyfi sínu, sem er sú staða sem áþreifanlega er nú uppi í Bandaríkjunum. Sú mjög sérstaka og áður óheyrða staða er þar uppi að yfirvöld hafa gefið nákvæm og í raun bindandi fyrirmæli um hvernig á að meðhöndla sjúklinga með tiltekna veirusýkingu, þá með tilteknum lyfjum í tilteknu magni.
Ef læknar víkja frá þessum fyrirmælum eru þeir ekki bara reknir heldur eiga þeir á hættu að verða sviptir læknaleyfi sínu, alveg óháð því hver útkoman er fyrir sjúklinginn. Þessi fyrirmæli hafa sætt vaxandi gagnrýni lækna, ekki síst í ljósi þess að hver sjúklingur er einstakur og sú meðferð sem hann þarf á að halda er jafnframt einstaklingsbundin, þ.e.a.s. ekki getur eitt yfir alla gengið. Læknum er því í raun meinað að beita eigin þekkingu og reynslu í þágu sjúklinga sinna heldur verða þeir þess í stað einungis að meðhöndla sjúklinginn með tiltekinni „ríkismeðferð“, sem felur m.a. í sér að gefa tiltekið lyf. Svo undarlega vill til að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur séð sérstaka ástæðu til að vara við notkun á þessu tiltekna lyfi. Þessi „ríkismeðferð“ hefur jafnframt verið tekin upp víða um heim vegna þeirrar yfirburðastöðu sem heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa í heiminum, þau beinlínis eru höfuðið í þessum málum á heimsvísu.
Sú staðreynd að gefin voru út nákvæm og í raun bindandi fyrirmæli um meðhöndlun tiltekinnar veirusýkingar er með nokkrum ólíkindum og jafnframt algerlega fordæmalaus, og þá að engin frávik frá þeirri meðferð séu leyfð. Afleiðingin er sú að fólk er að missa allt traust til heilbrigðisstarfsmanna, reiði fer vaxandi og fólk þorir sumt einfaldlega ekki að fara á sjúkrahús af ótta við að fá þar hina einu réttu „ríkismeðferð“. Getur verið að þetta sé skýring þess að fréttir berast nú utan úr heimi um að mótmæli almennings beinist í auknu mæli að heilbrigðisstarfsmönnum?
2 Comments on “Hefur samfélagsábyrgð leitt lækna út af sporinu?”
Góðar hugleiðingar
Flott skrif takk fyrir þetta. Fyrir mig persónulega treysti ég ekki neinu sem meginstraumsmiðlar, sjónvarpsslæknar, löggur og ráðamenn segja. Maður gerir í raun allt öfugt við það. Heilbrigðistéttin og vissir einstaklingsar á þingi hafa misst alla virðingu, það verður litið til baka á þessa tíma sem varnarorð fyrir komandi kynslóðir hvernig á EKKI að gera hlutina. En það er bjart framundan, þessi spilaborg þeirra er í frjálsu falli og þau munu hvergi geta falið sig. Réttlæti fyrir fólkið mun koma og þeir sem eru sofandi enn munu vakna