Írsk stjórnvöld (sem fylgja stefnu ESB um opin landamæri) hafa gefist upp á að finna húsnæði fyrir hælisleitendur, þeir eru einfaldlega of margir. Þann 23 þessa mánaðar sendi stjórnin út skilaboð á Twitter til hælisleitenda um að koma ekki, það væri ekkert húsnæði í boði og tveim dögum síðar mátti lesa á RTÉ fréttasíðunni að fullorðnir og barnlausir umsækjendur um alþjóðlega vernd lentu á vergangi þegar þeir kæmu og það myndi breyta borgarlandslaginu í Dublin þegar um 310 útigangsmenn bættust við í hverri viku. Þeim sem eru að flýja stríðið í Úkraínu mun þó vera útvegað húsnæði.
Á árinu 2022 tóku Írar við 70.000 flóttamönnum frá Úkraínu en að auki sóttu 13,319 um alþjóðlega vernd, samkvæmt tölum sem Dublin Live hefur eftir írska dómsmálaráðuneytinu - og eru það hæstu tölur frá því að slík skráning hófst. Írar hafa kvartað yfir að margir þeirra er sækja um hæli komi ekki frá stríðshrjáðum löndum. Þannig sagði Irish Times frá því í sumar sem leið að fleiri en 1,100 íbúar Georgíu hefðu sótt um hæli á fyrstu sex mánuðum ársins. Bæði við og Danir hættum að afgreiða umsóknir þaðan fyrir nokkrum árum, því þær voru taldar tilhæfulausar. Stöðugt fleiri koma líka skilríkjalausir með flugi sem tefur að sjálfsögðu afgreiðslu umsókna.
Írar hafa mótmælt stefnu ríkisstjórarinnar um opin landamæri á götum úti frá því nóvember á síðasta ári (og aðrir hafa mótmælt mótmælendunum), en hún bitnar m.a. á möguleikum þeirra til að sækja sér heilbrigðisþjónustu en einnig mótmæla þeir gjarnan því að þeir séu ekki hafðir með í ráðum þegar hælismiðstöðvar séu opnaðar í nærumhverfi þeirra. Þeir sem komi séu nær eingöngu karlmenn á besta aldri og efast menn um að yfirvöld hafi kannað bakgrunn þeirra nægilega vel og óttast um öryggi sitt og sinna. Ekki dró frétt um alvarlega kynferðislega árás sem maður einn í Belfast varð fyrir af hendi þriggja ókunnra manna er hann var úti á göngu snemma morguns fyrr í mánuðinum úr þeim áhyggjum. Telja menn nær útilokað að þar hafi innfæddir gerendur verið á ferð.
Eðlilega eru takmörk fyrir öllu og góður vilji ekki alltaf nóg. Innviðirnir verða að vera fyrir hendi, auk samþykkis íbúa - annars skapast ófriður.