Jón Magnússon skrifar:
Ánægjulegt að Guðmundur Árni Stefánsson bæjarfulltrúi, en áður þingmaður og ráðherra skuli gefa kost á sér sem varaformaður Samfylkingarinnar við hlið Kristrúnar Flosadóttur, sem allt stefnir í að verði sjálfkjörin formaður flokksins.
Samfylkingin hefur ekki náð að mynda sér stöðu sem vinstri miðflokkur eins og systurflokkar hennar á Norðurlöndum frá því að Jóhanna Sigurðardóttir færði flokkinn út í algjört óefni í landsmálunum. Samfylkingin hefur verið á svipuðum slóðum og Píratar með grunnstefnu að ganga í Evrópusambandið og að taka undir woke rugl og ábyrgðarleysi í innflytjendamálum.
Ég vænti mikils af þeim Kristrúnu og Guðmundi Árna og vona að það leiki ferskur blær um Samfylkinguna þegar þau taka völdin í flokknum og þau nái að gera Samfylkinguna að ábyrgu stjórnmálaafli sem hrekst ekki undan hvaða vinstri rugli bulli og vitleysu, sem vera skal. Þjóðin þarf á því að halda að eiga víðsýnan og ábyrgan flokk sósíaldemókrata.