Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur veitt uppljóstraranum Edward Snowden rússneskan ríkisborgararétt.
Snowden, sem er 39 ára, fékk hæli í Rússlandi eftir að flýja frá Bandaríkjunum þar sem hann ljóstraði upp um ýmis leynigögn bandarískra stofnana árið 2013. Hann starfaði sem greinandi hjá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni (NSA).
Hann lak gögnum til breska blaðsins Guardian og bandaríska blaðsins Washington Post sem sönnuðu að þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hafði stundað eftirlit og persónunjósnir um bandaríska þegna.
Snowden, sem á yfir höfði sér ákæru fyrir njósnir í Bandaríkjunum, hefur ekki tjáð sig opinberlega um rússneska ríkisfangið. Hann hefur sótt um ríkisborgararétt í mörgum löndum, m.a. á Íslandi.