Hvers vegna skiptir sjálfstæði máli fyrir ríki og þjóðir?

frettinPistlar, StjórnmálLeave a Comment

Greinin birtist fyrst á síðunni Ögmundur.is 

- Fullveldi -

         Sagan geymir mörg dæmi af átökum um landamæri, sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Hægt er að fjalla um þessi mál út frá heimspeki, félagsfræði eða lögfræði eða jafnvel blöndu af þessu þrennu [þverfagleg umfjöllun]. Við stjórnun ríkja virðist tvennt koma til álita: að stjórnun þeirra sé á innlendum forsendum, og þau undir innlendri stjórn,[i] eða að stjórnunin sé á erlendum forsendum og ríkin lúti erlendri stjórn. Þetta má þrengja niður í eina spurningu: hverjir ráða?

         Þessi mál hafa bæði „macro-vídd“ [ríki meðal ríkja] og „micro-vídd“ [þegnar ríkja]. Þegar rætt er um sjálfstæði ríkja (macro) er átt við rétt þeirra gagnvart öðrum ríkjum [stöðu í „alþjóðasamfélagi“]. En viðfangsefnið hlýtur einnig að snúast um stöðu þegnanna innan hvers ríkis (micro). Flestir líta svo á að einstaklingar eigi að njóta sjálfstæðis og geta tekið ákvarðanir sem þá sjálfa varða miklu. Það má kalla „einstaklingsbundið fullveldi“.

         Fólk getur t.a.m. stundum valið um „trúleysi“ eða að rækta ákveðna trú [trúfrelsi], að leggja deilumál sín fyrir dómstóla, hvar það vill búa [eða flytja til annars ríkis] o.s.frv. Með öðrum orðum, fólk hefur þá, að minnsta kosti að nafninu til, mannréttindi [margir njóta þó engra mannréttinda].

         Eðlilegt þykir að fólk beiti þessum réttindum sjálft enda ganga þekktar kenningar [náttúruréttur] í heimspeki út frá því að fólk fæðist með ákveðin réttindi sem ekki verði af því tekin. Greinarhöfundur þekkir engin dæmi þess að fólk vilji framselja mannréttindi sín til annara og fela þeim, fyrir sína hönd, að ákveða trúarafstöðu, búsetu eða hvað annað. Flestir vilja ráða sínum málum sjálfir.

         En þegar kemur að ríkjum og stjórnun þeirra er hins vegar allt annað uppi á teningnum. Þá vilja sumir afsala sér innlendu valdi og fela erlendum stjórnvöldum, t.d. innan Evrópusambandsins, að stjórna eigin málum. Í því felst vissulega ákveðin þversögn.

         Fullveldi ríkja og einstaklinga tvinnast saman. Ákvarðanir sem t.a.m. eru teknar innan Evrópusambandsins hafa síðan víðtæk áhrif á borgara ríkjanna sem í hlut eiga og kunna jafnvel að ógna mannréttindum borgaranna. Þar má t.d. nefna takmarkanir á tjáningarfrelsi [ritskoðun] og hvernig sífellt er reynt að stimpla skoðanir þeirra sem ekki fylgja valdinu sem „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“. Raunverulega óreiðan er hins vegar af völdum fólksins sem þannig talar. Dæmi um það er að miklu leyti sjálfsköpuð orkukreppa í Evrópu. Þar er mikil óreiða, mynduð af „óreiðufólki“ innan Evrópusambandsins [sérstaklega í framkvæmdastjórninni]. Rökrétt framhald af tali „óreiðufólksins“ um „hatursorðræðu“ væri að stofna sérstakan dómstól um „réttar“ og „rangar“ skoðanir sem áður yrðu útfærðar í reglugerðum og tilskipunum. Slíkur dómstóll yrði banabiti lýðræðisins sem þó er orðið mjög laskað fyrir. Tjáningarfrelsi, án ritskoðunar, er meginforsenda lýðræðis.

