Breskur lögfræðingur, Louise Atkinson, féll í yfirlið bæði daginn eftir fyrri og síðari COVID-19 bólusetningu á síðasta ári.
Í fyrra skiptið var hún að baða 9 mánaða gamla dóttur sína þegar hún missti meðvitund með þeim afleiðingum að ungabarnið drukknaði í grunnu baðvatni, að sögn lögreglu.
Þegar eiginmaður hennar kom heim ýtti hann upp baðherbergishurðinni til að komast inn því eiginkona hans svaraði honum ekki.
Honum til mikillar skelfingar sá hann dóttur þeirra með blátt andlitið ofan í baðvatninu. Herra Atkinson tók barnið upp úr vatninu og vakti konu sína. Hann lagði Ellie síðan á baðherbergisgólfið þar sem hann hóf endurlífgun á meðan hann hringdi í neyðarlínuna.
Ellie var flogið með þyrlu til Southampton General Hospital, Hampshire, en hún var úrskurðuð látin fjórum tímum síðar, 23. mars 2021.
Krufning bendir til þess að dánarorsökin hafi verið innöndun á vatni eða drukknun.
Lögreglan rannsakaði dauða Ellie og komst að þeirri niðurstöðu að um „hörmulegt slys“ væri að ræða.
Þeir höfðu samband við Public Health England vegna aukaverkana frú Atkinson við bóluefninu og fengu senda almenna skýrslu sem sagði að „syfja og sljóleiki“ væri óalgeng aukaverkun.
Í réttarhöldunum í Bournemouth kom fram að Ellie hafi fæðst fyrir tímann og væri með hjartagalla og í undirþyngd.
Hún átti að fara í hjartaaðgerð 25. mars og frú Atkinson sagðist hafa átt í erfiðleikum með að sofa eða borða dagana á undan vegna streitu.
Það var líka aukið álag við að skipuleggja Covid sýnatökur fyrir hana og eiginmann hennar til að þau gætu verið með barninu í fyrirhugaðri sjúkrahúsdvöl, kom fram í réttarsal.
Hún sagðist hafa fallið aftur í yfirlið þegar hún heimsótti gröf Ellie daginn eftir að hún fékk sinn annan AstraZeneca skammt í júní 2021. Vegfarandi sá hana falla til jarðar og kom henni til hjálpar.
Frú Atkinson sagði fyrir rétti að hún hafi gengist undir sjö daga rannsókn eftir annað yfirliðið og þótt fagfólk hafi ekki gefið neina ákveðna skýringu, var bólusetningin tilgreind sem ein af orsakaþáttunum.
Hún sagði: „Ég fékk Oxford-Astrazeneca Covid bóluefnið daginn áður (en Ellie dó) og þegar ég lít til baka leið mér undarlega og var ekki ég sjálf og daginn eftir annan skammtinn í júní 2021 fór ég til Ellie því hún er grafin nokkuð nálægt okkur og við förum þangað á hverjum degi.“
„Ég gekk þangað og kraup á beði hennar og það eina sem ég man eftir var strákur sem hjálpaði mér. Hann sagðist hafa séð mig byrja að detta og vera illa áttaða.“
Frú Atkinson, sem er háttsettur lögfræðingur AA Limited, sagði það vera óvenjulegt að hún félli í yfirlið og það hefði aðeins gerst tvisvar um ævina áður en Ellie lést, í bæði skiptin á táningsaldri.
Nánar má lesa um málið í frétt Daily Mail.