Svíþjóðardemókratar áhrifavaldar í nýrri ríkisstjórn í Svíþjóð

frettinJón Magnússon, Pistlar, StjórnmálLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Flokkur Svíþjóðardemókrata breyttist á sínum tíma þegar ungt fólk tók hann yfir með núverandi formanni flokksins í broddi fylkingar. Flokkurinn talaði um það sem mátti ekki tala um í sænsku þjóðfélagi: Vandamál vegna innflytjenda og innflytjendastefnunnar í Svíþjóð.

Flokkurinn fékk á sig holskeflu óhróðurs og hatursorðræðu, en þeir héldu ótrauðir áfram og bentu á staðreyndir, sem að venjulegir Svíar á þeim tíma og jafnvel enn vilja ekki tala um. 

Vegna þess að Svíþjóðardemókratar voru að segja frá staðreyndum og gerðu kröfu um að innflytjendastefnunni yrði breytt útilokaði stjórnmálaelítan þá frá virkum afskiptum og áhrifum. En nú er svo komið að Svíþjóðardemókratar eru næststærsti flokkur Svíþjóðar. 

Ný ríkisstjórn hægri flokkanna var mynduð í Svíþjóð í gær. Það sem vekur athygli er að Svíþjóðardemókratar eiga ekki ráðherra í ríkisstjórninni þrátt fyrir að styðja hana, en þeir hafa hinsvegar náð fram ýmsum helstu stefnumálum sínum.  Það skiptir jú meira máli en stjórnarseta. 

Nú er sett á oddinn hjá ríkisstjórninni að herða innflytjendalöggjöfina og baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Mál til komið. 

Vonandi fáum við þau umskipti í næstu kosningum, að þeir sem vilja skynsamlega stefnu í útlendinga- og hælisleitendamálum nái meirihluta á Alþingi þannig að það takist að mynda breiða samstöðu um hertar reglur um innflytjenda- og hælisleitendamál og vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. 

Við þurfum líka að fá ríkisstjórn sem gerir þessi mál að aðalatriðum í stjórnarsáttmála eins og Svíþjóðardemókratar hafa náð fram í Svíþjóð. Staðreyndin er nefnilega sú, að þó Jón Gunnarsson sé góður og ötull ráðherra, þá skortir hann stuðning frá samstarfsflokkunum og jafnvel innan flokksins til að koma nauðsynlegum breytingum fram. Á því verður að verða breyting. 

Skynsemin verður að fá að ráða í innflytjenda- og hælisleitendamálum ef ekki á illa að fara. 

Skildu eftir skilaboð