Bókin Ekkert að fela –Á slóð Samherja í Afríku kom út árið 2019 og er skrifuð af þeim Helga Seljan, Aðalsteini Kjartanssyni og Stefáni Aðalsteini Drengssyni, en þeir unnu umfjöllun Kveiks um Samherja og viðskiptahætti fyrirtækisins á sínum tíma.
Páll Steingrímsson skipstjóri Samherja hefur nú birt ahugasemdir við bókina, í átta hlutum. Fyrstu tveir hlutar Páls eru birtir hér og verið er að vinna í því að birta hina sem eru allir á facebook síðu Páls:
„Eins og ég var búinn að lofa þá mun ég nú birta athugasemdir mínar um bókina „Ekkert að fela“. Til þess að geta kallast sannur bókmenntagagnrýnandi þá hef ég lesið heljarinnar ósköp gagna um hinar ýmsu blómaskreytingar auk matar- og prjónauppskrifta og heklað saman þeim staðreyndum sem óneitanlega hrekja það sem fram kom í bókinni. Að baki þessum athugunum liggur gríðarleg rannsóknarvinna sem spannar flug yfir hvorki fleiri né færri en þrjú lönd. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að matreiðsla bókahöfunda, sem eru margverðlaunaðir rannsóknarblaðamenn, á viðfangsefninu á jafn mikið skylt við raunveruleikann og að maðurinn geti flogið á eyrunum.
Stutta álitið: er sem sagt hún er ekki klósettpappírsins virði. Af hverju ekki? Því það stendur ekki steinn yfir steini í bókinni. Það þarf ekki geimvísindamann til að sjá það. Megnið af svörum og útskýringum er hægt að finna á netinu – meira að segja á Wikileaks þegar og ef sú síða virkar. Í einhverjum tilvikum spurði ég þá sem þekktu til spurninga og fékk gögn sem ég vísa í og sýna fram á að ásakanirnar standast ekki. Þessi hópur hefur ítrekað hrópað að ég hafi farið fyrir hersveit Samherja með rógburð í þeirra garð. Ef flett er upp orðinu rógur þá þýðir það ósatt illt umtal. Ég hef ætíð gætt mín að hafa sannanir fyrir mínum staðhæfingum og ásökunum. Það sem hópnum sárnaðist hvað mest er þegar ég gekk á þau og spurði um þeirra sannanir. Þau gátu nefnilega aldrei bent á þær.
Hér á eftir eru dæmi, þó ekki tæmandi talin, um rangfærslur og níð í bókinni. Tilgangur bókarinnar var nefnilega ekki að vera djúpstæð greining á rekstri Samherja heldur áróðursplagg og níð í rammpólitískum tilgangi – til að taka niður fyrirtækið og sjálfstæðisflokkinn, breyta kvótakerfinu og troða í gegn einhverri stjórnarskrá.
Til þess að dyggir aðdáendur blaðamannanna hafi nú eitthvað að kjamsa á þá skal ég bæði koma með helstu samsæriskenningar þeirra og svara þeim.
Ef Samherji væri með alla í vasanum, hefði ríkisstjórnin,með Sjálfstæðisflokkinn haldandi um budduna, samþykkt 200 milljón króna auka fjárveitingu gagngert til að rannsaka Samherja? Varla.
Væri Þorsteinn Már hafður á sakamannabekk í að nálgast áratug samanlagt ef hann réði öllu? Ólíklegt.
Fengju Stundin og aðrar áróðurssíður endalausan pening og lagabreytingar til að verja sig frá Alþingi? Ég giska á ekki.
1. Bls. 19: „Gengum á lagið og vorum báðir orðnir hundleiðinlegir og aðgangsharðir við þennan mann sem lét sér hvergi bregða og svaraði hverri spurning eftir bestu getu.”
a. Þetta er staðlaus staðhæfing. Höfundar bókarinnar vanræktu heimildaöflun og áreiðanleikagreiningu og gengu því ekki á eftir upplýsingum um fjárkröfur Jóhannesar Stefánssonar, ekki um plott hans um að koma Samherja út úr Namibíu og setja aðra útgerð í staðinn, ekki um hvað hann gerði á árunum 2017-2018, ekki um ástand hans í Marokkó, ekki um skriflegar yfirlýsingar hans um að hann hafi greitt öðru fólki þá peninga sem hann segir að hafi farið til embættismanna í Namibíu (Jóhannes undirritaði yfirlýsingar í tvígang, dags. 24. janúar 2018 og 23. janúar 2019 þess efnis að hann hafi greitt Virgilio de Sousa mútur. Höfundarnir einfaldlega kokgleyptu skýringar Jóhannesar enda hentaði það þeim þegar hann sagði: “Ég ákvað ekkert, Þorsteinn sagði mér alltaf að gera allt. Ég var viljalaust verkfæri.”
