Rússar ná Soledar og veikja varnarlínu Úkraínuhers

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Úkraínustríðið7 Comments

Rússar virðast hafa náð námu- og iðnaðarbænum Soledar í Donbass á sitt vald, eftir einhverja blóðugustu bardaga frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu. Frá þessu greina rússneska varnarmálaráðuneytið og fjölmiðlar á Vesturlöndum og í Rússlandi í gær, en úkraínskir embættismenn og fjölmiðlar hafa enn ekki viljað staðfesta það.

Wagner-liðar umkringdu Soledar og eru nú að „hreinsa upp“ umfangsmikið jarðganganet í saltnámum bæjarins, að sögn foringja Wagner-liða, Yevgeny Prigozhin (sbr. forsíðumynd), á miðvikudag. Þeim úkraínsku hermönnum og málaliðum, sem neituðu að gefast upp, hafi „verið eytt“. Fleiri þorp og bæir umhverfis Soledar hafa í framhaldinu fallið í hendur Rússa. Útlit er fyrir að um 70 km af varnarlínu Úkraínu hafi veiklast við þetta, en Soledar er mikilvæg lestar- samgöngumiðstöð. Einnig geti það hjálpað Rússum að ná Artemovsk (Bakhmut) sem er sunnan við Soledar, en mjög harkalega hefur einnig verið barist um þá borg í margar vikur.

Tíðindin berast eftir margra vikna harða bardaga á svæði sem heimildarmenn, hafa lýst sem „hakkavél“. Þrátt fyrir stöðugar en hægfara framfarir Rússa á svæðinu, hafi úkraínsk yfirvöld kosið að láta hersveitir sínar ekki hörfa á kostnað gríðarlegs mannfalls. Rússar þykja hafa náð sér á strik eftir að hafa hörfað frá svæðum í Kharkiv og Kherson í haust.
Prigozhin taldi að 500 úkraínskir hermenn hefðu fallið á lokastigi bardaganna, eftir að Wagner-sveitir umkringdu þá. Það sé til viðbótar við mikið mannfall fram að því.
„Við vorum bara skildir eftir“
Ónefndur úkraínskur hermaður sagði í samtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í gærkvöldi: „Við vorum bara skildir eftir“, en stöðin vildi ekki gefa upp nafn hans af öryggisástæðum.

„Við reyndum að hörfa, en Orkarnir [Rússar] eru nú þegar komnir. Ef það kemur engin skipun um hörfa í dag munum við líklega ekki hafa tíma til þess,“ sagði hann við CNN í síma. „Okkur var sagt að við yrðum sóttir. Og nú erum við bara yfirgefnir.“

Hann kvað hermennina hafa orðið uppiskroppa með mat, drykkjarvatnið að klárast og að særðir væru á meðal þeirra. Þeir ættu þó enn eitthvað af skotfærum.

„Síðasta rýming var fyrir þremur dögum síðan,“ sagði hann. „Fyrirskipað var að halda út allt til enda. Af bardagahljóðunum að dæma hörfuðu nágrannar okkar [aðrar sveitir] eða var skipað að hætta. Okkur var sagt að halda þetta út."
„Við höldum áfram eins lengi og við getum. En maður getur orðið þreyttur og örmagnast á endanum. Það er ómögulegt að halda sér hástemmdum svona lengi.“
Hverjir eru Wagner-liðar?

Þessi umfjöllun er skrifuð með fyrirvara um að erfitt er að afla áreiðanlegra upplýsinga um þennan hulduher, sem virðist taka að sér verkefni við að gæta hagsmuna Rússneska ríkisins.

Wagner Group PMC (Private Military Contractors) virðast vera  hernaðarverktakar á borð við hið bandaríska Blackwater, og virðast þeir tengjast rússneskum stjórnvöldum og leyniþjónustum. Lagalegar ástæður eru fyrir því að ekki er hægt að fullyrða margt um það hvað þetta fyrirbæri er og rússnesk stjórnvöld hafa ekki viljað kannast við tilvist þess opinberlega. Þessi hulduher á að hafa orðið til árið 2014 (árið sem Maidan-byltingin varð í Kænugarði) upp úr öryggisfyrirtæki, og virkar eins og tengdar sellur, sem hafa auk á Krím og í Donbass, starfað á átakasvæðum víða um heim, meðal annars í Afríku, Venezúela og Sýrlandi.

Sumir vilja halda því fram að hópurinn sé öfgamenn, meðal annars út af Wagner-nafninu sem upphaflegur stofnandi, Úkraínumaðurinn Dmitry Utkin og meintur aðdáandi tónskáldsins Wagner, gaf hópnum. Hann hefur ekki sést síðan 2019 og er hann af sumum talinn af. Erica Gaston, yfirráðgjafi hjá Háskólamiðstöð rannsókna í stefnumótun hjá Sameinuðu þjóðunum, á þó að hafa sagt að Wagner Group PMC sé ekki drifið áfram af hugmyndafræði, heldur sé um að ræða tengslanet málaliða „viðloðandi öryggismál Rússneska ríkisins“. [Wikipedia og vestrænir miðlar virðast vilja kalla Wagner-liða nýnazista, en það er dálítið erfitt að samræma það við megna andúð Rússa á nazistum eftir Seinni-Heimsstyrjöldina og baráttu þeirra við nýnazista nú í Úkraínu].

