Geir Ágústsson skrifar:
Nú er fundað á alþjóðlegum vettvangi með það að markmiði að gera kínversku uppskriftina að veiruvörnum að alþjóðlega samhæfðri áætlun. Gaman, ekki satt?
Þema heilbrigðisþingsins í ár er: Heilsa fyrir friðinn, friður fyrir heilsuna.
COVID-19 heimsfaraldurinn og annað neyðarástand í heilbrigðismálum á alþjóðavísu hafa sett athygli á leiðtoga- og samhæfingarhlutverk WHO til að bregðast við slíkum atburðum. Efling á viðbúnaði og viðbrögðum í neyðarástandi í heilbrigðismálum er lykilþema heilbrigðisþingsins.
Hérna hafa skriffinnarnir eitthvað misskilið undanfarin tvö ár. Engin samræming eða leiðsögn kom frá WHO. Þess í stað fundu einstaka ríki upp sín eigin vísindi, sem betur fer í sumum tilvikum en því miður í öðrum. Fjarlægðatakmarkanir og lokanir voru mismiklar, fyrirmæli um grímunotkun innan- og utandyra gjörólík, skerðingar á borgaralegum réttindum eftir vali á lyfjagjöf mismiklar, áherslur á fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmmeðferðir af öllu tagi og stundum engar, mat á dánarorsökum mjög fjölbreytt og sá hraði sem ríkissjóðir steyptu sér í ósjálfbær skuldafen mismikill.
Hvað er þá til ráða? Að stilla saman strengi á alþjóðlegum vettvangi? Afnema ríkjavísindin og reyna innleiða alþjóðlega viðurkennd vísindi á ný?
Varla þá að snúa aftur til leiðbeininga ársins 2019 sem var sennilega ágæt sátt um, er það?
Nei. Þrýstingurinn er í þá áttina að allir verði sammála um hina kínversku uppskrift að veiruvörnum: Að loka fólk inni, frysta hagkerfið og leyfa fólki í sem minnstum mæli að taka eigin ákvarðanir er varða smitvarnir.
Þetta verður ekki lagalega bindandi. Enn er svigrúm fyrir yfirvegaða nálgun. En þrýstingurinn er til staðar. Fylgja vísindunum! Já, gott og vel, en hvaða vísindum? Þessum kínversku sem á nú að gera alþjóðleg?
Nei takk.
Vonandi hefur nógu mörgum tekist að sjá í gegnum þokuna til að andspyrnan við næstu umferð takmarkana - hvenær svo sem hún kemur en kemur óumflýjanlega - dugi til að verjast.