2. Bls. 27: „Hann hóf hana [spillinguna] hvorki né lauk henni, en hann tók þátt og fylgdist með framvindunni.”
a. Enginn fótur fyrir þessu. Rekstur Samherja á Íslandi hefur verið skoðaður aftur á bak og áfram í Seðlabankamálinu, af Seðlabankanum, sérstökum saksóknara, skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra og allt fellt niður. Einnig hafa reglulega verið gerðar úttektir yfirvalda á rekstri erlendis án nokkurra slíkra athugasemda. Þetta eru eingöngu orð Jóhannesar og nákvæmlega ekkert sem styður þau. Þá er heldur ekkert lagt fram sem styður þetta.
3. Bls. 27: „Þetta er búið að spila gríðarlega stórt hlutverk fyrir Samherja því maður fann það alveg, þegar maður var í Namibíu, að það var verið að pressa á mann að koma með peninga til Kýpur, því það var verið að fjárfesta í Kanada eða annars staðar. Það er allt fjármagnað með þessu (sem á sér stað í Namibíu.”
a. Aldrei hefur verið borgaður arður út úr Namibíu eða veitt lán þaðan. Einu fjármunirnir sem hafa farið þaðan hafa tengst kostnaði vegna aðfanga, s.s. fyrir leigu á skipi, olíukostnaður eða annar rekstrarkostnaður, þ.m.t. endurgjald fyrir sérfræðiþekkingu. Það er harla eðlilegt að þrýst sé á að fá slíkan kostnað endurgreiddan, sér í lagi þegar langt er um liðið frá því að lagt var út fyrir honum enda skiptir tímavirði fjármuna miklu þegar fjárhæðir eru háar eins og á við um skipaleigu eða olíukostnað. (e. time value of money).
4. Bls. 30: „Samherji hafði keypt útgerð Sjólaskipa í Afríku fyrir tólf milljarða króna í gegnum eignarhaldsfélög í skattaskjólinu Tortóla, eins og síðar kom í ljós.”
a. Þetta er rangt. Viðskiptin tengdust ekki Tortóla á neinn hátt. Og það vill svo til að eigendur Sjólaskipa voru nýlega sýknaðir af öllum ásökunum, og á það má benda að Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður á stundinni skrifaði á sínum tíma fjölda frétta um það mál og sparaði ekki ásakanir í garð eigenda Sjólaskipa en hann að sjálfsögðu hefur ekki skrifað neitt um málalokin af einhverjum ástæðum.
5. Bls. 30: „Þá var hann [Jóhannes] fenginn til að koma í land og aðstoða við tilraunaverkefni fyrirtækisins Hekla Mar, sem var í eigu Samherja. Það snerist um að koma á laggirnar landvinnslu í Dakhla, í suðurhluta Marokkó. Þetta gekk allt ljómandi vel og allt virtist leika í höndum Jóhannesar.”
a. Þetta er rangt. Verkefnið gekk ekki vel enda var horfið frá því. Þar að auki lék ekkert í höndunum á Jóhannesi, sbr. yfirlýsing (e. affidavit) frá samstarfsaðila hans í Marokkó, svo og yfirlýsing Tamson Hatuikulipi í dómsal í lok ágúst 2022. Sú yfirlýsing er til í myndbandi á facebook-síðu The Namibian og getur því hver sem er horft á og staðfest. Orðrétt sagði Tamson: „Because in my testimony I have testified that in the first meeting Johannes told me that he messed up the operations of his employer in Morocco, mainly due to substance abuse and alcohol my lord. So, what I have said in my evidence-in-chief and what was said in this affidavit is the same my lord.“
6. Bls. 68: Vitnað í ásakanir Gunnlaugs Árnasonar frá árinu 2001 þar sem hann ásakaði Samherja um að hafa svikið sig í viðskiptum um bát og selt öðrum á hærra verði.
Þarna er atvikum lýst rangt eins og kemur fram í meðfylgjandi frétt:
Sveitarfélagið Dalvík, sem samkvæmt lögum átti forkaupsrétt að viðkomandi bát, nýtti sér þann rétt og gekk inn í kaupin. Við því gat Samherji vitanlega ekkert gert og kom þar hvergi nærri eins og kemur fram í greininni.
