Hvítrússar gerast „píratar“ í óvinveittum ríkjum

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Stjórnmál, Úkraínustríðið2 Comments

Ríkisstjórn Hvíta-Rússlands, traustir bandamenn Rússlands, hefur tímabundið lögleitt sjórán (e. piracy) hugverka frá „óvinveittum“ þjóðum. Frá því greinir meðal annarra Vice í gær.
 
Lögin, sem eru dagsett 3. janúar á pravo.by — lagagátt Hvíta-Rússlands — voru samþykkt af stjórnvöldum í lok desember sl. og munu gilda til ársloka 2024. Þau leyfa sjórán á stafrænum vörum, þ.m.t. tölvuhugbúnaði, kvikmyndum og tónlist, ef rétthafi er búsettur í „erlendum ríkjum sem stunda fjandsamlegar aðgerðir gegn hvítrússneskum lögaðilum og (eða) einstaklingum.“
 
Hvíta-Rússland hefur lengi sætt refsiaðgerðum á mismunandi stigum, síðan Alexander Lúkasjenkó forseti tók við völdum árið 1994. Frekari refsiaðgerðir voru settar af Vesturlöndum eftir að stjórn Lúkasjenkós kæfði andóf í landinu árið 2020. Eftir innrás Rússlands í Úkraínu hefur þjóðin mátt þola frekari takmarkanir á viðskiptum sem fela í sér tækni sem styður varnir, geimferðir og sjávarútveg. Meðal annarra stórfyrirtækja hættu Amazon, Intel og Airbnb að skipta við Hvíta-Rússland og það gerði einnig CD Projekt Red, pólska tölvuleikjafyrirtækið á bak við Cyberpunk 2077 og The Witcher leikina.
Þrýstingur á refsiaðgerðir Vesturlanda?
Sérstaklega heimila lögin notkun á erlendri miðlun og IP-vörum innan Hvíta-Rússlands frá löndum sem hafa sett takmarkanir að rétthöfum forspurðum. Lögin kveða á um að hið opinbera innheimti samt sem áður þóknun vegna notkunar á því efni, en þóknunin verði í vörslu einkaleyfayfirvalda. Ef rétthafar innheimta ekki þóknanir sínar innan þriggja ára — sem er erfitt fyrir aðila sem eru vegna refsiaðgerða Vesturlanda útilokaðir frá því að stunda viðskipti við Hvíta-Rússland — munu fjármunirnir renna í ríkissjóð.
 
Lögin taka einnig til efnislegra vara og heimila innflutning á tilteknum vörum án samþykkis rétthafa til að forðast „alvarlegan skort á innlendum markaði á matvælum og öðrum vörum“.

2 Comments on “Hvítrússar gerast „píratar“ í óvinveittum ríkjum”

  1. Glæsilegur og vörpulegur þjóðarleiðtogi hann Lúkasjenkó, sem hefur haldið grandvarlega um stjórnartaumana í sínu landi í hartnær 3 áratugi, og reynt allt hvað af tekur að halda friðinn við nágranna sína og umheiminn, sem ekki kann betur að meta þá viðleitni hans heldur en svo að kássast uppá landið úr öllum áttum, sem hann er nú nauðbeygður til þess að bregðast við ef ekki á illa að fara.

    Fast á hæla hans kemur svo Vladimir Pútin, með rúmlega tveggja áratuga farsæla valdatíð, þrátt fyrir að hafa þurft allan þann tíma að þola uppáþrengirngar og yfirgang úr öllum áttum, ekki sýst efnahagslegum, frá auðvaldsríkjunumm sem eru ekkert að fara í felur með hversu stíft þau ásælast hinar óþrjótandi efnahagsauðlindir Rússlands. Hann átti heldur einskis annars úrkosti heldur en að bregðast við á viðeigandi hátt

    Í hinum vesturheimska heimshluta er aðeins einn stjórnmálamaður sem stendur þessum tveim á sporði,en það er Viktor Orbán í Ungverjalandi, sem einnig á tveggja áratuga farsælan feril að baki og nýtur nú óskoraðs traust þjóðainnar eins og endranær.

    Berist saman við vesturheimsku hænsnin sem hreykja sér hátt á valdastólunum af vankunnáttu sinni og hæfileikaskorti, ekki bara hér á landi heldur um öll hin Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og þaðan má svo rekja ömurleikann útum stærstu lönd álfunnar, Þýskaland, Frakkland, Ítalíu, Spán og Bretland. Bara það eitt að hænuhaus eins og Liz Truss hafi á tímabili verið falið að halda um stjórnartaumana í því síðastnefna segir meira en þúsund orð um hversu djúpt þessi lönd eru nú sokkin í niðurlæginguna.

  2. Leiðinlegt að þurfa að segja það (og þar með vera stimplaður sem Fasisti); en allt rétt hjá Birni hér að ofan.

    Vesturlönd eru meira og minna geðveik. Það er eins og að vera staddur í sögunni „Nýju fötin Keisarans“, að horfa á allt fólkið æpa af hrifningu þegar keisarinn sýnir nýju glæsifötin í skrúðgöngunni. En í útgáfu sögunnar sem við lifum í dag, er barnið slaufað (cancel culture) og gert brottrækt úr samfélaginu fyrir brot á rétthugsun (og etv hægri-öfga hegðun).

    Og nú á að fara að herða róðurinn gegn ranghugsun (þeas „hatursorðræðu“), skikka ríkisstarfsmenn á námskeið í „rétthugsun“ gegn svokallaðri hatursorðræðu. Það er einnig rætt út í heimi að menn verði að nota „rafræn skilríki“ (digital ID) til þess að komast á internetið. Þannig á að vera auðveldara um vik að þagga niður í óæskilegum röddum.

Skildu eftir skilaboð