Sjálfsákvörðunarréttur

         Skilgreiningar og hugtakanotkun eru grundvallaratriði í allri umræðu. Vísað er til sjálfsákvörðunarréttar ríkja undir 2. mgr. 1. gr. Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar segir um tilgang Sameinuðu þjóðanna: „Að efla vinsamleg samskipti milli þjóða sem byggja á virðingu fyrir meginreglunni um jafnan rétt og sjálfsákvörðunarrétt þjóða og gera aðrar viðeigandi ráðstafanir til þess að efla heimsfrið;.“

         Hægt er að skilgreina sjálfsákvörðunarrétt[ii] sem:

  • athöfn eða vald til að taka eigin ákvarðanir og ákvarða eigin pólitíska stöðu;
  • ástand þess að vera laus undan yfirráðum eða valdi annara.[iii]

         Sjálfsákvörðunarrétturinn er megin undirstaða í alþjóðarétti. Hann hefur áhrif á samskipti ríkja og milli þjóða sem mynda ríkin. Þessum rétti, sem á rætur sínar að rekja til hnignunar nýlendustefnunnar, er nú beitt af hópum í margvíslegu pólitísku samhengi um allan heim til að styðja kröfur um aðskilnað, aukið sjálfræði og lýðræðislega þátttöku. Hann er notaður að styðja við sameiningu þjóða, eins og sameiningu Þýskalands (1990), sem og upplausn þjóða, eins og í fyrrum Júgóslavíu.[iv]

         Sögulega er hægt að greina fjórar aðferðir sem beitt hefur verið til þess að komst yfir landsvæði:

  1. með landtöku, þegar land „tilheyrir engum“ [sbr. terra nullius];
  2. með afsali og samningi [treaty];
  3. með landnámi og vopnuðu ofbeldi;
  4. með „uppsöfnun“, þar sem nýtt land er myndað [eyjar etc].[v]

         Beiting sjálfsákvörðunarréttar hefur oft verið flókin. Hún felur í sér vandasamt jafnvægi á milli grundvallarmannréttinda og hagsmuna ríkja, auk mats á alþjóðlegum hagsmunum af því að viðhalda helgi landamæra og fullveldi. Þjóðréttarregla (meginregla) eins og uti possidetis juris [„eins og þú átt samkvæmt lögum“] felur í sér að ný fullvalda ríki, sem stofnuð voru í kjölfar nýlenduvelda, skyldu viðhalda gömlu landamærunum í þágu stöðugleika, er sett fram sem viss takmörkun á sjálfsákvörðunarrétti.[vi]

         Reglan fjallar þannig um eignarrétt á landsvæði og staðsetningu landamæra [tengist stríðsátökum fyrri alda]. Uti possidetis juris er breytt útgáfa af uti possidetis sem aftur var mynduð í þeim tilgangi að þrengja landtöku á grundvelli „einskismannslands“, terra nullius [sbr. einnig „Doctrine of Discovery“]. Upphaflega útgáfan af uti possidetis  myndaðist í Rómarétti vegna eigna og umráða yfir þeim. Á miðöldum þróaðist reglan yfir í lög sem gilda um alþjóðasamskipti og hefur síðar verið löguð að stöðu nýfrjálsra ríkja.

         Ástæða þess að reglan terra nullius varð umdeild er einkum sú að henni var beitt öldum saman til þess að taka eignarnámi frumbyggjalönd og auðvelda yfirráð á þeim undir nýlenduríkjum eða herraþjóðum. Reglunni var með öðrum orðum beitt til þess að ná eignarhaldi og valdi á landi sem í raun tilheyrði öðrum [hvað kallast það þegar menn taka það sem aðrir eiga?].[vii]

         Íslensk þjóð hefur stöðu frumbyggja gagnvart auðlindum á sjó og landi og hefur samkvæmt því frumbyggjarétt en réttur sem byggir á hefð hefur mikla þýðingu í alþjóðarétti. Í því ljósi er framsal á stjórnun íslenskra auðlinda til stofnana Evrópusambandsins (ACER) alveg sérstaklega vafasamt. Ísland er ekki „terra nullius“ í neinum skilningi heldur fullvalda ríki með eigin stjórnarskrá. Auðlindir Íslands og stjórnun þeirra eiga samkvæmt því að vera á forræði Íslendinga sjálfra og engra annara.

         Með innleiðingu orkupakka þrjú var þó ekki einungis brotið gegn frumbyggjarétti Íslendinga sem þjóðar heldur var allt innleiðingarferlið sem slíkt markað lögleysu. Þar má t.d. nefna brot á stjórnarskránni og snerta framsal fullveldis (ríkisvalds). Fyrir því er engin lagastoð. Enn fremur var sú leið valin að setja málið fram á formi þingsályktunar, til afléttingar stjórnskipulegs fyrirvara, enda þótt heimilt sé að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara með tilheyrandi lagafrumvarpi.[viii] Það hefði verið lýðræðislegra fyrirkomulag. Að bera jafn stórt mál og um ræðir fram sem þingsályktun bendir til þess að stuðningsmenn hafi ekki haft fulla sannfæringu fyrir málinu og ekki treyst sér til þess að setja það undir lýðræðislegt mæliker. Innleiðinguna þarf enn fremur að máta við skilgreiningu á sjálfsákvörðunarrétti hér að framan [a- og b-liður].

