Hatursorðræðan: Löggjöf gegn tilfinningum til verndar tilfinningum?

Erna Ýr ÖldudóttirErna Ýr Öldudóttir, Pistlar, Skoðun, Stjórnmál4 Comments

Erna Ýr Öldudóttir skrifar:

Samráðsfundur um aðgerðir gegn hatursorðræðu, var haldinn í gær kl. 16-17.30 í Hörpu á vegum forsætisráðuneytisins.

Undirrituð skráði sig og ákvað að mæta á fundinn, til að kanna hvað þar færi fram, jafnvel til að spyrja spurninga eða leggja orð í belg.

Fyrst og fremst varð mér hugsað til tjáningarfrelsisins, sem er til að vernda tjáningu sem er fyrirlitin, ósamþykkt og óvinsæl. Ekki er þörf á því að vernda það sérstaklega sem nýtur almennrar velvildar og samþykkis. Bann og refsing við umdeildri tjáningu yrði þannig fljótt að afnámi tjáningarfrelsisins.

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnaði fundinn. Dr. María Rún Bjarnadóttir fór af lagalegri þekkingu yfir málaflokkinn og hvað væri verið að mæla og gera erlendis og hérlendis í hatursmálunum.

Hvað er hatursorðræða? Veit það einhver?

Það sem einkenndi fundinn var að ekki virtist vera fastákveðið hvað hatur sé annað en tilfinning þess sem hatar. Hatur er í raun ósýnileg tilfinning, þar til hún birtist í framkvæmd með aðgerðum eða aðgerðaleysi. Dr. María Rún benti á að engin óumdeild alþjóðleg skilgreining á hatursorðræðu væri til. Tjáning hennar fari þó fram með myndmáli eða orðræðu.

Hatursfull tjáning virtist vera metin í alvarleikaþrepum sem ógnandi, móðgandi eða óþægileg.

Tilraun til að flokka hatursorðræðu sem virðist samt ekki alveg nógu skýrt skilgreind.

Nú þegar er bannað í Almennum hegningarlögum að ógna mönnum eða hvetja til ofbeldis. En hefur einhver rétt á því að móðgast ekki eða því að verða ekki vitni að óþægilegu samtali eða skilaboðum? Ætti ríkisvaldið að taka það að sér að verja borgarana fyrir móðgunum og óþægindum?

Þá þyrfti að reyna að reikna út hvað sé móðgandi. Á ensku er sagt: Offence is taken, not given. Þannig er vísað til ábyrgðar einstaklinga á sínum eigin tilfinningum gagnvart tjáningu annarra. Móðgun verður í raun ekki til fyrr en að einhver móðgast. Að móðgast getur líka verið fall af samhengi eða forsögu einhverra persónulegra mála eða hreinlega af andlegu dagsformi einstaklings. Tilurð móðgunar gæti þannig verið einstaklingsbundin og jafnvel óskiljanleg öðrum en hinum móðgaða.

Um óþægindi gildir það sama. Að öðlast þekkingu í gegnum rökræður eða nýjar upplýsingar, getur verið gagnlegt, en líka óþægilegt. Það gæti kostað að erfiðar spurningar vakna og að maður þurfi að endurmeta sína eigin sannfæringu eða fyrri verk. Ætti ríkisvaldið að vernda okkur fyrir því að þurfa að vaxa, þroskast og endurmeta það sem við erum að gera?

En til að vera sanngjörn, þá skildist mér amk., að umræðan um hatursorðræðu beinist gegn markvissri og endurtekinni ómálefnalegri ósanngirni og fjandskap í formi tjáningar, gagnvart einstaklingum og hópum. Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að slík hegðun geti endað með miklum ósköpum.

Stjórnvöld stikkfrí á meðan borgararnir þurfa að vara sig

Það vakti athygli mína að ekki var farið yfir það sérstaklega þegar stjórnvöld eða fjölmiðlar taka einstaklinga eða hópa markvisst fyrir á hatursfullan hátt, en þó var það víst kveikjan að því að menn fóru fyrst að velta hatursorðræðu fyrir sér sem mögulegu vandamáli. Stjórnvöld undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, Forseti Íslands, fjölmiðlar, forsvarsmenn fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka auk fleiri aðila, tóku það að sér nýlega að beita einstaklinga og hópa óeðlilegum þrýstingi með ógn um atvinnu- og réttindamissi, mismunun, útilokun og smánun. 

Orðræðan beindist m.a. gegn þeim sem höfðu efasemdir um farsóttaraðgerðir og bólusetningu með tilraunalyfjum gegn SARS-COVID-19. Útlendingar, og þá sérstaklega Pólverjar, urðu fyrir barðinu á þeirri umræðu á grundvelli þjóðernisuppruna, sem varð loks til þess að pólski sendiherrann kvartaði formlega. Enn eiga stjórnvöld og aðrir eftir að gera þessa múgsefjun upp og biðja alla hlutaðeigandi afsökunar á ástæðulausri og fjandsamlegri framgöngu sinni.