Wagner Group PMC virðist vera rekin af auðmanninum Yevgeny Prigozhin sem í dag veitir henni jafnframt forystu. Wagner-liðar telja nokkur þúsund manns og virðast oftast vera fyrrverandi rússneskir hermenn á aldrinum 35-55 ára (meðalaldur ca. 40 ár), en einnig Úkraínumenn og dæmi eru um fleiri þjóðerni. Þjálfunin er ströng og afar leynileg. Greiðslur virðast ekki vera mjög háar (að hámarki $2.500 á mánuði) miðað við áhættu og erfiðleikastig starfanna, en lögð er áhersla á heiður og þjónustu við Rússland.
Fyrir nokkrum mánuðum tók Wagner Group PMC upp á því að bjóða föngum betrun með því að gerast verktakar hjá þeim. Þeir eru í framhaldinu sendir í stranga þjálfun og þaðan á framlínu átaka og í önnur erfið verkefni. Standi þeir sig vel, og brjóti þeir ekki af sér á meðan, munu þeir eiga möguleika á greiðslum, viðurkenningu og náðun eftir sex mánaða þjónustu, eða útför með láði ef þeir falla í starfinu. Af þessu öllu verður varla annað séð en að Wagner Group PMC tengist þrátt fyrir allt stjórnvöldum í Rússlandi.

7 Comments on “Rússar ná Soledar og veikja varnarlínu Úkraínuhers”

  1. Nú er komið í ljós hvernig Wagner-meistarasöngvurunum tókst að ná íbúðahverfum Soledar á sitt vald: Þeir spruttu allt í einu, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, uppúr jörðinni í miðbænum við hlið Ráðhússins í bænum, læddust um einhver gömul saltnámugöng sem andstæðingunum var bersýnilega ókunnugt um og tókst þannig að komast aftan að þeim, og hefja gífurlega harðar skotárásir á varnarliðið, sem átti sér einskis ills von úr þeirri átt, missti um 700 manns fallna, og ein 300 brynvarin farartæki, skotpalla, fallbyssur o.þ.h. í kjölfarið.

    Þeim tókst einnig að ná saltnámum nr. 4, og 1-3 tiltölulega auðveldlega á sitt vald, en í vesturjaðri bæjarins saltnáma nr.7 enn á valdi úkraínuhers, sömuleiðis Soj-járnbrautarstöðin, og iðnaðarhverfið þar fyrir handan. Síðan kemur skipaskurður og loks breiði Y-05-13 þjóðvegurinn sem erfitt er fyrir sóknarherinn að komast yfir, þannig að það er alls ekki víst á þessari stundu hvort Rússum tekst að brjótast í gegn um síðustu varnarlínurnar og komast yfir á auðu svæðin og akrana þar fyrir handan.

  2. Mér skilst að vandamálið við saltnámu 7 ,sé að það liggja göng frá henni sem koma upp í þorpi hinumegin við víglínuna.
    Úkrainumenn geta þannig sent liðsauka og byrgðr í gegnum þessi göng.:
    Sumir telja að það verði ekki hægt að taka námuna fyrr en það er búið að taka þorpið hinumegin við línuna.

  3. UPPFÆRT:

    BORGÞÓR, það eru líka ágiskanir um að önnur jarðgöng, eða réttara sagt saltgöng,liggi suður á bóginn alla leið til Bakhmut, (sirka 9 km) en það fæst þó ekki staðfest. Hins vegar var staðfest nú rétt eftir miðnættið að meistarsöngvurunum hefði tekist að ná sjálfri saltverksmiðjunni, ARTEMSOL, sem er sú stærsta í allri Austur Evrópu, á sitt vald. Ég geri ráð fyrir að hún sé staðsett í iðnaðarhverfinu, þannig að þá er þess væntanlega ekki langt að bíða, að það falli í heild sinni. Þó gæti það allt saman breyst ef Úkraínumönnum tekst að koma öflugum liðsauka á svæðið í tæka tíð.

    PÁLL: Tónskáldið Wagner þurfti ekkert sérstaklega að líða fyrir hann Adolf, því hann hóf Bayreuth-hátíðina aftur til vegs og virðingar, mætti þangað oft á tónleika í eigin persónu, Winifried Wagner var hans einkavinur, og hann lét mikið fé af hendi rakna til þess að viðgerða og viðhalds á Festspielhaus-tónleikahöllinni.

    Annars er nafnið á WAGNER-hersveitinni þannig til komið að fyrst vestanmenn voru komnir með sína MOZART-hersveit, þá fannst auðjöfrinum Prigozin alveg bráðupplagt að nefna sínar sveitir í höfuðið á sínu eigin uppáhaldstónskáldi.

  4. Jæja. Kannski ég kalli mína þá KALDALÓNS þegar þar að kemur.

  5. UPPFÆRT:
    1) PÁLL: Gó’ur!

    2) Það fór eins og mig grunaði, að Wagners-mönnum lánaðist ekki að fylgja sigrinum í íbúðarhverfum Soledar eftir, því þeim tókst hvorki að ná járnbrautarstöðinni, né Saltnámu 7 á sitt vald í gær. Í staðinn fóru þeir að þreifa fyrir sér í norðvesturátt frá Soledar.

    Annars var aðalfrétt gærdagsins sú, að þegar Rússar gerðu enn eina af sínum árásum á raforkuvirki Úkraínumanna nóttina áður, þá steinþögðu loftvarnabyssur og flaugar heimamanna, og líklegasta skýringin á því er talin sú að þeir séu orðnir uppiskroppa með slík skotfæri.

  6. Thad er vel liklegt, ad ukrainu her geri uppreysn. Hafi their mått til thess.

Skildu eftir skilaboð