Bolsonaro fluttur á spítala skömmu eftir uppþotin í heimalandinu

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, StjórnmálLeave a Comment

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, hefur verið fluttur á spítala í Orlando í Flórída með kviðverki, greindi Reuters frá í dag. Bolsonaro hefur nokkrum sinnum verið lagður inn vegna garnastíflu, eftir stunguárás sem hann varð fyrir árið 2018.

Hörðustu stuðningsmenn hans höfðu þúsundum saman efnt til mótmæla og brotist inn í þinghúsið og hæstarétt í höfuðborginni Brasilíu um helgina. Andstæðingur Bolsonaro og naumur sigurvegari forsetakosninganna í október sl., vinstri maðurinn Lula da Silva, sór embættiseið á Nýársdag. 

Ýmsir stuðningsmenn hægri mannsins Bolsonaro hafa viljað draga niðurstöðu kosninganna í efa, en meðal annars var notast við Dominion-kosningakerfið sem nýtur ekki nægilegs trausts á meðal kjósenda eftir kosningar í Bandaríkjunum og víðar. Bolsonaro nýtur enn stuðnings innan hersins og lögreglunnar, sem voru gagnrýnd fyrir að sýna mótmælendum linkind. Brasilía er sambandsríki og landstjóri Brasíliu hefur verið fjarlægður tímabundið úr embætti, en hann þarf að bera ábyrgð á dræmum viðbrögðum lögreglu.

Bolsonaro sjálfur, sem hefur verið í Flórída í Bandaríkjunum frá því þegar hann lét af embætti, hafnaði því að eiga upptökin að mótmælunum og kvað mótmælendur hafa „farið yfir strikið“.

Mótmælin hafa nú verið leyst upp af stjórn Lula da Silva sem var staddur í Sao Paulo á meðan á þeim stóð. Forsetinn kenndi Bolsonaro um að kynda undir efasemdir um kjör sitt, og lofar að finna og refsa þeim sem áttu upptökin að því að mótmælin fóru úr böndunum. Hann líkti þeim við atburðina 6. janúar 2021, þegar mótmælendur fóru inn í þinghús Bandaríkjanna. 

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa keppst við að fordæma mótmælin. Þeirra á meðal eru Joe Biden Bandaríkjaforseti, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands og Vladimír Pútín, forseti Rússlands.

Hvað er eiginlega um að vera í Brasilíu?

Spekúlantar í alþjóðamálum hafa velt því upp hvort að um tilraun til litabyltingar í CIA-stíl hafi verið að ræða. Einhverjar sögur eru á kreiki um að þannig hafi Bolsonaro upphaflega komist til valda, og einnig þykir sumum aðsetur hans í Bandaríkjunum nú, vera ákveðin vísbending. Fátt virðist þó benda til þess að svo sé, amk. enn sem komið er. 

Biden-stjórnin í Bandaríkjunum studdi Lula da Silva og fagnaði kjöri hans. Bolsonaro hafði verið opinber stuðningsmaður Donald Trump fv. Bandaríkjaforseta, og hlaut bæði lof og last fyrir að taka Covid-faraldurinn og bólusetningarnar ekki nógu alvarlega. Einnig ríma stefnumál Lula betur við stefnu Demókrataflokksins í umhverfismálum o.fl.

Eðli málsins samkvæmt eru breytingar á dagskrá hjá Lula da Silva, en eitt af því sem hann virðist ekki ætla að gera breytingar á, er þátttakan í BRICS viðskiptabandalaginu. Blokkin samanstendur af Brasilíu, Rússlandi, Indlandi, Kína og Suður-Afríku. Egyptaland, Sádí-Arabía, Íran, Tyrkland, Indónesía, Argentína og Algería hafa sótt um aðild að BRICS+. Verði þessi ríki aðilar gæti blokkin farið 30% fram úr Bandaríkjunum á efnahagssviðinu.

Bæði Bolsonaro og jafnvel enn þá heldur Lula eru miklir áhugamenn um að vinna að framgangi BRICS samstarfsins. Einnig virðist Lula da Silva vera stórvinur Vladimír Pútín Rússlandsforseta og annarra leiðtoga BRICS+ sem almennt séð virðist ætla í harða samkeppni við Vesturlönd á viðskipta- og alþjóðasviðinu.

Langur vinskapur virðist ríkja á milli Lula da Silva og Vladimír Pútín.

Þrátt fyrir þessa þróun í „bakgarði“ Bandaríkjanna verður ekki annað séð á yfirborðinu en að Biden-stjórnin og leiðtogar á áhrifasvæði Bandaríkjanna styðji Lula da Silva einum rómi í embætti. 

Þannig er vel mögulegt að upptökin að mótmælunum séu einfaldlega hjá innanlandsöflum í hinni víðfeðmu og margbrotnu Brasilíu, sem annarsvegar tortryggja framkvæmd kosninganna og óttast hinsvegar vinstri stefnumál sem gætu haft áhrif á eignir þeirra og afkomu.

author avatar
Erna Ýr Öldudóttir

Skildu eftir skilaboð