Fjölmiðlar sem bergmálshellir stjórnvalda?

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Arnar Þór Jónsson lögmann og Svölu Magneu Ásdísardóttur fjölmiðlafræðing. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2022.

„Má undir merkjum lýðræðis og tjáningarfrelsis setja á fót stigskipt valdakerfi og upplýsingakerfi sem útilokar  gagnrýna orðræðu?”

Í lýðræðislegu samhengi gegna fjölmiðlar því mikilvæga hlutverki að veita aðhald þeim sem fara með pólitískt og efnahagslegt vald á hverjum tíma. Þetta er gert í þágu almennings. Hlutverk fjölmiðla er m.ö.o. ekki að veita almenningi aðhald í þágu valdhafa. Fram eru komnar vísbendingar um að þetta samhengi hafi riðlast á tímum kórónuveirunnar.

Jafnvægið er viðkvæmt og þarfnast verndar á öllum tímum

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir fjórða valdið, á eftir löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvaldi. Með hugtakinu er átt við að fjölmiðlar geti, beint eða óbeint, haft áhrif á eða stýrt rás atburða með umfjöllun sinni. Í faraldrinum mátti sjá þetta fjórða vald virkjast með beinum hætti þegar ríkislögreglustjóri bætti fréttafólki á lista yfir „framlínufólk”, samkvæmt ábendingu frá Fjölmiðlanefnd. Þessu samhliða var viðbragðskerfi Almannavarna Íslands ræst og gefin út viðbragðsáætlun í maí 2020 með fyrirmælum til íslenskrar stjórnsýslu „um skipulag og stjórn aðgerða vegna hvers kyns heimsfaraldurs”. Í skjalinu má finna sérstakar leiðbeiningar fyrir fjölmiðla, þar sem segir m.a. að „ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir eru ábyrgir fyrir stöðugri upplýsingamiðlun til almennings, fjölmiðla og annarra stjórnvalda og viðbragðsaðila.”

Af þessu leiddi að upplýsingagjöf til almennings tók stakkaskiptum og færðist úr hefðbundnum gagnrýnum fréttaflutningi yfir í óritrýnt bergmál frá fréttatilkynningum þríeykisins. Þannig urðu fréttamiðlar að sviðspalli fyrir upplýsingastefnu yfirvalda, með fyrirfram útvöldum sérfræðingum.

Samþjöppun valds framkallar ójafnvægi

Sérfræðingar eru hverju þjóðfélagi mikilvægir, en þegar þröngum hópi útvalinna manna er veitt kennivald umfram aðra verður í raun til nokkurs konar vísindalegur rétttrúnaður þar sem ný tegund „prestastéttar” tekur sér skilgreiningarvald, amast við heilbrigðum efa, brigslar mönnum um villutrú, bannfærir og útskúfar. Með þessu móti er grafið undan frjálsri sannleiksleit og unnið gegn vísindalegri aðferðafræði.

Samhliða framangreindri viðbragðsáætlun var hrint af stað „árvekniátaki” gagnvart „upplýsingaóreiðu” og falsfréttum. Fjölmiðlanefnd stóð fyrir átakinu „í samstarfi við Embætti landlæknis og Vísindavefinn” og „með stuðningi frá Facebook”. Átak þetta var sett af stað í nafni gagnrýninnar hugsunar, en hafði þó í framkvæmd þau hliðaráhrif að grafa undan gagnrýninni hugsun, með því að gefa út leiðbeiningar um hverju fólk ætti að trúa og hverju ekki, sbr. m.a. tilvísun til þess að við mat á fréttum bæri að horfa til þess hvort „stórir og rótgrónir miðlar hafi fjallað um málið”.