Fundurinn í gær virtist þrátt fyrir þessi nýlegu, alvarlegu mistök miklu fremur snúast um áhyggjur forsætisráðherrans af tjáningu almennra borgara. Skoðum hvað þar er nú efst á baugi.

Einelti og berufsverbot byggt á ósönnuðum ásökunum einum saman hefur komið af miklum krafti á dagskrá opinberrar umræðu í kjölfar tæknibyltingar. Hún virðist hafa gefið hverjum sem er sápukassa til að standa á og vald til að sníða alvarleika meintra atvika að sínum eigin tilfinningum. Í framhaldinu fær viðkomandi að dæma og refsa með hjálp fylkinga viðhlæjenda sinna. Eins virðist ekkert rými vera lengur fyrir skoðanir og sjónarmið önnur en þau sem eru á vinsældavagninum hverju sinni, en margir samborgarar mínir, ásamt undirritaðri, hafa oftsinnis fengið að kenna á því, ýmist í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum.

Íþrótta- og listamenn hafa misst viðurværið vegna miskunnarlausrar umræðu byggðri á sögusögnum.

En hverjir eru það sem fá lagavernd fyrir hugsanlegrum markvissum og endurteknum ógnunum, móðgunum og óþægindum af hendi annarra?

Samkvæmt 233.a. gr. Almennra hegningarlaga eru einstaklingar og hópar verndaðir fyrir háði, rógburði, smánun og ógnunum vegna uppruna og sumum einkennum sem taldir eru sérgreina þá. Þjóðernis- eða þjóðlegur uppruni, litarháttur, kynþáttur, trúarbrögð, fötlun, kyneinkenni, kynhneigð og kynvitund eru tilgreind í lögunum. Viðurlög eru allt að tveggja ára fangelsi.

Sameinuðu þjóðirnar tilgreina einnig kyn auk annarra séreinkenna í sinni áætlun gegn hatursorðræðu frá 2019. Tilmæli Evrópuráðsins tilgreina einnig aldur.

Mislangar og -skýrar upptalningar á hverjir skuli verndaðir fyrir hatri.

Hvað er hægt að gera til að draga úr hatursorðræðu?

Ein leiðin væri að herða löggjöfina gegn tilfinningum (hatri) til verndar tilfinningum (móðgun), og framfylgja henni.

Til dæmis, það að vera rússneskur, hvítur, miðaldra, karl, gagnkynhneigður og kristinn, er upptalning á þjóðerni/uppruna, húðlit/kynþætti, aldri, kyni, kynhneigð og trú. Þannig er útlit fyrir að breiður hópur fólks gæti tekið upp á því að þramma niður á lögreglustöð og telja á rétt sinn hallað eftir ótal neikvæð ummæli sem hafa verið látin falla í opinberri umræðu undanfarin misseri og ár. Hugsanlegt er að þrátt fyrir bann og refsiheimildir í lögum, sé orðræðu gegn þessum hópum jafnvel að finna í opinberum skjölum, fyrirsögnum fjölmiðla og félags- og kynjafræðikennsluefni skólanna.

Dr. María Rún minntist á að þeir sem ekki yrðu fyrir hatursorðræðunni sjálfir, gætu tekið að sér að tilkynna um ætluð brot fyrir hönd annarra skv. tillögum byggðum á mögulegu afleiddu tjóni þeirra sem tilheyra sama hópi. Ekki mundi slíkt klögumálasamfélag draga úr verkefnum varða laganna, ákæruvaldsins og dómskerfisins við að leysa úr öllum þessum ætluðu lögbrotum og ágreiningsmálum. Mögulega þyrfti að stækka fangelsið á Hólmsheiði þar sem fjölmennur hópur hatursorðræðu-glæpamanna gæti orðið að sitja af sér allt að tvö ár í fangelsi.

Lögreglan, ákæruvaldið og dómstólar eru uppteknar stéttir.

Fljótlega sést að það yrði erfitt að framfylgja þessum lögum og hafa eftirlit með tilfinningum og mannasiðum án þess að auka umsvif hins opinbera stórkostlega og ganga gróflega á réttindi borgaranna í leiðinni. Markmiðunum yrði aldrei náð, þar sem að óæskilegar tilfinningar hverfa ekki fyrir bannlista yfir nokkur andlög tjáningar á þeim. Auðséð er að hatursorðræða getur auðveldlega orðið hvaðeina annað en það sem nýtur sérstakrar verndar í lögum, en veldur fólki eftir sem áður ógn, útskúfun, miska og þjáningum.

Hvernig viljum við vera og hvert ætlum við?

Hin leiðin væri markviss hvatning til skilnings, tillitssemi, náungakærleika og uppbyggilegra samskipta, þrátt fyrir skiptar skoðanir og ágreining. 

