Guðrún Bergmann skrifar:
Haustið er hér og veturinn framundan. Yfirleitt fylgir þessum árstíma minni útivera og meiri innivera. Margir kvarta yfir orkuleysi yfir vetrartímann, sem vel má bæta úr með því að auka birgðir líkamans af B-12. Það er nefnilega eitt af þeim bætiefnum sem flesta skortir, því það er svo erfitt að fá það úr fæðunni.
VÍTAMÍNIN FÁST EKKI ÚR FÆÐUNNI
Sá tími er löngu liðinn að við fáum öll þau næringarefni – vítamín og steinefni – sem við þurfum á að halda úr fæðunni, fyrst og fremst vegna þess að jarðvegurinn er næringasnauður og í hann vantar mikið af steinefnum.
Matvæli eru almennt ræktuð með miklu af kemískum eiturefnum, svo sem illgresiseyði og skordýraeitri. Leifar af þessum efnum fylgja fæðunni inn í líkama okkar og safnast gjarnan þar fyrir, svo það er þörf á að afeitra hann reglulega, því þessi eiturefni draga úr orku hans.
Að auki er mikið um unna matvöru, en það gerir okkur meðal annars erfitt um vik að fá nægilega mikið af B-12 í gegnum fæðuna.
AF HVERJU B-12?
B-12 er nauðsynlegt til framleiðslu á rauðum blóðfrumum, sem hluti af bindiferli kjarnasýru við prótín og fyrir heilbrigt taugakerfi. Sé um alvarlegan skort á þessu bætiefni að ræða, getur það haft óafturkræfar afleiðingar fyrir taugakerfið.
En hvernig veistu hvort þig skorti B-12? Eftirfarandi listi getur hjálpað þér að meta það:
1 – Þróttleysi, þreyta, svimi (lofthræðsla) og svimatilfinning
2 – Hjartsláttarónot og mæði
3 – Ljós eða gulleitur húðlitur
4 – Slétt yfirborð tungu
5 – Meltingarvandamál eins og harðlífi, niðurgangur, uppþemba eða skortur á matarlyst og bragðskyni
6 – Náladofi í líkamanum, dofi, þróttleysi í vöðvum og erfiðleikar með gang
7 – Sjónskerðing
8 – Geðræn vandamál eins og þunglyndi, geðsveiflur og minnistap
HJÁ HVERJUM ER MESTI SKORTURINN?
Þótt talið sé að flestir séu með einhvern B-12 skort eru sumir í meiri hættu á skorti en aðrir. Þar sem B-12 finnst aðeins í dýraprótíni eru þeir sem neyta að mestu plöntufæðu (vegan eða grænmetisætur) mun líklegri til að líða B-12 skort en aðrir. Fyrir þá er því mikilvægt að bæta sér upp þann skort með því að taka inn B-12 bætiefni.
B-12 er helst að finna í rauðu kjöti, fuglakjöti, sjávarfangi og eggjum. Það að vera kjötæta tryggir þó ekki endilega að nægilegt magn af B-12 sé í líkamanum, því það er ýmislegt annað sem tengist upptöku og nýtingu þess fyrir líkamann sem þarf að hafa í huga.
Skortur á B-12 getur til dæmis verið hjá þeim sem eru með lélega upptöku á næringarefnum vegna meltingarsjúkdóma, blóðkornaskorts (pernicious anemia), magabólgu, þunnrar slímhúðar í maga, Crohn‘s sjúkdóms eða glútenóþols.
HJÁVEITUAÐGERÐIR OG SJÁLFSÓNÆMI
Þeir sem hafa lengi notað sýruminnkandi lyf (við bakflæði) geta líka verið með B-12 skort, svo og þeir sem hafa drukkið mikið áfengi eða eru með of mikið af bakteríum (SIBO/Candida) eða snýkjudýrum í meltingarveginum. Fólk sem hefur farið í hjáveituaðgerðir í því skyni að léttast, á líka á hættu að vera með of lítið af B-12 vítamíni.
Þeir sem eru greindir með sjálfsónæmissjúkdóma eins og skjaldkirtilsvandamál eða lúpus geta líka verið með B-12 skort. Í tilviki sjálfsónæmissjúkdóma ræðst líkaminn ekki á óvinveittar örverur í líkamanum, heldur á sína eigin vefi, en það getur hindrað líkamann í upptöku á bætiefnum.
50 ÁRA PLÚS
Með aldrinum dregur úr getu líkamans til að taka upp og nýta sér bætiefni úr fæðunni. Því er mælt með því að þeir sem komnir eru yfir fimmtugt láti reglulega mæla hjá sér B-12 vítamínstöðuna, til að tryggja að um nægilegt magn sé að ræða.
Þegar B-12 er mælt koma fram í niðurstöðum lægstu og hæstu gildi. Ef talan er nærri lægstu gildum, getum við ímyndað okkur að staðan líkist því að við séum bara með botnfylli í flösku. Því nær hæsta gildi sem talan er, þeim mun betra – og ef hún er ekki þar er gott að taka inn B-12.
HVERNIG ER HÆGT AÐ KOMA Í VEG FYRIR B-12 SKORT?
Best er að bæta sér upp mögulegan skort með því að taka tvisvar á ári eða svo inn B-12 vítamín í þrjá mánuði í röð. Þannig fyllum við á tankinn ef svo má að orði komast.
Sjálf hef ég verið að nota til skiptis B-12 úðann eða B-12 tuggutöflurnar frá Dr. Mercola, en í báðum þessum tegundum af B-12 er Methylcobalamin, sem er talið vera besta formið af B-12.
Í mínum huga er ekki spurning að orkan eykst þegar ég tek B-12 vítamínkúra.
Neytendaupplýsingar: Bætiefnin frá Dr. Mercola fást í Mamma Veit Best á horni Auðbrekku og Dalbrekku í Kópavogi.
2 Comments on “Bætiefnið sem marga skortir”
Mér finnst þessir pistlar þínir um bætiefni mjög fróðlegir og mjög fínt að þeir séu hér á Fréttinni,,,takk fyrir þá….
Sammála Þuríði.. Ég les alltaf þessa pistla frá Guðrúnu um vítamín og heilsu.. Kærar þakkir fyrir.