Lesendur eru hér hvattir til að bera þetta saman við samsvarandi alþjóðlegt átak undir merkjum „Trusted news initiative” þar sem stærstu fréttaveitur og tæknifyrirtæki heims unnu saman að því að stýra upplýsingaflæði um kórónuveiruna og „verja almenning fyrir falsfréttum (e. disinformation)”. Samkvæmt könnun alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Kekst CNC, sem birt var í júlí 2020, verður þó að álykta að fréttaflutningur hafi leitt til þess að almenningur á Vesturlöndum hafi stórlega ofmetið hættuna af kórónaveirunni. Útbreiddur og illa rökstuddur ótti kann að skýra það hve langt stjórnvöld gengu í valdboði og afnámi borgaralegra réttinda. Ábyrgð fjölmiðla í þessu samhengi má ekki vanmeta. Nánari athugun leiðir í ljós að líkindin eru ekki tilviljun. Í ársskýrslu Fjölmiðlanefndar kemur fram að árið 2019 var skrifað undir starfsreglur (e. Code of Practice on Disinformation) milli Evrópusambandsins og alþjóðlegu tæknifyrirtækjanna Facebook, Google, Twitter, Mozilla, Microsoft og TikTok þar sem „fyrirtækin skuldbundu sig til að sporna gegn dreifingu rangra og villandi upplýsinga í ríkjum Evrópu”. Samráðshópur evrópskra fjölmiðlanefnda, sem Fjölmiðlanefnd situr í fyrir hönd Íslands, átti síðan að fylgjast með því hvort farið væri eftir reglunum. Með samstilltu átaki Fjölmiðlanefndar og samráðshópsins, ásamt aðstoð mennta- og menningarmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins, var stórfyrirtækjum gert skylt að framfylgja reglunum á Íslandi fyrir kosningar til Alþingis haustið 2021.

Af hálfu yfirvalda var staðhæft án fyrirvara um margvísleg boð og bönn, sem sögð voru vísindaleg og því óumdeilanleg(!), gagnleg, góð og heilsusamleg, allt í nafni lýðheilsu. Þegar þetta er ritað hefur komið í ljós að margar þessara fullyrðinga voru misvísandi og rangar, auk þess sem þær báru einkenni áróðurs. Sem dæmi var ekki greint frá fyrirhuguðum bólusetningum barna gegn kórónuveirunni með spurningunni „hvort“, heldur „hvenær“, þrátt fyrir að þá þegar væri ljóst að bóluefnin höfðu í besta falli takmarkaða virkni og í versta falli skaðleg áhrif vegna aukaverkana. Framsetningin miðaði að því að drepa niður málefnalega rökræðu, því efanum var sjaldan mætt með öðru en háði. Orðræðan í fréttaflutningi varð sömuleiðis snemma fullmótuð og einhliða. Með vísan til kennivalds og útbreiðslu tiltekinna skoðana voru önnur sjónarmið kæfð. Í anda áróðursmanna fyrri tíðar voru efasemdir um hina opinberu stefnumörkun stimplaðar sem samsæriskenningar; heilbrigður efi bældur niður og andmæli hædd sem merki um fávisku, þekkingarleysi og jafnvel vænisýki.

Handhafar sannleikans?

Framangreind atburðarás vekur upp áleitnar spurningar um hlutverk og skyldur stjórnvalda: Er ekkert við það að athuga að Fjölmiðlanefnd, sem eftirlitsstofnun, gangi til náins samstarfs við þau stjórnvöld sem fara með stefnumörkun á hverjum tíma, valdamestu innlenda sérfræðinga og mikilvægustu ráðgjafa stjórnvalda, með stuðningi erlends stórfyrirtækis, sem jafnframt er áhrifaríkasti samfélagsmiðill samtímans? Er ekkert athugavert við að slíku samstarfi sé í reynd beint gegn gagnrýninni hugsun og frjálsri umræðu með því að útnefna tiltekna sérfræðinga sem handhafa sannleikans? Má undir merkjum lýðræðis og tjáningarfrelsis setja á fót stigskipt valdakerfi og upplýsingakerfi sem útilokar gagnrýna orðræðu? Má undir merkjum lýðræðis og tjáningarfrelsis útiloka sérfræðiálit sem teljast vera á skjön við hina opinberu línu sem stjórnvöld hafa áður markað? Breytast svörin við þessum spurningum þegar í ljós kemur að margt af því, sem í átakinu var sett fram sem óumdeilanleg sannindi, hefur reynst misvísandi eða rangt? Getur m.ö.o. hugsast, að með tilkomu nýrra gagna verði niðurstaðan sú að framangreint „árveknisátak” hafi í reynd vegið að tjáningarfrelsinu og grafið undan lýðræðislegu stjórnarfari?

