Jón Magnússon skrifar:
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir hættustigi á landamærunum vegna mikils fjölda hælisleitenda sem streyma til landsins. Í flestum löndum mundu stjórnvöld bregðast hratt við til að tryggja örugga stjórn á landamærunum svo hættustig verði fellt úr gildi. Þrátt fyrir að dómsmálaráðherra sé reiðubúinn til að gera breytingar þá fær hann ekki stuðning í ríkisstjórninni til að gera nauðsynlega og skynsamlega hluti.
Hættustigi er ekki lýst yfir nema innflytjendamálin séu í alvarlegri stöðu. Það kemur þó sumum lukkuriddurum á Alþingi ekki við m.a. þingmönnum Viðreisnar og Pírata, sem héldu því fram í umræðum á Alþingi í gær, að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra væri með hræðsluáróður. Þetta fólk er annað hvort úr vitrænu sambandi við samfélagsástandið eða hefur ekki fylgst með fréttum í áravís og kemur á óvart þar sem einn þeirra sem þessa tuggu tugði á Alþingi er fyrrum fréttamaður á RÚV.
Í grein sem Bergþór Ólafsson þingmaður Miðflokksins skrifar í Morgunblaðið í dag bendir hann á, að við erum að taka á móti 66% fleiri hælisleitendum en Þjóðverjar gerðu árin 2015 og 2016. Það asnastrik Angelu Merkel var næstum búið að ríða þýsku velferðarkerfi og samélaginu á slig og eyðilagði það sem eftir lifði af pólitískum valdaferli hennar.
Þjóðverjar lærðu þá, að stefna opinna landamæra eða hálfopinna gengur ekki upp. Hún er ógn við velferð og öryggi borgaranna.
Hér á landi er eins og stjórnmálastéttin fylgist ekki með fréttum og hafi engan skilning á því hvað er að gerast í okkar eigin landi og geti ekki áttað sig á hvernig nágrannalöndin hafa brugðist við í málefnum hælisleitenda.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur átt við ramman reip að draga þegar hann hefur viljað koma vitrænum tillögum fram í hælisleitendamálum og skemmst er að minnast, að völdin voru tekin af honum af forsætisráðherra með samþykki formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann ætlaði að framfylgja lögum um að flytja ólöglega hælisleitendur úr landi í samræmi við íslensk lög.
Látum vera þó að einstakir þingmenn gerist gapuxar í umræðum á Alþingi, en þegar meirihluti ríkisstjórnar ákveður að bregða ítrekað fæti fyrir skynsamlegar og bráðnauðsynlegar tillögur dómsmálaráðherra, þá er ekki von á góðu. Þjóðin á skilið betri ríkisstjórn.