         Að stjórnun orkumála á Íslandi sé komin undir orkustofnun Evrópu [ACER] er ekki í samræmi við „ástand þess að vera laus undan yfirráðum eða valdi annara.“ Það er þvert á móti. Innleiðing orkupakkans felur í sér að koma stjórn orkumálanna undir yfirráð og vald annara. Þarna var því bæði brotinn frumbyggjaréttur og sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar. Hins vegar virðast sumir telja ámælislaust að fara á svig við lög og rétt, og jafnvel brjóta lög, þegar lögbrjóturinn er löggjafinn sjálfur; nefnilega Alþingi. Norðmenn eru að þessu leyti í betri stöðu en Íslendingar, þar sem innleiðing orkupakka þrjú sætir endurskoðun dómstóla (vegna málshöfðunar).

Hvað merkir fullveldi?

         Í Bouvier's Law Dictionary frá 1856 eru skilgreiningar á fullveldi og myndum þess. Þar segir að fullvalda ríki sé það sem stjórnar sér sjálft óháð erlendu valdi. Fullveldi er hins vegar: sameining og beiting alls mannlegs valds í ríki; það er sambland af öllu valdi; það er vald til þess að gera allt í ríki án þess að svara til ábyrgðar [þetta atriði stenst varla nú á tímum]; til að setja lög, beita þeim og framfylgja þeim: til að leggja á og innheimta skatta; til þess að leggja á gjöld; hefja stríð eða enda stríð; vald til þess að gera samninga um bandalög eða viðskipti við önnur ríki.[ix] Þetta er ekki tæmandi upptalning.

         Afbakanir seinni tíma á fullveldishugtakinu gera ráð fyrir því að fullveldi sé skiptanlegt og deilanlegt. Slíkir útúrsnúningar verða til vegna þrýstings frá „alþjóðavæðingu“ og auðmagni heimsins. Þegar auðmagn flæðir óhindrað yfir landamæri myndast þrýstingur á það að endurskilgreina fullveldi og fullveldisrétt. Þetta merkir að fullveldishugakið, sem slíkt, er enn bundið nánast sömu merkingu og áður en hagsmunir auðmagnsins þrýsta á útþynningu þess. Það á við um fleiri svið sem snerta lög og reglur þjóðfélagsins.

         Auðmagninu má líkja við vatn sem breiðir úr sér og færir allt í kaf. Háskólakennarar verða fyrir áhrifum þess eins og aðrir og taka þá að breyta skilgreiningum [dæmigerð afsökun er „breyttur tíðarandi“ en raunveruleg ástæða er þrýstingur auðmagnsins]. Til þess að einfalda þetta má segja að fullveldi og „alþjóðavæðing“ samrímist illa: „fullveldið“ er í eðli sínu „staðbundið“ en „alþjóðavæðingin“ flæmist yfir ríki og álfur. Auðmagnið hefur ýmsa stjórnmálamenn í vasanum og það eru einmitt þeir sömu og t.d. vilja troða Íslandi inn í Evrópusambandið!

         Það er hefðbundið að skipta fullveldi (ríkisvaldi) í þrjá hluta: löggjafar-, dóms og framkvæmdavald. Samkvæmt kenningum í réttarheimspeki og lögfræði skulu þessir þættir ríkisvaldsins vera óháðir hver öðrum. Hugsunin er sú að tryggja sem best ákveðið valdajafnvægi og temprun valdsins. Allir þrír þættir ríkisvaldsins eru undir þegar rætt er um inngöngu ríkja í Evrópusambandið. Löggjafarvaldið[x] færist til stofnana sambandsins [Íslendingar þekkja vel að fá löggjöfina í „pósti“ í gegnum EES], æðsta dómsvaldið færist til Evrópudómstólsins [dómstólanna], í veigamiklum málum, og æðsta framkvæmdavaldið færist að miklu leyti undir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins [til fólks sem enginn hefur kosið].