Annar hluti
Eins og kom fram í fyrsta hluta vafðist fyrir hinum margverðlaunuðu blaðamönnum að nota Google til að sannreyna heimildir sínar, nema eitthvað annað hafi vakað fyrir þeim en að segja satt við vinnslu þess efnis sem þeir, að eigin sögn, höfðu lagt í svo „ítarlega greiningu með djúpum rannsóknum“. Er nema von að maður spyrji sig hvað verðlaunablaðamönnunum gekk eiginlega til? Í minni heimabyggð kallast þetta einfaldlega fúsk. Allt lagt í sölurnar til að koma höggi á Samherja, eigendur félagsins og ekki má gleyma Sjálfstæðisflokknum, kvótakerfinu og stjórnarskránni. Það er nefnilega svo að í hvert sinn sem ráðist hefur verið á Samherja fylgir hitt með eins og mý á mykjuskán. En höldum bókmenntarýninni áfram:
1. Bls. 70 og 82: Fjallað um fyrstu drög KPMG að skýrslu um milliverðlagningu í samstæðu Samherja og gefið í skyn að sýn KPMG hafi verið sú að Þorsteinn Már hafi stýrt öllu.
a. Lagabreyting átti sér stað árið 2015 sem gerði það að verkum að félög í viðskiptum við tengda aðila í öðrum löndum urðu að hafa skjölun um viðskipti sín og fyrirkomulag til staðar fyrir skattayfirvöld. Samherji hafði frumkvæði að því að fá KPMG til að aðstoða sig við að hafa þessa hluti í lagi.
b. Lögmaður KPMG var mjög skýr í skýrslutökum hjá héraðssaksóknara 17. desember 2020 um að varasamt væri að leggja til grundvallar fyrstu drög enda gæti verið margt vitlaust þar. Skýrslan er löng og ítarleg en grípum niður í á nokkrum stöðum, en þessar tilvitnanir sýna vel á hvers konar villigötum menn eru:
i. „Síðan áttum við að vera í sambandi við Jóhannes af því að hann vissi allt um Namibíu og sá alveg um Namibíu og það voru bókaðir einhverjir fundir með honum en hann sveik alla fundi og mætti aldrei […] Þannig að við fengum í sjálfu sér engar upplýsingar um þann hluta.”
ii. „eins og þú veist þessi umfjöllun sem hefur verið í Stundinni og annað, mér finnst þeir svona misskilja í raun og veru alveg hvað svona skýrsla, til hvers hún er og hvað er verið að horfa á. Af því það er, þó að þú sért að veita einhverju félagi þjónustu, þá ert þú ekkert endilega að taka einhverjar ákvarðanir varðandi daglegan rekstur þess félags.“
iii. „Það, félagið hefur bestu yfirsýnina yfir það, þú veist upp á, þeir eru að leiðrétta textann, þá hlýtur hann bara að hafa verið rangur, þú veist hjá okkur.”
iv. „Nei bara að ég, þú veist, sagði kannski áðan að þú veist ég veit ekkert hvort þið truflist mikið af því en einhver svona blaðaumfjöllun, þarna sem verið er að mixa eplum og appelsínum og, og hérna og þú veist, já það er kannski eina sem er, hef að segja um þetta og síðan já, kannski bara, svona mín upplifun af þessu samtali sko, að ég tel bara svona, þú veist, þannig að þetta væri fyrsta skýrslan sem þú værir að skoða, þú veist, svona skýrslur eru marga mánuði í vinnslu, þú veist og boltinn er að ping pongast á milli og milli mismunandi þú veist starfsmanna innan félagsins til að reyna að fá sem bestar upplýsingar. Það að leggja einhvern, þú veist, hengja sig á einhverja fyrstu eintök eða jafnvel annað, þriðja eða fjórða eintak af skýrslu er, er mjög varasamt sko, af því að það þarf á engan hátt að endurspegla raunveruleikann sem er að gerast í félögunum, hvort sem það sé Samherji eða eitthvað annað félag.”
2. Bls. 112: „Það var soldið svona stefna hjá Samherja, það mátti helst ekki vera að borga einhver gjöld og til dæmis þegar við komum inn með vinnslubúnað fyrir verkefni í Marokkó haustið 2008, fyrir fyrirtækið Hekla Mar. Þannig að við enduðum á því að við smygluðum eiginlega búnaðinum inn, gerðum falska reikninga og svoleiðis og borguðum þá tollinum upphæðir til að koma þessu í gegn.”
a. Enginn fótur er fyrir þessum ásökunum. Hins vegar liggur fyrir að Jóhannes hafði fyrir vana að útbúa falska reikninga til að fela slóð sína og blekkja bókhald Samherja. Má nefna namibíska manninn Naftal Shailemo sem Jóhannes kynntist í gegnum Lucas Nanyemba, namibískan kvótahafa. Jóhannes skýrði aldrei hlutverk hans fyrir einum eða neinum en í rannsókn Samherja árið 2020 kom í ljós að sá aðili faldi peningaúttektir og ýmsar millifærslur Jóhannesar í bókhaldi Samherja. Þá veitti Jóhannes samstarfsmönnum sínum villandi upplýsingar ef upp komu spurningar. Þetta sýna tölvupóstar sem eru í vörslu lögreglu en Jóhannes afhenti ekki.
