Greiðslumiðlunarfyrirtæki gegn frjálsri umræðu

frettinViðskiptiLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Atlögurnar að frjálsri og opinni umræðu koma sífellt víðar að. Nú hefur greiðslumiðlunin PayPal lokað reikningum vefmiðlisins Daily Sceptic, sem gjarna birtir gagnrýni á stefnu stjórnvalda í ýmsum málum.

Paypal hefur einnig lokað reikningi samtakanna Free Speech Union, sem veita stuðning fólki sem til dæmis er rekið úr starfi vegna skoðana sinna. Paypal hefur meira að segja gengið svo langt að loka persónulegum reikningi Toby Young, sem er í forsvari fyrir bæði Daily Sceptic og Free Speech Union, og er jafnframt aðstoðarritstjóri The Spectator, sem er eitt virtasta vikurit heims. Engin svör fást við ástæðum þessarar atlögu eins og Toby greinir frá í meðfylgjandi grein.

Þegar svo er komið að einkafyrirtæki á sviði greiðslumiðlunar eða bankastarfsemi eru tekin að beita sér með þessum hætti ætti hverjum sem er að vera morgunljós sú alvarlega hætta sem nú steðjar að frjálsri og opinni umræðu. Nú eru eflaust margir sem hugsa sem svo að meðan þeirra eigin skoðanir eru leyfðar sé allt í lagi þótt aðrar skoðanir séu bannaðar. En sú afstaða, fyrir utan að hún er auðvitað siðferðilega röng, grundvallast á algeru hugsunarleysi; þegar svona er komið er nefnilega spurningin fremur sú hvenær, en ekki hvort það verða þínar skoðanir, en ekki hinna, sem verða útilokaðar. „Allt í lagi að banna hægrisinnuð viðhorf“ kynni grunnhygginn vinstrimaður að hugsa. „Allt í lagi að banna kommúnisma“ kynni grunnhygginn hægrimaður að hugsa. En eins og Toby bendir á í grein sinni eru einmitt vinstrisinnaðir miðlar meðal þeirra sem Paypal ræðst nú gegn, ekki aðeins þeir sem hallast til hægri líkt og Daily Sceptic.

Aðför Paypal grundvallast á andstöðu við tjáningarfrelsið, andstöðu sem maður hélt að væri liðin tíð - ætti heima á sorphaugum sögunnar. En við sjáum nú sífellt fleiri dæmi þar sem þessi afstaða skýtur upp kollinum. Um daginn var fólk handtekið og fært í fangelsi á Bretlandi fyrir að mótmæla einveldinu í námunda við skrúðgöngur með kistu nýlátinnar Bretadrottningar. Og þetta lét fólk sér í léttu rúmi liggja, flestir í það minnsta, þótt tilraunir til að þagga niður skoðanir andstæðinga einveldisins hafi ekki sést síðan á fimmtándu öld.

Julian Assange bíður nú framsals og ævilangrar fangelsisvistar í Bandaríkjunum fyrir að hafa birt skjöl sem komu þarlendum stjórnvöldum illa. En flestir kippa sér ekki upp við það.

Þetta eru aðeins tvö dæmi af ótalmörgum, sem sýna hvað við er að eiga og hvert við stefnum. Tjáningarfrelsið er grundvallargildi sem varðar okkur öll, sama hvar við stöndum í stjórnmálum eða lífsafstöðu. Við verðum að bera þroska til að standa skilyrðislausan vörð um það, alveg sama hversu pirrandi eða óheppilegar okkur þykja þær skoðanir sem þessa stundina er ráðist að. Því næst gætu það orðið okkar eigin skoðanir.

Daily Sceptic.

Skildu eftir skilaboð