Þarna gætu fjölmiðlar orðið að fara í naflaskoðun, en sumir þeirra freistast til að hampa neikvæðri umræðu um einstaklinga eða hópa af samfélagsmiðlum í von um auðfengna smelli og athygli fyrir lágmarksvinnu. Jafnframt virtust fjölmiðlarnir taka málstað stjórnvalda í stað þess að upplýsa og veita þeim nauðsynlegt aðhald. Farið var af miklu afli gegn tjáningar- og skoðanafrelsi almennings og frelsi fólks til að ráða yfir eigin líkama gagnvart lyfjatilraunum risafyrirtækja. Klappað var með ólögmætum frelsisskerðingum, eins og slík þjónusta við valdið væri bara sjálfsögð og til eftirbreytni.

Nauðsynlegt er að benda á að grundvöllur mildi, fyrirgefningar, náungakærleika og samkenndar hefur í um aldir verið kristin trú, sem virðist nú vera á hratt fallanda fæti á heimilum, í skólunum og jafnvel í Þjóðkirkjunni. Ekkert hefur komið í staðinn, nema stækur rétttrúnaður á hin ýmsu málefni líðandi stundar, þar sem talsmenn þeirra hafa oft beinharða hagsmuni af því að afla málstað sínum fylgis og hafna gagnrýni með öllum ráðum. Tískumálefni rétttrúnaðarins hafa undanfarið átt greiða leið inn í fjölskyldur, kirkjur og skóla landsins á kostnað sígildra, traustra undirstaða sem hafa borið þjóðina uppi í gegnum aldirnar.

Brjóstajesú með kjólinn flaksandi upp um sig þjónaði rétttrúnaði stundarhagsmuna.

Samfara þessu öllu hafa orðið hraðar breytingar á litlu og einsleitu samfélagi, en tíma tekur fyrir framandi, nýja hópa sem ýmist koma og setjast að, eða spretta upp úr nýjum hugmyndum, að ávinna sér traust og virðingu. Það er manninum eðlilegt að vera á varðbergi gegn því sem er framandi. Þannig þarf að vera rými til að leyfa því að gerast, þó það kosti einhverja árekstra til að byrja með. Sumum gæti mistekist, en fyrir því eru þá einhverjar ástæður sem verður að vera hægt að ræða opinskátt, til að eiga einhverja von um að leysa ágreininginn eða hafna því sem er ekki og verður aldrei ásættanlegt.

Að lokum hefur samfélagið breyst á þann veg að kynslóðirnar tala ekki lengur saman. Mikil þekking og góðar gáfur jafnast ekki á við visku, en hún fæst aðeins með reynslu af langri ævi. Henni er ekki lengur miðlað til barna og ungmenna í sama mæli og áður. Börn lærðu bænirnar sínar og að vera góð við menn og dýr, af eldri kynslóðunum sem áður voru til staðar. Í dag býr eldri kynslóðin aðskilin frá fjölskyldunni og unga kynslóðin horfir þess í stað á tæki þar sem oft óvægin umræða og barátta „fullorðna“ fólksins fer fram.

Niðurstaðan er að hugsanlega er runnin upp sú stund að við þurfum að bæta hvernig við bregðumst við jafnvel smæstu yfirsjónum og áföllum, og hvernig við komum sjálf fram við aðra.

Ég er ekki sannfærð um að bönn og refsingar með löngum armi laganna verði farsæl leið til að ná þeim árangri. Leiðsögn í átt að auðmýkt, fyrirgefningu og kærleika mun hinsvegar alltaf borga sig.

4 Comments on “Hatursorðræðan: Löggjöf gegn tilfinningum til verndar tilfinningum?”

  1. Fín samantekt, það að setja lög um mannasiði og tilfinningar bætir ekki samfélagið. Það er heldur ekki til varnar lýðræðislegri umræðu á nokkurn hátt. Grínistin Rowan Atkinson orðaði þetta ágætlega þegar hann varaði við innleiðingu slíkra laga í heimalandi sínu:
    https://www.youtube.com/watch?v=BiqDZlAZygU

  2. „Fundurinn í gær virtist þrátt fyrir þessi nýlegu, alvarlegu mistök…“

    Þetta voru ekki mistök. Þetta voru vísvitandi brot, sem stendur til að gera að almennri reglu, hvað sem hver segir. Katrín & félagar eru harðir skoðanakúgunarsinnar.

    Hugmyndin er ekki að bæta samfélagið, heldur að terrorisera, gera fólk hrætt við að tjá sig. Það að slíkt leiði bara til ofbeldis þykir vera kostur.

    Af hverju haldiði að þetta sé eitthvað vel meinandi en breyskt fólk? Allt bendir til að svo sé ekki. Það er hrein mannvonska á bak við þessar hugmyndir þeirra.

Skildu eftir skilaboð