3. Bls. 114: „Öllu rusli er hent í sjóinn. Það fór bara allt rusl í sjóinn og allur smáfiskur í sjóinn og brottkastið gat verið frá 20 upp í 40 prósent af veiðinni. Það þurfti ekki að borga eftirlitsmönnunum mikið.”
a. Þetta er rangt. Samherji hefur lagt sig fram um að koma með allan úrgang í land, hér sem erlendis. Um borð í skipunum var ruslabrennsla og þá hirtu heimamenn gjarnan allan pappa til nota fyrir sig. Þá sýna afladagbækur og önnur skjöl að allur fiskur kom að landi, líka smár fiskur og meðafli. Á Wikileaks eru t.a.m. fjölmörg excel-skjöl sem sýna þetta.
4. Bls. 132: Vitnað til tölvupósts Baldvins Þorsteinssonar frá 2009 um vangaveltur hans um sölufyrirtæki á Kýpur. Raunar er vitnað alls þrisvar sinnum í þennan tölvupóst í bókinni og nákvæmlega sami texti um það.
a. Til að fá glögga mynd af málinu er best að skoða samantekt Örnu McClure á heimasíðu Samherja um Seðlabankamálið. Fyrir það fyrsta gerði Samherji ekkert með þessar vangaveltur enda algerlega ómótaðar. Í öðru lagi felldi Seðlabankinn sjálfur niður ásakanir sem sneru að þessu (það vill nefnilega gleymast að sektin sem bankinn reyndi að leggja á Samherja varðaði alls ekki erlenda reksturinn, bankinn felldi það sjálfur niður áður), sem og sérstakur saksóknari, skattrannsóknarstjóri og ríkissaksóknari. Ekkert þessara embætta taldi neitt hæft í þessum ásökunum. Þessi tölvupóstur sannar því nákvæmlega ekki neitt.
5. Bls. 133: Því er haldið fram að hugmyndir Baldvins hafi í reynd orðið að veruleika og gert mikið úr því að fiskur sé ekki fluttur til, geymdur eða neytt á Kýpur. Þetta er annað dæmi um það sem ítrekað kemur fram í bókinni. Sama ásökunin um að enginn fiskur hafi verið fluttur til Kýpur er endurtekin margsinnis í bókinni, að því er virðist til að lengja hana.
a. Samherji var vissulega með starfsemi á Kýpur en hún átti ekkert skylt við hugmyndir Baldvins.
b. Grundvallar misskilningur Inga Freys Vilhjálmssonar á Stundinni, en hann hefur margsinnis skrifað og endurskrifað rangfærslur um þetta, birtist um tilhögun fisksölu. Ingi Freyr skrifaði „frétt“ sem er endurómuð á þessari blaðsíðu um að torkennilegt sé að sá fiskur sem Útgerðarfélag Akureyringa hafi selt til kýpversks félags hafi aldrei flætt í gegnum kýpverskar hafnir. Hafa verður í huga að Ice Fresh Seafood ehf., sem er með aðsetur á Glerárgötu 32, selur gríðarlegt magn af fiski. Það þýðir hins vegar ekki að hann flæði í gegnum skrifstofuna, og ekki einu sinni þarf hann að koma til Akureyrar, hvað þá til Íslands. Alla jafna fer fiskurinn beint frá framleiðanda til endanlegs kaupanda.
c. Þá er fullkomlega skautað framhjá því að á móti tekjum er alla jafna rekstrarkostnaður, þá er ekki greiddur eignaskattur á Kýpur frekar en á Íslandi. Það þýðir ekkert að taka bara stærstu töluna í ársreikningnum og birta hana. Það er meira í rekstri en bara innkoma.
6. Bls. 136: „Á efstu hæð mikils og hás turns, sem tengdur er hótelinu, er hringlaga bar sem er einungis opinn þeim sem gista í allra fínustu herbergjum hótelsins. Í skjóli frá þessum bar tóku Íslendingarnir þrír á móti unga manninum.”
a. Þessi stílfærða lýsing á ekki við rök að styðjast. Það er aðeins einn bar og sundlaug á efstu hæðinni og er það opið öllum gestum. Síðan er viðskiptarými á móti sem svipar til allra viðskiptarýma á hvaða hóteli sem er. Þetta ættu margverðlaunuðu blaðamennirnir að vita, enda fóru þeir til Windhoek. Ef til vill voru þeir meira í að skoða gíraffa en sannreyna upplýsingar.
7. Bls. 137: „Þó lagði gesturinn dálítið á borðið sem gerði hann milljón dollara virði og rúmlega það. Það var fjölskyldualbúm.”