Stjórnleysi útlendingamála

frettinBjörn Bjarnason, StjórnmálLeave a Comment

Eftir Björn Bjarnason:

Ætla mætti af tregðu þingmanna til að breyta útlendingalöggjöfinni í takt við það sem er annars staðar að hér væri allt í himnalagi í þessum málaflokki.

Á vefsíðunni vardberg.is birtist í gær (19. janúar) útdráttur úr viðtali við Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Dana og fyrrverandi forsætisráðherra, eftir samtal hans við Tobias Billström, utanríkisráðherra Svía.

Ráðherrarnir ræddu utanríkis- og öryggismál með áherslu á nærumhverfi sitt á Eystrasalti en undir lok samtalsins við blaðamann Berlingske segir Lars Løkke að tónninn hjá sænskum stjórnvöldum hafi breyst eftir að borgaraflokkarnir settust í ríkisstjórn í Stokkhólmi. Fyrir stjórnarskiptin hafi ekki mátt minnast á ákveðna hluti í sænsku samhengi. Nú líti Svíar á hinn bóginn opnum huga til Danmerkur til að fræðast um hvernig þar hafi verið tekið á glæpum, glæpagengjum og aðlögun útlendinga. Í Svíþjóð sé nú tekið á ýmsum málum líkt og gert hafi verið í Danmörku, þar sé því að vísu takmörk sett hve herða megi skrúfurnar meira eftir áratuga aðhald í útlendingamálum.

Sænska stjórnin hefur samkvæmt þessum orðum áhuga á að fara að fordæmi Dana til að draga úr samfélagslegum vandræðum vegna óstjórnar í útlendingamálum. Þá eru sænskir ráðamenn til þess búnir að ræða vandann við aðra og opna með því á samvinnu.

Hér á landi er annað uppi á teningnum. Ætla mætti af tregðu þingmanna til að breyta útlendingalöggjöfinni í takt við það sem er annars staðar að hér væri allt í himnalagi í þessum málaflokki.

Sjálfur dómsmálaráðherrann, Jón Gunnarsson, er þó annarrar skoðunar. Hann segir í samtali við Fréttablaðið í dag (20. janúar) að verndarkerfið í útlendingamálum, það er hælisleitendakerfið, hér á landi sé stjórnlaust. Til marks um það sé að allir 19 hælisleitendur sem synjað var um alþjóðlega vernd og sendir voru úr landi síðastliðið haust séu komnir aftur til landsins.

Ráðherrann segir allir hælisleitendurnir hafi fengið fulla málsmeðferð hér á landi og notið löglærðs talsmanns og hafi að lokum verið synjað um vernd. Þrátt fyrir að lögum hafi verið framfylgt með brottvísun sé hópurinn allur kominn til baka og hafi endurnýjað umsóknir sínar og sé kominn „á framfæri íslenskra skattgreiðenda,“ segir dómsmálaráðherra og bætir við:

„Þetta er stjórnleysi. Þetta er hringavitleysa. Við erum komin í ógöngur sem þjóð á þessu sviði.“

Í Danmörku báru stjórnmálamenn gæfu til þess að mynda meirihluta um skynsama aðhaldsstefnu í útlendingamálum og ýta málaflokknum af flokkspólitískum vettvangi eins og sannaðist í kosningunum þar í 1. nóvember 2022. Flokkurinn sem knúði sem mest á í þessu efni hvarf næstum í kosningunum, hann átti ekki lengur sama erindi og áður, aðrir flokkar höfðu tekið upp stefnu hans.

Þessi stefna varð ekki til í Danmörku vegna stóryrða stjórnmálamanna heldur vegna þess að spilin voru lögð málefnalega á borð fyrir kjósendur sem sáu að stefndi í ógöngur. Hér hefur því miður ekki tekist að mynda samskonar andrúmsloft á alþingi með aðhaldi kjósenda, að það takist er lykillinn að farsælum breytingum en ekki bægslagangur.

Skildu eftir skilaboð