„Óreiðufólkið“ á Alþingi

         Sumir alþingismenn virðast uppteknir af „upplýsingaóreiðu“ og meintri „hatursorðræðu“. Sama fólk hefur hins vegar engar áhyggjur af fullveldinu eða framsali ríkisvalds til erlendra stofnana. Enn síður að það velti nokkuð fyrir sér frumbyggjarétti. Ef hins vegar gefst tækifæri til þess að brosa í erlendar myndavélar er það gripið fegins hendi. Allt snýst um meðvirkni og sýndarmennsku.

[„Óreiðufólk“ framselur fullveldið]

Þarna margur þursinn velst,

þunna innihaldið.

Óreiðufólkið á Alþingi helst,

áfram selur valdið.

         „Upplýsingaóreiðan“ reynist eftir allt saman vera í höfði þessa fólks og „hatursorðræðan“ sýnist helst beinast gegn fullveldinu og hagsmunum þjóðarinnar. „Hatrið“ staðfestist í gegnum þingsályktanir, lagasetningu og innleiðingar Evrópugerða. Það felst t.a.m. mikið „hatur“ á tjáningarfrelsinu í reglugerð um stafræna þjónustu [Digital Service Act[xi]]. Verður fróðlegt að sjá hvernig Alþingi ætlar að fara með það mál, þegar og ef það kemur til kasta þingsins. Fólkið sem mest talar um „upplýsingaóreiðu“ og „hatursorðræðu“ ætti að horfa inn á við og líta sér nær! Óreiðan blasir víða við; á húsnæðismarkaði, á fjármálamarkaði [fyrirtæki eins og Creditinfo látið þrífast og furðugerningar í fjármálakerfinu], í málefnum „flóttamanna“, í stefnuleysi gagnvart eiturlyfjum [hvar er vímulaus æska?], í Evrópumálum og orkumálum svo nokkuð sé nefnt!

Lokaorð

        „Óreiðufólkið“ á Alþingi hefur skapað þjóðinni mikinn vanda. Dæmi um það eru sjálfstæðismálin, fullveldismálin og orkumálin. Inn á þing ratar stundum sannkallað niðurrifsfólk sem jafnvel kemst í ráðherrastóla. Oft hlýtur það að tala þvert um hug sinn eins og t.d. heyrðist í nýlegum eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Þar hélt ráðherra í núverandi ríkisstjórn því blákalt fram að Íslendingar hefðu stjórn á eigin orkumálum, hann sagði [hún] orðrétt: „Eins hljótum við að þakka fyrir að orkukerfið hér á landi er sjálfstætt og undir innlendri stjórn.“[xii]

        Sami ráðherra stóð þó sjálfur að því að framselja stjórnun orkumálanna til orkustofnunar Evrópu (ACER) með innleiðingu orkupakka þrjú. Gagnrýni á það var stimpluð sem „málþóf“. Það er aldeilis furðulegt að hlýða á svona málflutning [sbr. tilvitnun]. Svo virðist sem heilinn fylgist ekkert með því hvað hendurnar gera, að þar sé ekkert samband á milli [t.d. þegar ýtt er á takka og greitt atkvæði]. Eða hvernig á að skýra þetta?

         Eitt helsta einkenni viðkomandi ráðherra kemur í ljós þegar fréttamenn spyrja hann spurninga. Þá eru menn engu nær eftir að hafa hlýtt á „svarið“. Það er farið út um víðan völl, þyrlað upp ryki, og því yfirleitt aldrei svarað sem spurt er um. Sigríður Dögg Auðunsdóttir sýndi eftirminnilega í Kastljósi að þetta þarf ekki að vera svona. Er það helsta undantekningin á annars slakri frammistöðu fréttamanna Ríkisútvarpsins í mikilvægum þjóðfélagsmálum, þar sem meðvirknin með valdinu er allsráðandi. Sami fjölmiðill brást t.d. algerlega, í gagnrýnni umfjöllun, þegar orkupakki þrjú var til umræðu.

[„Hendurnar fara fram úr huganum“]

Evrópusambandi undan láta,

innlenda valdinu fórna.

Hendur ganga á hraðari máta,

en heilinn nær að stjórna.

