Fréttir

Bensínið dýrast á Íslandi

frettinViðskiptiLeave a Comment

Samkvæmt samanburði á eldsneytisverði í 34 Evrópulöndum á vefsíðunni www.tolls.eu þá njótum við Íslendingar þess vafasama heiðurs að borga hæsta bensínverðið í Evrópu. Samanburðurinn nær yfir meðalverð á bensín- og dísillítra í löndunum þann 29. ágúst 2022. Verðin eru uppreiknuð með skráðu viðmiðunargengi Evru hjá Seðlabanka Íslands.  Þetta kemur fram á síðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Tyrkland sem er að hluta í Evrópu en ekki meðlimur í Evrópusambandinu er með langlægsta bensínlítraverðið og þar á eftir koma Ungverjaland og Malta. Ísland sker sig út varðandi hátt verð en verðin eru næst hæst í Noregi og þá Sviss.

Meðalverð á bensínlítra 29. ágúst 2022

Í Evrópusambandinu er reglugerð sem kveður á um lágmarksskattheimtu aðildarríkjanna á hvern lítra af bensíni eða 0,36 Evrur, tæplega 51 íslensk króna. Búlgaría, Malta, Pólland og Ungverjaland leggja aðeins lágmarks ES-skattinn á bensín en öll hin aðildarríkin leggja meira á hvern lítra. Hollendingar leggja mest á hvern lítra eða 0,82 Evrur sem gerir tæplega 116 íslenskar krónur,  þá Ítalía 0,73 Evrur (103,15 ISK) og lokst Finnland 0,72 Evrur (101,75 ISK).

Fastur bensínskattur í Noregi er 6,73 NOK á lítra sem gerir um 95,40 ISK. Íslensk stjórnvöld leggja 89,40 krónur á hvern bensínlítra fyrir utan virðisaukaskatt. Þetta eru fastir skattar á hvern bensínlítra en síðan bætist virðisaukaskattur á endanlegt útsöluverð. Virðisaukaskattur í Hollandi er 21% en 25% í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Finnland er með 24% eins og Ísland. 

Skattar hafa veruleg áhrif á kostnað neytenda vegna bensínkaupa en skattar útskýra ekki þá staðreynd að íslenskir neytendur borga hæsta bensínverðið í Evrópu. Líkt og FÍB hefur oft ítrekað þá búum við hér á landi við mjög háa álagningu á hvern seldan lítra af eldsneyti og skort á samkeppni.

Skildu eftir skilaboð

Um Fréttina

Fréttin er óháður fréttamiðill sem fjallar um málefni líðandi stundar bæði innanlands og utan. Við fordæmum þöggun og skoðanakúgun, tjáningafrelsið er hornsteinn lýðræðislegs samfélags.

Ertu með áhugaverða frétt eða grein?