Vígslóði – við erum smöluð hjörð…

frettinArnar Sverrisson, Pistlar1 Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Um þessar mundir, þegar vítisvargar eggja til nýrrar heimshryðju, er engu líkara en dreyrasótt gangi yfir Evrópu. Álfan hefur frá fornu fari hýst margan hrævalinn. Þegar hergrimmar og morðóðar feigðardísir og valkyrjur - eins og íslenski utanríkisráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hinn ólánsami (fyrrum) forsætisráðherra, Liz Truss, og hin umhverfisvæna Annalena Baerbock – vaka yfir valnum og krefjast blóðsúthellinga karlmanna, reikar hugurinn til fyrri hjaðningavíga og morðsótta.

Klettafjallsskáldinu góðkunna, Stephan G. Stephansson/Stefáni Guðmundi Guðmundssyni (1853-1927), var fyrsti alheimshildarleikurinn, þ.e. þegar aldalöng stríð nýlenduveldanna eru frátalin, hugstæður. Hann orti fjölda kvæða um tildrög, orsakir og hörmungar styrjaldarinnar, gefin út í kvæðakverinu, „Vígslóða.“

Svo hljómar kvæðið, „Sláturtíðin:“

Evrópa er sláturhús, þar myrða þeir af móði

og mannabúka í spaðtunnurnar brytja í erg og gríð.

Við trogið situr England og er að hræra í blóði

með öllum sínum kaupmönnum og bæjargötulýð.

Þrátt fyrir, að Bandaríkjamenn í landi hinna frjálsu hafi tekið við aðalhlutverki Breta sem stríðsþjóð, eftir annað heimsbál, eru Bretar iðnir við stríðskolann og taka enn þá virkan þátt í anglósaxíska morðæðinu víða um veröld, t.d. í Úkraínu nú.

Stephan var einlægur friðarsinni. Hann lá ekki á þeirri skoðun sinni, að hér telfdu auðmenn blóðskák og otuðu fram peðum sínum.

Í kvæðinu, „Ögrunum,“ segir hann:

Þegar sérhver ganti og gjóstur,

grunnhyggnina æsti í róstur,

fús til sig og sína að spara,

sjálfur ætlar hvergi að fara!

eggjaði hæst á múgamannsins

mannablót til fósturlandsins,

viss að bera í sínum sjóði

sæmd og auðlegð frá hans blóði

tómum köllum kokhreystinnar

kaupa nafnbót lýðhyllinnar:

Stærstan huga þurfti þá

að þora að sitja hjá.

Í kvæðabálknum „Vopnahléi“ (sem ég leyfi mér fara býsna frjálslega með) lýsir Stephan fundum „fjandmanna“ í fremstu víglínu, sem rankað hafa við sér í „maðkaveitunni.“

Samist hafði því um fárra tíma vopnahlé,

því valinn átti að ryðja.

Að því búnu aftur skyldi hafin

orrustan, á ruddri braut til heljar.

Sérhvert peð á sínum reit á meðan

sitja kyrr og manndrápstaflið standa.

Orðaskila bil var blóðvallarins

breidd, á milli vegendanna fremstu.

Öðrum megin, bak við reyttan runna,

réttist upp á kné sín áhlaupsmaður.

Skarn og blóðpoll skriðið hafði á grúfu

skothríð undir. Síðan kveldið áður

niðri i leirnum legið hafði flatur

langa haustnótt, dregið líf og nötrað.

Ljúf var ennþá æskunni hans sterku

upprisan í sólskinið og friðinn.

Gengt á móti gægðist upp úr fúlli

gryfju sinni framvarðsliði roskinn.

Föt hans vóru blaut og dreyrablettuð,

blóðug skóvörp, þó hann ósár væri.

Þarna hafði hann legið milli líka

langa sólarhringa, í fremsta vígi.

Yngsti sonur hniginn lá til hægri,

hafði á vinstri aldavin sinn fallinn,

skorðaður hræjum, andaði nálykt að sér

undir fellibyl af kúlugosum.

Þessir ógæfusömu hermenn áttu orðastað á sömu tungu. Það tókst með þeim „vinátta“ ekki ósvipuð þeirri og þegar stríðsmenn enskir og þýskir skriðu úr skotgröfunum og héldu jól saman. Þeim ensku hafði verið att á foraðið til að frelsa konur úr klóm þýskra nauðgara eins og títt er í stríðinu gegn körlum nú, sem háð er á almennum vettvangi, meira að segja í íslenskum framhaldsskólum.

