Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðmann
RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar, eru í bandalagi um að búa til fréttir um spillingu. Að „búa til“ í merkingunni skálda fréttir. Í samspili við stjórnmálaflokka, einkum vinstriflokka, er skáldskapurinn endurtekinn í síbylju og gerður að almannarómi.
Tilfallandi dæmi er svokölluð skæruliðadeild Samherja, sem gerð var að umtalsefni s.l. föstudag.
Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks hefur opinberlega útskýrt verklagið. Hann gerði það þegar „sómamaðurinn“ Jóhannes Stefánsson var leiddur fram sem uppljóstrari. Gefum Kristni orðið:
Ég held líka almennt séð að þessi birting og þessi umfjöllun sé ákveðinn prófsteinn og prófraun á íslenskt samfélag, og einnig á íslenska fjölmiðla, hvernig þeir matreiða og verka þessi mál, sérstaklega með tilliti til þess hvernig eignarhaldið er þar víða.
Prófsteinn á íslenskt samfélag, segir hugmyndafræðingurinn. Hvað skyldi hann eiga við? Jú, hvort samfélagið kaupir skáldfréttirnar sem fjölmiðlar ,„matreiða og verka.“ Hvernig fer sú vinnsla fram? Jú, með því að handvelja efnisatriði sem styðja fyrirframgefna niðurstöðu. Meintar rannsóknir blaðamanna RSK-miðla ganga út á einmitt þetta, að sópa undir teppið staðreyndum sem ekki koma heim og saman við skáldskap.
Kristinn segir einnig að dreift eignarhald á fjölmiðlum kalli á samstarf þeirra á milli; samræmdan fréttaflutning til að skáldskapurinn ómi sem víðast. Þarna er komin uppskriftin að samstarfi RSK-miðla. Ein ritstjórn sem leggur línurnar en nokkrir miðlar sem klifa á sama fréttastefinu.
Nýlegt dæmi um vinnubrögðin er lekinn úr landsrétti í vor vegna lögreglurannsóknar á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Þórður Snær ritstjóri Kjarnans, einn sakborninga, fékk gögnin. En hvað segir glaðbeitti ritstjórinn?
Þórður segir að í gögnunum séu viðkvæmar og persónugreinanlegar upplýsingar sem ritstjórn Kjarnans hafi metið að ættu ekki erindi við almenning.
Gögnin eru vitnaskýrslur í sakamáli sem Þórður Snær á sjálfur aðild að. Þær upplýsingar eiga „ekki erindi við almenning,“ segir ritstjóri og sakborningur. Þarna sópar grunaður blaðamaður fréttum undir teppið sem koma honum sjálfum illa. Þetta er spilling í sinni tærustu mynd. Hvorki heyrist hósti né stuna frá öðrum blaðamönnum um þetta stórundarlega og ófaglega verklag.
Jú, reyndar, Þórður Snær fékk blaðamannaverðlaun fyrir að vera snjall að skálda fréttir og stinga undir stól fréttum sem almenningur má ekki heyra af og varða sakamál þar sem ritstjórinn er sakborningur.
Íslensk blaðamennska í hnotskurn; skáldaðar fréttir og spilltir blaðamenn fá verðlaun.
2 Comments on “RSK miðlar: matreiðsla og verkun spillingar”
5. grein hér
https://www.press.is/is/faglegt/sidavefur/sidareglur-bi
Þessi grein Palla er áróðursspuni og ekkert annað.
Það eina ‘takeaway’ sem er rétt hjá greinarhöfundi er að það flýtur allt í spillingu í þessu landi og hann er sjálfur gott dæmi um þá spillingu. Til að mynda þá er greinarhöfundur á launum frá Samhejra við að skrifa endalausa halarófu af greinum sem enginn endir ætlar að vera á. Þannig er greinarhöfundur að gera það sem hann vænir fjölmiðla um, sem er að ljúga meðvitað eða setja fram smjörklípu til að veita athygli almennings annað til að hafa áhrif á skoðanir almennings.
Það þýðir ekki að spillingin sé ekki til staðar í fjölmiðlum, þvert á móti, en Þegar Páll Vilhjálmsson skrifar um spillingu er það dáltið eins og the kettle calling the pot black. Hann er jú hluti af skæruliðadeild Samherja, sem er sá her af fólki sem hefur það að atvinnu að ljúga að íslendingum til að fegra ímynd Samherja og til að berja á þeim blaðamönnum sem ekki þramma í takt. þessi halarófa af níðgreinum (þær skipta tugum, eða jafnvel yfir hundrað greinar) er augljós sönnun þess. Hver brennur svo gersamlega fyrir eitthvert hugðarefni að hann gerir það að lífsverki að níða alla þá sem andmæla honum.
Þegar það loksins kom fréttaflutningur um spillingu íslenskra fyrirtækja, eins og mútumál Samherja í Namibíu eða skattaundanskot þeirra í Færeyjum og aðrir glæpir fyrirtækisinns, þá eru þeir blaðamenn sem þorðu að skrifa um það, barðir sundur og saman til að fá þá til að halda kjafti og til að vara aðra blaðamenn við að slík hegðun er ekki æskileg.
Allt í boði glæpafyrirtækisins sem hlunnfer eigin sjómenn, stingur undan skatti og mútar ráðamönnum til að fá sinn vilja…. og þegar upp um þá kemst þá eru „blaðamenn“ (skæruliðadeildin) ráðnir til að kasta skít í aðra blaðamenn sem þorðu að segja frá óskapnaðinum.
Einungis þeir sem eru algerlega blindir láta gabbast af þessum augljósa áróðri. ég er ekki að bera blak af RUV, Stundinni eða öðrum meðalsstraums-miðlum; þeir hafa sýnt mér eftirminnilega síðustu tvö þrjú ár að þeim er ekki hægt að treysta til að upplýsa almenning. En það væru stór mistök að trúa frekar áróðursdeild fyrirtækisinns sem er að fegra eigið andlit og reyna að stöðva frekari fréttaflutning af eigin glæpum.
Við verðum hérna sem og annarstaðar, að vega og meta hlutina sjálf til að taka af þeim rökræna niðurstöðu, í stað þess að láta aðra segja okkur í hvaða samhengi við eigum að segja fréttirnar.