Árið 2019 stofnaði Hollendingurinn Guus Berkhout, sem var prófessor í jarðeðlisfræði við Tækniháskólann í Delft, stofnunina CLINTEL ásamt öðrum manni til að safna og miðla upplýsingum um loftslagsbreytingar. Hann sendi frá sér yfirlýsingu um að það væri ekkert neyðarástand í loftslagsmálum. Loftslagsvísindi ættu að vera ópólitískari og taka ætti afleiðingarnar af stefnumótun í loftslagsmálum inn í jöfnuna. Fleiri en 1100 vísindamenn frá meira en 40 þjóðum hafa nú þegar skrifað undir þessa yfirlýsingu hans en yfirlýsinguna og nöfnin má sjá á clintel.org. Þar er efstur á blaði norskur Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, Ivar Giæver.
Einn af þeim sem hefur sett nafn sitt við yfirlýsinguna er Patrick Moore, einn af stofnendum Greenpeace. Á vefsíðu Epoch Times mátti þann 6. september síðastliðinn sjá grein sem unnin er upp úr skoðanaskiptum hans á Twitter við suður-kóreanskan prófessor í umhverfisfræðum, Seok-soon Park að nafni, en sá er einnig á lista clintel.org. Patrick Moore er með doktorspróf í vistfræði og yfirgaf Greenpeace 1986 vegna þess (eins og hann segir í greininni) að félagar hans vildu banna notkun klórs og hann gat ómögulega fengið þá til að skipta um skoðun.
Komið er inn á margt í greininni: „Umhverfishreyfingin er fremur orðin pólitísk hreyfing en umhverfishreyfing,“ er haft eftir honum. „Fókus þeirra er fyrst og fremst á því að skapa frásagnir, sögur, sem er ætlað að koma inn ótta og sektarkennd hjá almenningi til að almenningur sendi þeim peninga.“ Hann segir að þeir starfi að mestu bak við luktar dyr með öðrum pólitískum samverkamönnum hjá SÞ, Alheimsefnahagsstofnuninni (WEF) og öðrum stofnunum sem séu í grunninn pólitískar. IPCC er ekki „vísindastofnun,“ segir hann. „Hún er pólitísk stofnun samsett af Alheimsveðurfræðistofnuninni og umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna.“ Hann segir að IPCC ráði vísindamenn sem veiti þeim „upplýsingar" sem styðji við þá sýn þeirra að um „neyðarástand í loftslagsmálum“ sé að ræða.
Moore er ósáttur við að margir leiðtogar „umhverfissinna“ séu nú þeirrar skoðunar að „mannkynið sé óvinir Jarðar, óvinir náttúrunnar.“ Hann segist ekki hafa getað samþykkt að mannkynið sé eina illa dýrategundin - að mannverur séu fæddar illar en allar aðrar dýrategundir séu góðar, jafnvel kakkalakkar, moskítóflugur og þær örverur er valda sjúkdómum. Hann segir að það sé nú ríkjandi hugmyndafræði að heimurinn yrði betri ef minna væri um fólk í honum. Hann segir að ungu fólki sé innrætt hugmyndafræði sem fylli það sektarkennd og skömm - það sé ekki góð undirstaða fyrir lífið.
Nær allar auglýsingar Greenpeace til að afla styrkja séu byggðar á fölskum grunni, segir hann, svo sem áróðurinn um að ísbirnir séu í útrýmingarhættu. Í reynd hafi þeim fjölgað frá því að vera 6-8.000 1973 í að vera nú 30-50.000 en samt segi menn að ísbirnir verði útdauðir árið 2100 rétt eins og þeir eigi einhverja krystalskúlu sem þeir geti notað til að spá fyrir um framtíðina.
Moore segir að það sé fullkomlega fáránlegt að útmála CO2 sem skaðvald, það sé grundvöllur alls lífs á jörðinni og í nær allri jarðsögunni hafi verið meira af því en nú er. Aukning þess í andrúmsloftinu hafi valdið auknum vexti plantna og grænkun á þurrum svæðum, s.s. í Afríku. Hann segir að hamfaraspámennirnir hafi valið að einblína á ártalið 1850 en það hafi verið farið að hlýna fyrir upphaf iðnbyltingarinnar og sýnir hann graf yfir hitamælingar á mið-Englandi frá 1659 til 2007. Inn á grafið hefur verið skeytt línuriti yfir aukningu CO2 í andrúmsloftinu og sést vel að ekkert samræmi er þar á milli.
Um vind- og sólarorku hefur hann eftirfarandi að segja: „Það er trú mín að vind- og sólarorka séu sníkjudýr á efnahagskerfinu. Með öðrum orðum þá gera þau þjóðfélögin fátækari en ef tryggari og ódýrari tæknilausnir hefðu verið notaðar.“ Hann segir að seljendur vind- og sólarorku treysti mjög á niðurgreiðslur frá ríkinu, skattaafslætti og skyldukaup, þar sem notendur séu þvingaðir til að kaupa orku sem sé þannig framleidd jafnvel þótt hún sé miklu dýrari, á þeim forsendum að hún sé „umhverfisvæn“ - sem sé óvíst því uppbygging vindorku- og sólargarða krefjist gífurlegs magns jarðefnaeldsneytis til námugraftar, flutnings efna og uppsetningar.
Plast segir hann að sé ekki eitrað því við notum það til að verja mat okkar frá því að mengast. Samkvæmt Moore eru meltingarfæri okkar vel fær um að gera greinarmun á „fæðu“ og plasti eða sandkornum. Líkami okkar taki ekki upp sandkorn inn í blóðstrauminn, sama hversu lítil þau séu. Plast í sjónum sé rusl en ekki mengun. Veiðarfæri er losnað hafa frá bátum séu undantekningin, ekki af því að þau séu úr plasti heldur af því þau séu gerð til að veiða fiska.
Vísindin hafa komist að niðurstöðu, segja menn. Stöðug aukning CO2 í andrúmsloftinu veldur hamfarahlýnun sem aðeins má koma í veg fyrir með því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis, og jafnvel kjarnorku - en grænu lausnirnar eru langt frá því að skila þeirri orku er þarf til að halda þjóðfélögunum gangandi sem er ávísun á orkuskort, köld heimili og matarskort. Þurfum við endilega að halda áfram að hlusta á fólk eins og Al Gore, Leonardo DiCaprio og Greta Thunberg? Ekkert þeirra býr yfir menntun í vísindum.
One Comment on “Patrick Moore, einn stofnanda Greenpeace deilir á umhverfishreyfinguna”
Þarf liðið að hlusta á Al Gore, Leonardo DiCaprio og Greta Thunberg????? Auðvitað ekki,,,ekkert þeirra býr yfir menntun í vísindum.