Starfsmaður barnaverndar sagður hafa beitt dóttur sína ofbeldi: starfar nú á velferðarsviði Akureyrarbæjar

frettinInnlendar1 Comment

Feðginin Ólafur Tryggvi Hermannsson og Sveinfríður Ólafsdóttir hafa staðið í deilum við móður stúlkunnar en hún er félagsráðgjafi sem starfaði til margra ára á fjölskyldusviði hjá Akureyrarbæ. Konan flutti svo suður til Reykjavíkur og starfaði um tíma hjá barnavernd í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu.

Konan missti forræði yfir dóttur sinni og býr hún því nú hjá föður sínum samkvæmt hennar eigin ósk og hefur ekki verið í neinum samskiptum við móður sína til nokkurra ára, m.a. vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis sem hún þurfti að þola frá móður sinni og þrátt fyrir að hafa opnað sig við barnavernd um málið, var ekki brugðist við.

Engin viðbrögð hjá barnavernd vegna ofbeldi móðurinnar

Móðirin hefur hins vegar farið ófögrum orðum um barnsföður sinn og sakað hann m.a. um barnsrán og tálmanir á facebooksíðu sinni í opinni færslu, þar sem hún nafngreinir dóttur sína og lét myndir af barninu fylgja með.

Á þeim tíma sem dómsmálið var í gangi, varðandi lögheimili og síðar forræði stúlkunnar, stundaði móðirin það ítrekað í gegnum vini og vandamenn að senda inn barnaverndartilkynningar á föður stúlkunnar en aldrei kom neitt út úr þeim tilkynningum, „enda aldrei fótur fyrir þeim“, segir Ólafur.

Vekur þvi mikla furðu að bæði skortur á viðbrögðum, að hálfu barnaverndar á sínum tíma, og einnig að hún hafi allan þennan tíma haldið áðurnefndum störfum, þrátt fyrir að hafa beitt sitt eigið barn bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi og sem hún greinir sjálf frá.
„Það er alltaf verið að hvetja börn til að segja frá ef þau verða fyrir ofbeldi en svo loksins þegar þau gera það þá er ekki hlustað.“ segir Ólafur.

Fór óvarlega með viðkvæmar persónuupplýsingar

Konan hefur einnig sýnt það í verki að hún fer mjög óvarlega með viðkvæmar persónuupplýsingar. Hún hefur tjáð sig skriflega til stofnunar hér á landi um heilsufarsástand föður stúlkunnar, án nokkurs leyfis frá honum og farið þar að auki með rangt mál um hans heilsufar. Það gilda sérstakar reglur og lög um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga og hafði hún engan rétt til að tjá sig um heilsufar hans eins og hún gerði og ekki með leyfi til þess frá þeim sem upplýsingarnar vörðuðu.

Þar að auki hafði hún áður nafngreint stúlkuna og birt mikið magn af myndum af henni á síðu sinni á Facebook, sem á þeim tíma var að því er virðist ólæst. Hún tjáði sig þar í sömu birtingu um föður stúlkunnar og ranglega sakaði hann þar um ýmislegt ljótt. Í framhaldi af þessum birtingnum höfðu einstaklingar samband við stúlkuna sem voru ósáttir skjólstæðingar félagsráðgjafans, því þar sem færslan var opin og þar af leiðandi fyrir allra augum og því lítið mál að finna stúlkuna á Facebook þar sem hún var nafngreind með fullu nafni.

Á sínum tíma var umræddu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu sent bréf og það upplýst um hegðun félagsráðgjafans en tilkynningin var ekki virt viðlits og ekki kom heldur staðfesting á móttöku bréfs, hvað þá önnur frekari viðbrögð.

Gera athugasemd við ráðningu félagsráðgjafans hjá Akureyrarbæ

Ólafur Tryggvi segir að með ofangreindu mætti ætla að sýnt hafi verið fram á bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi í garð barns, og að það megi setja spurningarmerki við það hvers vegna umræddur félagsráðgjafi haldi sínu starfi. Vekur þetta furðu í ljósi þeirrar öfgafullu umræðu sem hefur verið að undanförnu til dæmis um íþróttakappa sem hafa ranglega verið sakaðir um að hafa brotið af sér og þeim umsvifalaust verið kippt úr öllu, í raun án nokkurra sannana og svo mögulega síðar komið í ljós að einstaklingurinn væri saklaus.

„Andlegt og líkamlegt ofbeldi er aldrei í lagi og sér í lagi ekki gagnvart saklausum börnum. Við treystum á að þeir sem vinna með okkar viðkvæmustu mál, virði okkar rétt til friðhelgi einkalífs. Ef það er ekki gert, þá er starfsmaðurinn ekki starfi sínu vaxinn,“ segir Ólafur.

Nú hefur umræddur félagsráðgjafi nýlega verið ráðinn aftur til starfa á sínum gamla vinnustað, Akureyrarbæ, nú hjá velferðarsviði, og er að fara að vinna þar með fjölskyldum Akureyrarbæjar og þeirra viðkvæmu persónuupplýsingar. Hversu lengi á þetta að viðgangast? Á ekki það sama að ganga yfir heilbrigðisstarfsmenn eins og íþróttamenn, eða eru sér reglur fyrir félagsráðgjafa?

Feðginin gera því alvarlega athugasemd við ráðningu félagsráðgjafans hjá Akureyrarbæ í ljósi ofangreindra atriða.

Greindist með alvarlegan taugasjúkdóm

Ólafur Tryggvi greindist í febrúar síðastliðnum með alvarlegan taugasjúkdóm og hefur því þurft að leita á náðir bæjarskrifstofunnar þar sem fyrrverandi kona hans starfar, og því um hagsmunaárekstur að ræða. Hann hefur því áhyggjur af því að konan komist í viðkvæmar persónuupplýsingar, þar sem hún hefur áður farið óvarlega með slíkar upplýsingar. Ólafur hefur gert athugasemdir um þetta við bæjarskrifstofuna en kvartanir hans hafa verið hunsaðar að öllu leyti.

Blaðamaður náði í félagsráðgjafann og spurði hana út í málin en hún vildi ekki tjá sig nánar um málið,  en neitar ekki fyrir að hafa misst forræði yfir dóttur sinni.

Þá reyndi blaðamaður einnig að ná í yfirmann velferðarsviðs, Guðrúnu Sigurðardóttur ,en hún er í leyfi og óvíst hversu lengi, samkvæmt ritara bæjarskrifstofunnar.

Feðginin Ólafur og Sveinfríður

One Comment on “Starfsmaður barnaverndar sagður hafa beitt dóttur sína ofbeldi: starfar nú á velferðarsviði Akureyrarbæjar”

  1. Barnaverndarstarfsfólk er spillt að upplagi í sínu starfi með rétt til afbrota og þöggunar á eigin afbrotum. enginn sem er rekin fyrir lögbrot í starfi hjá barnaverndum því störf barnavernda starfsfólk byggjast mikið upp á að lögbrotum sé beitt skipulagt gegn saklausu fólki og börnum sem ekki geta varið sig.gegn valdinu sem þeir misnota og þöggunin sem þeir þagga lögbrotin og lygarnar sínar og persónulegu brotin. Á Ísland er lögbundið að barnaverndar starfsfólk fær að brjóta á börnum og Foreldrum og það er ekki rekið fyrir afbrot í starfi.

Skildu eftir skilaboð