Vinstra-Ísland ekki lengur stefna Samfylkingarinnar

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar2 Comments

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Mesti áhrifavaldur Samfylkingar fyrstu ár flokksins var Sjálfstæðisflokkurinn. Breiðfylking vinstrimanna var stofnuð til höfuðs Sjálfstæðisflokknum, átti að verða „hinn turninn“. Ekki gekk það fyllilega eftir. Fljótlega var tekið að leita hófanna eftir samstarfi við móðurflokk íslenskra stjórnmála.

Ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, 2007-2009, skildi eftir sig óbragð, einkum hjá sjálfstæðismönnum sem fannst Samfylking hlaupast undan merkjum þegar þjóðin þurfti á samstöðu að halda í kjölfar bankahrunsins.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, Jóhönnustjórnin, var fyrsta og eina hreina vinstristjórn lýðveldissögunnar. Samfylkingin fékk um 30 prósent fylgi í kosningunum 2009 og Vinstri grænir nær 20 prósent.

Óformlegt slagorð Jóhönnustjórnarinnar var „Ónýta Ísland.“ Vinstra-Ísland skyldi leysa af hólmi 1944-lýðveldið. Ný stjórnarskrá og ESB-aðild voru hornsteinar. Jóhönnustjórnin gróf sína eigin gröf með stöðugum árásum á allt íslenskt. Bankahrunið var ekki í neinum skilningi til marks um að íslenskt samfélag væri misheppnað, - nema hjá vinstrimönnum.

Þjóðin gaf vinstriflokkunum tveim rauða spjaldið í þingkosningunum 2013. Fylgi Samfylkingar minnkaði um tvo þriðju, fór í 12,9% en Vinstri grænir töpuðu „aðeins“ helming fylgisins, urðu tíu prósent flokkur.

Eftir að Vinstri grænir hófu stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsókn fyrir fimm árum var fyrsta viðbragð Samfylkingar að gagnrýna frá vinstri. Undir formennsku Loga Einarsson vildi flokkurinn bandalag vinstriflokka s.s. Pírata og Viðreisnar til að endurræsa stefnu Jóhönnustjórnarinnar sálugu. Ný stjórnarskrá og ESB-aðild voru áfram á dagskrá. Flokkurinn komst hvorki lönd né strönd með róttæka vinstripólitík liðins tíma.

Undir formennsku Kristrúnar verður stefnt til hægri. Markmiðið er að ryðja Vinstri grænum úr vegi og komast í landsstjórnina með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn.

Verkefni Kristrúnar er snúið, svo ekki sé meira sagt. Vinstri grænir eru orðnir hagvanir í stjórnarráðinu. Það sem meira er: hvorki Sjálfstæðisflokknum né Framsókn dytti í hug að skipta út Vinstri grænum fyrir Samfylkinu. Samfylkingin, sem arftaki Alþýðuflokks, er til muna andstæðari framsóknarmennsku en Vinstri grænir. Sjálfstæðismenn sjá ekkert hjá krötum sem slægur er í og ekki fæst hjá Kötu.

Nú er ekkert sem segir að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn haldi styrk sínum og enn síður að flokkarnir sitji í landsstjórn sjálfkrafa. En það verður að taka mið af veruleikanum. Þessir tveir flokkar eru með um 40% fylgi. Án Sjálfstæðisflokks og Framsóknar verður ekki mynduð þriggja flokka ríkisstjórn.

Leiðangur Kristrúnar að gera Samfylkinguna stjórntæka felur í sér hagnýta pólitík en fyrst og fremst ábyrga pólitík. Það þýðir óformlegt uppgjör við Pírata og Viðreisn í stjórnarandstöðunni. Til að hagur Samfylkingar vænkist þarf samvinnan við Pírata og Viðreisn að veikjast.

Til að verða stjórntæk þarf Samfylkingin að leggja á hilluna upphlaupspólitík. Það er til nokkuð mikils mælst, sé tekið mið af stefnu flokksins síðustu árin.

2 Comments on “Vinstra-Ísland ekki lengur stefna Samfylkingarinnar”

  1. Því miður er engin munur á þessari Kristrúnu heldur enn hinum froðusnökkrunum í hennar flokk eða restini á Alþingi
    hreinir tækifærissinnar, það er mjög djúp kreppa í Íslenskum stjórnmálum og sú kreppa er ekkert að breytast á næstunni. Hvernig væri nú að leggja þessi anskotans flokkakerfi niður og kjósa fólk í stað þess að stíra hlutunum og umræðunni úr einni átt, þetta er það sem fasismi þrífst á!

  2. Hef ekki kosið í 20. ár en það þýðir samt ekki að ég fylgist ekki með stjórnmálum. Myndi ekki kjósa aftur flokkadræddi en það er menn til staðar sem ég gæti hugsanlega gefið atkvæði ef það væri hægt að kjósa einstaklinga. Ég vona þó að Samfylkingin og hennar EU aðild verði þurrkuð út í næstu kosningum. Mér líkar ekki við Guðlaug Þór og ég held að ást hans að komast yfir raforkuiðnað Íslendinga sé virkilega hættuleg ástríða hjá þessum manni á kostnað íslensku þjóðararinnar.

Skildu eftir skilaboð