Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins deildi blómaskreyttri auglýsingu á facebook síðu sinni 19. janúar sl., þar sem stofnunin hvetur fólk eldra en 60 ára til að þiggja Covid-bólusetningu ef fjórir mánuðir eru liðnir frá þeirri síðustu. „Látum hendur standa fram úr ermum,“ segir í auglýsingunni og vísað er í nánari upplýsingar á heilsuvera.is
Þó nokkrir létu málið sig varða og skrifuðu undir auglýsinguna, þar á meðal Helgi Örn Viggósson, sem segist gefa Heilsugæslunni 12 klst. til að fjarlægja auglýsinguna, sem væri ólögleg, annars muni hann kæra heilbrigðisstofnunina. Auglýsingin hefur ekki verið fjarlægð og má sjá hér neðar. Skoða má ummæli Helga Arnar og fleiri undir auglýsingunni með því að smella hér.
Helgi Örn skrifar: „Góðfúslega fjarlægið þessa auglýsingu strax, hún stangast á við lög og mun ég kæra ykkur til lögreglu hafið þið ekki fjarlægt hana innan 12 stunda: Óheimilt er að auglýsa lyf sem eftirfarandi lýsing á við um: Lyf sem ekki hafa hlotið markaðsleyfi eða leyfi til samhliða innflutnings hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 56. gr. lyfjalaga, nr. 100/2020. Almennar kröfur til lyfjaauglýsinga. Lyfjaauglýsing skal veita réttar og faglegar upplýsingar um lyf. Allar upplýsingar í lyfjaauglýsingu skulu vera greinilegar og auðlesnar eða auðheyrðar. Allar upplýsingar í lyfjaauglýsingu skulu jafnframt ætíð vera í samræmi við samþykkta samantekt á eiginleikum lyfs (SmPC, SPC). Lyfjaauglýsing skal ávallt vera sett fram með hlutlægum hætti og veita fullnægjandi upplýsingar um rétta notkun lyfs. Lyfjaauglýsing má ekki vera villandi og án þess að of mikið sé gert úr eiginleikum þess. Allar upplýsingar í lyfjaauglýsingu skulu settar fram eða lesnar upp með þeim hætti að markhópur lyfjaauglýsingarinnar geti auðveldlega lesið, heyrt eða meðtekið upplýsingarnar með öðrum hætti.“
Undir auglýsinguna skrifaði einnig Kristín Þormar en hennar ummælum var öllum eytt og hún „blokkuð“ á síðu stofnunarinnar. Samkvæmt svari Brjáns Jónassonar samskiptastjóra Heilsugæslunnar var skrifum hennar eytt þar sem „Heilsugæslan taki ekki þátt í að deila boðskap sem ekki komi frá þeim sjálfum eða landlæknisembættinu.“
Skjáskot af skrifum Kristínar sem var eytt má sjá hér neðar. Kristín setti inn efni af ýmsu tagi varðandi áhættu og aukaverkanir af sprautunum og spurði m.a. hvers vegna verið væri að fela aukaverkanirnar af þessum efnum.
Í fréttatilkynningu Heilsugæslunnar segir að upplýsingar um aukaverkanir vegna Covid-19 bólusetninga séu að finna á vefnum covid.is. Það er ekki rétt hjá Heilsugæslunni, engar upplýsingar er að finna um aukaverkanir á þeirri síðu. Líklegt er að samskiptadeild stofnunarinnar hafi ætla að vísa á Lyfjastofnun sem birtir fjölda tilkynntra aukaverkana og upplýsingar um þær hér.