Eftir Björn Bjarnason:
Að kalla Fishrot hneykslið Samherjamálið er rangnefni sé ætlunin að lýsa því sem gerist fyrir dómstólum í Namibíu en er réttnefni vegna umfjöllunar í fréttum hér.
Yfir lykilblaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans hvílir sameiginlegur skuggi lögreglurannsóknar, einn angi Samherjamálsins svonefnda. Það má rekja til umfjöllunar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019. Skuggi rannsóknarinnar nær því einnig inn á fréttastofu ríkisútvarpsins.
Snýr þetta að ásökunum um saknæma aðild Samherjamanna að pólitísku hneykslismáli í Namibíu sem gengur þar undir nafninu Fishrot scandal. Samherji greiddi fyrir veiðirétt undan strönd Namibíu. Fyrir þingkosningar þar 27. nóvember 2019 voru tíu stjórnmálamenn, athafnamenn og lögfræðingar sakaðir um mútur og spillingu með því að draga sér milljónir dollara úr stjórnkerfi fiskveiða í Namibíu.
Sex ákærðra í Fishrot hneykslismálinu í Namibíu hafa setið bak við lás og slá í þrjú ár án þess að málið hafi verið tekið til efnislegrar meðferðar.
Að kalla þetta Samherjamálið er rangnefni sé ætlunin að lýsa því sem gerist fyrir dómstólum í Namibíu en er réttnefni vegna umfjöllunar í fréttum hér. Þar er gjarnan látið eins og Samherji sé sökudólgurinn í Namibíu. Enginn Samherjamaður sætir þó ákæru í Namibíu vegna Fishrot hneykslisins.
Upplýst í Morgunblaðinu í dag (5. janúar) að Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja, hafi leitað til héraðsdóms til að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda og að hún verði felld niður. Arna hefur haft réttarstöðu sakbornings í rúm þrjú ár í rannsókn héraðssaksóknara vegna meintra brota Samherja í Namibíu.
Meðal raka lögfræðings Örnu er að Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, sé vanhæfur til að til að annast rannsóknina, efast megi um hlutleysi hans. Í blaðinu er vitnað í greinargerð sem lögð hefur verið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar segir að sérvalin málsgögn hafi veri unnin í hendur saksóknaraembættisins, meðal annars af Inga Frey bróður Finns. Ingi Freyr er blaðamaður á Stundinni og skrifar þar hvað eftir annað um Samherja og Samherjamenn. Stundin er alls ekki óhlutdrægur miðill gagnvart Samherja.
Fagleg álitamál varðandi störf saksóknara og blaðamennsku eru flókin og viðkvæm. Stundin og Kjarninn sameinuðust um áramótin án þess að hafa verið gefið nýtt nafn. Blaðamenn sameiginlega miðilsins sækja annars vegar að ákæruvaldinu með kröfum um að það herði rannsókn og saksókn gegn Örnu MaClure og öðrum hjá Samherja og hins vegar ala blaðamennirnir á tortryggni í garð lögreglu og saksóknara vegna rannsókna og undirbúnings ákæru vegna stuldar á farsíma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja. Efni úr símanum birtist á vefsíðum Stundarinnar og Kjarnanssem innlegg í neikvæða umfjöllun miðlanna um Samherja.
Fishrot hneykslið er stórmál í stjórnmálum Namibíu. Hvað eftir annað fer málið fyrir dómara í Namibíu. Þeir sem setið hafa í varðhaldi í þrjú ár án þess að málið sé sótt og varið reyna hvað eftir annað að fá frelsi gegn tryggingu.
Samherjamálið hefur sett nokkurn svip á íslenskar stjórnmála- og fjölmiðlaumræður undanfarin ár. Er það blásið upp öðru hverju af andstæðingum Samherja til að koma höggi á félagið eða íslenska kvótakerfið. Er óskiljanlegt hve lengi saksóknarinn Finnur Þór Vilhjálmsson situr yfir málinu án þess að nokkuð gerist. Er hann örmagna andspænis því eða er það tilefnislaust?
Greinin birtist fyrst á síðunni Bjorn.is 5. janúar 2022.