Þegar vandi steðjar að ber stjórnvöldum að svara því í hverju vandinn felst og að hverjum hann beinist. Gæta ber meðalhófs og sjá til þess að varnir gegn einum vanda skapi ekki enn meiri vanda annars staðar. Áhættumatið þarf að vera raunsætt, byggja á staðreyndum og sæta stöðugri endurskoðun. Tillögur að lausnum þurfa að taka tillit bæði til kostnaðar og ábata af fyrirhuguðum aðgerðum. Til að allrar sanngirni sé gætt skal tekið fram að tilgangur frétta og fjölmiðla er líka að halda almenningi vel upplýstum þegar hættuástand er sannarlega fyrir hendi. Í því ljósi má þó öllum vera ljóst að öryggiskröfur hljóta að teljast mjög veiktar þegar opinberar stofnanir á borð við RÚV, Háskóla Íslands, Fjölmiðlanefnd o.fl. sameinast í átaki sem miðar að því að kveða niður gagnrýni á það sem stjórnvöld gera. Að okkar mati urðu vatnaskil þegar blaða- og fréttamönnum var bætt á lista almannavarnadeildar yfir starfsfólk í framlínustörfum og öðlaðist þar með vissan forgang að samfélagslegri þjónustu umfram aðra borgara landsins. Fjölmiðlamönnum var snúið frá því að veita stjórnvöldum aðhald og þeir gerðir að samherjum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, landlæknis og sóttvarnalæknis. Fjórða valdið sem gagnrýnandi afl aðhalds var í reynd tekið úr sambandi.

Lærdómar til framtíðar

Í ljósi framanritaðs þarf að hyggja að því hvernig fjölmiðlar og opinberar stofnanir hafa rækt hlutverk sitt í því samhengi sem hér um ræðir. Vonandi verður niðurstaðan ekki sú að þeir menn og þær stofnanir sem sérstaklega er ætlað að standa vörð um lýðræði og málfrelsi hafi í framkvæmd höggvið í þessar grunnstoðir borgaralegs frelsis. Þegar horft er til eignarhalds stærstu fjölmiðla heims og eignatengsla við stærstu lyfjaframleiðendur blasir við að sérstakrar aðgæslu og aðhalds er þörf hjá ríkisfjölmiðlum og opinberum eftirlitsstofnunum. Í kórónuveirufaraldrinum virðast þessi mörk hafa máðst út og háskalegur samruni opinbers valds við alþjóðleg stórfyrirtæki leitt lýðræðisógn yfir almenning í formi hræðsluáróðurs sem miðaði að því að samræma hegðun og þagga niður í efasemdaröddum. Þegar horft er yfir atburðarás sl. tveggja ára birtist grafalvarleg mynd, sem í raun má kenna við lýðræðishrun. Þingræði var í reynd afnumið og opinbert vald afhent sérfræðingum í allt of ríkum mæli, án viðunandi valdtemprunar og aðhalds. Nauðsynlegt er að við, sem samfélag, drögum lærdóm af þessari reynslu þannig að aldrei aftur verði borgaralegt frelsi skert jafn alvarlega, af öðru eins tilefni.

Heimildir með greininni má sjá hér.

Skildu eftir skilaboð