Hagsmunaaðilar bólusetningarherferðarinnar

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Svölu Magneu Ásdísardóttir:

Augu heimsins beinast nú að álitsgjafanum Scott Gottlieb, sem gegndi starfi forstjóra bandarísku lyfjastofnunarinnar „FDA“ á árunum 2017-2019. Í Covid-19 faraldrinum var hann iðulega kallaður í sérfræðingaviðtöl til að gefa læknisfræðilegt álit á stöðunni, hjá einni stærstu fréttastöð Bandaríkjanna; CNBC, og víðar. Mælti hann ákveðið með því að fólk færi í bólusetningu gegn Covid-19 og fullyrti að vörnin sem hún veitti væri meiri og betri en náttúrulegt ónæmi eftir afstaðin veikindi.

Vandamálið er að Gottlieb hefur setið í stjórn lyfjaframleiðandans Pfizer frá því að hann lét af störfum sem forstjóri FDA, lyfjastofnunar Bandaríkjanna, eða frá árinu 2019. FDA er stofnun á vegum hins opinbera en Pfizer er stærsta, einkarekna lyfjafyrirtæki í heimi. Gottlieb skipti þannig allrækilega um starfsvettvang, fór úr einu rúmi í annað. Eða voru vinnuveitendur hans kannski komnir undir eina sæng?

Fyrrum forstjóri FDA ritskoðaður

Nú þegar „Twitter files“ bylgjan ríður yfir hafa afrit af tölvupóstasamskiptum Gottlieb við höfuðstöðvar Twitter verið lekið. Fram kemur að eftirmaður Gottlieb hjá FDA, Brett Giroir, sem gegndi þar starfi forstjóra um tíma árið 2019, birti á Twitter niðurstöður nýrrar rannsóknar frá Ísrael, í ágúst 2021, sem sýndu fram á að náttúrulegt ónæmi gegn Covid-19 væri margfalt öflugra og betra en ónæmi eftir bólusetningu.

Gottlieb hafði þá samband við framkvæmdarstjórann Todd O’boyle, hjá ritskoðunardeild Twitter, og lýsti áhyggjum sínum yfir því að tístið gæti fengið of mikla athygli, því rannsóknin væri ný og enn óritrýnd. Twitter svaraði með því að loka fyrir möguleikann á að svara, líka við eða deila tístinu áfram, ásamt því að skella viðvörunarborða fyrir neðan með orðinu „misleading“ eða villandi. Þrátt fyrir að Brett Giroir hefði gegnt stöðu forstjóra bandarísku lyfjastofnunarinnar FDA, og nyti viðurkenningar sem læknisfræðilegur álitsgjafi.

Augljós hagsmunatengsl

Hinsvegar var Gottlieb á þessum tímapunkti kominn inn í framkvæmdarstjórn Pfizer og var því farinn að hafa bein áhrif á það hvernig hagsmuna Pfizer væri best gætt, með yfirlýsingum sínum í sjónvarpsviðtölunum. Hann hafði beinlínis hag af því að sala bóluefna gegn Covid-19 ykist frekar en ekki. Það er því ekki að undra að hann hafi leitast gagngert eftir því að þagga niður umræðu um að náttúrulegt ónæmi gegn væri hugsanlega öflugra en það sem hlaust af ítrekuðum bólusetningum, með efnum sem höfðu fengið flýtimeðferð og voru því ekki fullrannsökuð samkvæmt hefðbundnum stöðlum sem lúta að nýjum bóluefnum.

En þrátt fyrir að vera aðeins álitsgjafi, og jafnframt stjórnarmaður hjá Pfizer, þá boðaði Gottlieb mjög snemma þau tíðindi að nauðsynlegt yrði að fara í allsherjarlokun samfélagsins – “lockdown” – sem væri fyrirséð að myndi hafa í för með sér gríðarlegt efnahagslegt tjón. Þetta fullyrti hann í sjónvarpsviðtali í mars 2020, þrátt fyrir að aðrar þjóðir eins og Svíar kysu að bregðast öðruvísi við faraldrinum þrátt fyrir að hafa undir höndum sömu upplýsingar um smithættu, dánartíðini og annað. Nú hefur það sýnt sig að Svíum tókst að standa af sér faraldurinn nokkuð vel án þess að grípa til lokunar samfélagsins. Með tímanum varð síðan eina leiðin, að því er virtist, til að koma samfélaginu á réttan kjöl, vera allsherjar bólusetningarherferð gegn Covid. Hvað olli því að þessi hugmynd hlaut svo sterkan hljómgrunn?

Beinar skipanir frá Hvíta húsinu

Twitter files uppljóstrunarbylgjan virðist engan enda ætla að taka og hún leiðir í ljós að þöggunin og spillingin í faraldrinum var mun útbreiddari en nokkur gat ímyndað sér. Skjáskot af tölvupóstum frá Robert Flaherty, verkefnisstjóra stafrænu samskiptadeildar Hvíta Hússins, sýna fram á beinar tilskipanir til stjórnenda stærstu samskiptamiðlana um að þagga markvisst niður og eyða efni sem gæti ýtt undir efasemdir gagnvart bólusetningarherferðinni, jafnvel þótt ekkert væri efnislega rangt við upplýsingarnar, undir því yfirskyni að almannahagsmunir væru í húfi.

Það sem blasir við er að allar þessar þöggunaraðgerðir höfðu þau áhrif að fólk fékk mjög takmarkaðar upplýsingar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir varðandi fyrirhugaða bólusetningarherferð og að þar áttu hagsmunaaðilar stóran hlut að máli.


Heimildir:

„The Censorious Scott Gottlieb Was A Major Influence On Lockdowns“

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 13. janúr 2023.

Skildu eftir skilaboð