         Að framselja sjálfstæði [„lítið“ eða „mikið“] og fullveldi þjóðarinnar til Evrópusambandsins er mikil afturför. Ákvarðanataka á að vera sem næst þeim sem hún snertir. Hagsmunir stærstu ríkja á meginlandi Evrópu [og mestu ráða innan ESB] fara einfaldlega ekki saman við hagsmuni Íslendinga, sérstaklega ekki á sviði efnahagsmála. Upptaka evru mun heldur engu bjarga á Íslandi. Hún fylgir hagsmunum öflugustu útflutningshagkerfa á meginlandi Evrópu [sérstaklega Þýskalands] sem eru í allt öðrum takti en íslenskt hagkerfi. Enn fremur leysir evra ekki orkukreppuna sem nú geisar í Evrópu.

         Sagan af bandaríska orkufyrirtækinu Enron er víti til varnaðar í orkumálunum. Fyrirtækið var stofnað árið 1985, eftir samruna tveggja annara fyrirtækja: Houston Natural Gas Corporation og InterNorth, Inc.[xiii] Það var á tímabili umsvifamikið á gas- og rafmagnsmarkaði. Í ársskýrslu Enron frá 1998 kemur m.a. fram að rafmagnsverð hafi um tíma hækkað úr 20 dollurum á megavattstund í 7.500 dollara á megavattstund, um mitt ár 1998.[xiv] Sé hækkunin reiknuð í hundraðshlutum verður útkoman: (7.500-20)/(20)x100=37.400%!

         Þetta eru tölurnar sem „vindlávarðar“ Íslands sjá í hillingum - með því að breyta landinu í einn allsherjar „rafal“ og selja rafmagn um sæstrengi til Evrópu. Tíföldun á raforkuverði, eins og sést hefur í nágrannaríkjum, er mjög líklega bara byrjunin. Munum þó að öll él styttir upp um síðir, höldum í vonina. Góðar stundir!

[i]      Sjá enn fremur: Schulenburg, M. von der. (2018, November 21). Why global peace needs nation-states. Global: Why global peace needs nation-states | IPS Journal. Retrieved October 15, 2022, from https://www.ips-journal.eu/regions/global/why-global-peace-needs-nation-states-3101/

[ii]    Sjá einnig: Carley, P. „SELF-DETERMINATION Sovereignty, Territorial Integrity, and the Right to Secession.“ The United States Institute of Peace, 1996, www.usip.org/sites/default/files/pwks7.pdf

[iii]   Cats-Baril, A. (September 2018). Constitution Brief – Self-determination. International Institute for Democracy and Electoral Assistance. https://www.idea.int/sites/default/files/publications/self-determination-constitution-brief.pdf

[iv]    Ibid.

[v]     Cassese, A. (2005). International Law. OUP, p. 83.

[vi]    Cats-Baril, op. cit.

[vii]  „Doctrine of Discovery“, Used for Centuries to Justify Seizure of Indigenous Land, Subjugate Peoples, Must Be Repudiated by United Nations, Permanent Forum Told | UN Press.“ „Doctrine of Discovery“ Used for Centuries to Justify Seizure of Indigenous Land, Subjugate Peoples, Must Be Repudiated by United Nations, Permanent Forum Told | UN Press, 8 May 2012, https://press.un.org/en/2012/hr5088.doc.htm

[viii] Sjá einnig: Reglur um þinglega meðferð EES-mála. https://www.althingi.is/um-althingi/upplysingar-um-althingi/reglur-settar-af-forsaetisnefnd-/thingleg-medferd-mala/medferd-ees-mala/

[ix]    Bouvier, J. (1856). Bouvier's Law Dictionary, 1856 Edition. A LAW DICTIONARY ADAPTED TO THE CONSTITUTION AND LAWS OF THE UNITED STATES OF AMERICA AND OF THE SEVERAL STATES OF THE AMERICAN UNION (Revised Sixth Edition). https://wzukusers.storage.googleapis.com/user-32960741/documents/5ad525c314331myoR8FY/1856_bouvier_6.pdf

[x]     Sjá einnig: European Commission, Directorate-General for Communication. European Union policy area setting process. https://european-union.europa.eu/institutions-law-budget/decision-making-process/legislation_en

[xi]    Sjá: European Commission (2022), Digital Services Act: Commission welcomes political agreement on rules ensuring a safe and accountable online environment, Press release, IP/22/2545, 23 April 2022.

[xii]  153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022. stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana. https://www.althingi.is/altext/raeda/153/rad20220914T193754.html

[xiii] Fusaro, P.C., og Miller, R.M. (2002). What Went Wrong At ENRON. John Wiley & Sons, pp. 4-5.

[xiv]  Ibid, p. 65.

Skildu eftir skilaboð