„Óskir mínar beztu,“ tók hann undir, „heilsa þér, minn fjandi fyrir skemmstu, faðir núna.“

„Son þig bæri að kalla,

fyrst þú mig með föðurnafni kveður.

Finn til, að ég get ei ennþá nefnt þó

annan son en hann, sem hérna liggur

hjá mér lík, í gröfinni okkar beggja.

Það er ekki óvináttumerki

okkar milli.“

Spjall fjandvinanna hefur áfram. Þeir lýsa ofríki, þjófnaði og áróðri valdamanna, skáldanna sem mærðu þá, hræsni og svik kristinna manna, hvernig þaggað var niður í friðarröddum og hvernig karlmönnum, sem viku sér undan að fremja lögleg morð, voru dregnir fyrir herrétt.

Annar sagði:

Hitt var, ég gekk – samkvæmt lands míns lögum

lærða skólann í, sem kenndi að myrða.

Mér var enginn munur á því, lagsi.

Manndráp eru skyldunám hjá okkur.

Stríð var kveikt upp, ég í herinn heimtur.

Hefði ég afsagt, var ég sömu stundar

drottinssviki, dauðamaður sekur,

dæmdur svo af herrétti og skotinn.

Ég á börn og vildi voga að lifa

vegna þeirra. Stríð er opinn dauði,

en þar verður stundum feigum forðað,

fyrir herdómi aldrei. Stríðið kaus ég.

Hinn sagði „fjandvininum“ sína sögu um atvinnuleysi og hermannsekkjuna, móður sína. Hann aflaði farborða móður sinni með málanum, sem ríkið galt honum fyrir drápin.

„Mér varð það svo eina leið að ala

önn fyrir mömmu og sjálfum mér. En hún er

hermanns ekkja. Heim úr fyrra stríði

hann kom sár og tórði lengi í ómegð.

Þegar ég komst á drengja aldur

eftirlaunin vóru af honum klipin.

Það leikur í hermannshuga enginn vafi á, hverjir séu aflvakar hildarleiksins:

Lánardrottnar heimsins hafa vitað,

hvað bjó undir stjórnar-kápum ríkja:

Stærra veð í fjárhagsþrælkun fólksins

Festa mætti, taka í skuldagisling

ófædd börn, til aldurloka jarðar

erfiðandi að gjalda vöxtu af lánum.

Ófrávíkjanleg skylda karla – jafnvel í vestrænum kvenfrelsunarsamfélögum á vorri tíð - til að fórna sér til verndar föðurlandi og konum í nauð, átti við um þessa eymingjans hermenn eins og ævinlega áður í sögu mannkyns.

Sérhver maður fellur í fyrirlitning

fólksins vors, er setið getur heima,

bjóði hann ei og heimti sig í herinn,

hana er ungum manni verst að þola.

„Höggvumst við um frelsi að vera í friði

fáráðarnir, þú og ég, sem höfum

engan rétt til atkvæða um sjálfa okkur –

leyfum það sé okkur fornspurt,

hvort við skulum myrða og láta myrðast?

Meinleysi er hvergi frjálst að vera,

hérna banna herlög slíkt, en þarna

hleypidómar lýðsins. Það er jafnvægt.

Í nýlendustríðum Breta var það siður kvenna að næla hvítri fjöður í barm veilhuga, ungra karla, sem skirrast vildu við drápskvöðinni. Í fyrri heimsstyrjöldinni tóku (kvenkyns) kvenfrelsarar þennan sið upp.

Við erum smöluð hjörð, sem undir hnífinn

húsbændurnir ráku inn í kvína,

grunlaus um, hver skal til frálags,

fyriróralausir, hverjir verða,

settir í bráð á vetur, guð og gaddinn.

Verða kannske endalokin manna sálgun undir

sínum handaverkum?

Lokaorð spjalls þjáningabræðranna, þegar stríðsbumburnar glymja á ný, eru þessi:

„Tak þér var á vopni mínu, faðir!“

„Velkominn í gröfina til mín, sonur!“

Lýk þessu stutta innliti hjá Stephan með kvæðinu, „Ab Abenddon:“

Engill morðs og skemmda! Skál á veginn

- skynlaus veröld senn mun blóði þvegin –

renni í arm þinn afdæmd sláturhjörðin,

örara en heimskan fyllir skörðin.

Skál! Nú fækkar flónum öllum megin.

One Comment on “Vígslóði – við erum smöluð hjörð…”

  1. Vel til fundið að rifja upp þessi mergjuðu friðarljóð Stephans G. Á vel við í þessari blóðskák sem nú er tefld.

Skildu eftir skilaboð