Óeirðir í Svíþjóð vegna Kóranbrenna

[email protected]Ingibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Eftir Ingibjörgu Gísladóttur:

Það hefur verið róstusamt í hluta Svíþjóðar páskahelgina. Sænska ríkisútvarpið er með gott yfirlit. Á skírdag brenndi Rasmus Paludan, leiðtogi flokksins danska , Stram kurs, Kóran er hann átti sjálfur í Jönköping og ætlaði að gera hið sama í Linköping en áður en hann komst þangað brutust út óeirðir þar sem þrír lögreglumenn slösuðust og kveikt var í lögreglubíl. Um kvöldið kom einnig til óeirða í Nörrköping þar sem 15 bílar brunnu, ráðist var á sporvagn og grjóti var kastað að slökkviliði og lögreglu.

Á föstudaginn langa brenndi Rasmus annan Kóran í Rinkeby, Stokkhólmi, þar sem grjóti var hent í lögregluna. Átta voru handteknir. Síðar um daginn mætti Stram kurs í Örebro. Margir lögreglumenn urðu þar fyrir grjóti og einnig almennur borgari. Síðan voru margir lögreglubílar brenndir og rænt úr þeim.

Á laugardaginn hafði Paludan fengið leyfi fyrir samkomu í Landskrona en hún var flutt til Malmö. Á báðum stöðum kom til óeirða með grjótkasti og bílabrunum. Í Rosengård í Malmö var kveikt í almenningsvagni.

Á sunnudaginn hafði Paludan tilkynnt að hann hygðist mæta í Norrköping og Linköping en mætti ekki. Í Nörrköping söfnuðust 100-150 óeirðaseggir saman og lögreglan taldi sér ógnað, skaut og særði þrjá þeirra.

Á sunnudagskvöldið og aðfaranótt mánudags söfnuðust ungmenni saman í Rosengård í Malmö þar sem kveikt var í á mörgum stöðum og lögreglunni mætt með grjótkasti. Einnig var kveikt í skólabyggingu.

Samtals hafa meira en 40 verið handteknir og trúlega 17 lögreglumenn hlotið skaða í þessum gerningi „hægriöfgamannsins“ Rasmus Paludan.

Er Rasmus Paludan „hægriöfgamaður“?

Fjölmiðlar, líka RÚV, lýsa Rasmusi alltaf sem hægriöfgamanni en viðtali við Samnytt segist hann alls ekki vera það og enginn öfgamaður heldur. Öfgamenn beiti ofbeldi eða hótunum og það geri hann alls ekki. Hann sé þjóðhollur og frjálslyndur (libertarian), elski frelsi og vilji minni ríkisafskipti. Það að hann sé þjóðhollur merki bara að hann elski danska og sænska þjóð. Í viðtalinu var hann spurður af hverju hann brenndi Kóraninn. Svar hans var að hann vildi koma því til skila að sér fyndist hugmyndafræði íslam vera afar heimskuleg og að enginn geti bannað sér að brenna bók í eigin eigu. Slíkt sé leyfilegt í Svíþjóð; menn megi gagnrýna hugmyndir í Svíþjóð og íslam sé hugmyndafræðilegt kerfi.
Einnig var hann spurður út í þá gagnrýni að mótmæli hans væru of kostnaðarsöm fyrir skattborgarana og bitnuðu á lögreglunni. Því svarað i hann þannig: „Það er ekki ég sem beiti sænsku lögregluna ofbeldi og það er ekki ég sem brenni bíla. Sænskir stjórnmálamenn hafa í 40 ár fylgt þeirri stefnu að fólk þeirrar tegundar sem brennir bíla og ráðist á lögregluna fái að dvelja í Svíþjóð. Sænska þjóðin hefur valið stjórnmálamenn sem hafa tekið þær ákvarðanir. Ég reyni að sannfæra Svía um að þær ákvarðanir hafi verið slæmar.“

Morgan Johansson, dómsmálaráðherra, kallar Rasmus vandræðamann í viðtali á Tv 4 en segir að áfram eigi jafnvel að gefa hægriöfgamönnum leyfi til að mótmæla. Hann vill meina að fleiri lönd en Svíþjóð þurfi að þola uppákomur eins og þær er urðu í Austurgotlandi, Stokkhólmi og Örebro á síðustu dögum en þær kalli þó á endurmat. Lögreglan gæti þurft að vera betur mönnuð, búin réttum tækjum og hafa fengið þjálfun í að takast á við svona atburði.

Allir vildu lögreglumennirnir snúa til baka

Í lesendabréfi er birtist í NT, dagblaði á Austurgotlandi, lýsir lögreglumaður upplifun sinni af því að vera á vakt í Skäggetorp. Þeir hafi verið of fáir og í lífshættu í grjót- og flöskuregni. Þeir ákváðu að hörfa og bjarga því sem hægt væri af sundurbörðum bílum sínum. Hann átti von á það væri hið síðasta sem hann gerði í þessu lífi. Lögreglan safnaði liði og vildi taka á óeirðaseggjunum en yfirstjórnin gaf aldrei þau fyrirmæli. Hann vill að íbúarnir viti að það var yfirstjórn lögreglunnar sem sveik og að topparnir skilji að það sé hann og félagar hans sem þurfi að mæta á vakt í Skäggetorp næsta dag, í næstu viku og þeirri þarnæstu. Það séu þeir sem þurfi að útskýra af hverju þeir hafi yfirgefið íbúana þegar Skäggetorp brann og ekki snúið aftur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.