Sapere Aude

frettinInnlent, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Ýmsir hafa undanfarið lýst þungum áhyggjum yfir hnignun hefðbundinna fjölmiðla. Þannig hefur fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins sáluga fullyrt að vegna offramboðs upplýsinga sem hellist yfir fólk verði það ófært um að greina milli sannleika og lygi. Hann gefur í skyn að einhver óskilgreind öfgaöfl standi að aðför að blaðamennsku og leitist við að fækka hefðbundnum fjölmiðlum, sem hafi það hlutverk að matreiða sannleikann ofan í almenning.

En það er ekki offramboð upplýsinga sem veldur því að fólk geti ekki greint milli sannleika og lygi. Og orsök hnignunar hefðbundinna fjölmiðla er ekki samsæri öfgaafla, heldur það hvernig þeir hafa brugðist í hlutverki sínu.

Í nóvember 2021 mátti lesa eftirfarandi klausu í leiðara Fréttablaðsins, sem ritaður var af fyrrnefndum ritstjóra: „Og meginspurningin er þessi; er fullt frelsi óbólusettra verjanlegt á tímum alls konar takmarkana á háttum þeirra sem hafa valið að láta bólusetja sig af fúsum og frjálsum vilja …?“ Ritstjórinn vísar að svo búnu til framgöngu yfirvalda í Singapúr, þar sem fólk sem ekki var bólusett við kóvít var látið mæta afgangi í heilbrigðisþjónustu og jafnvel áformað að neita því alfarið um hana, og til Póllands, þar sem reka mátti fólk fyrirvaralaust úr störfum væri það ekki bólusett. „Núna verða Íslendingar að spyrja sig þessara sömu spurninga og svör hafa fengist við í téðum löndum“ segir ritstjórinn að lokum. Hann mælir sumsé með því að samfélaginu verði skipt upp í tvo misréttháa hópa og almenn mannréttindi þar með afnumin.

Rök ritstjórans eru annars vegar þau að ástæðan fyrir takmörkunum í samfélaginu sé sú að ekki séu allir bólusettir við kórónuveirunni og hins vegar að óbólusett fólk valdi gríðarlegu álagi á heilbrigðiskerfið. Á þessum tíma var löngu vitað að hin svonefndu bóluefni væru ekki leiðin til að enda faraldurinn. Þremur mánuðum áður hafði jafnvel íslenski sóttvarnalæknirinn viðurkennt þetta sjálfur og gögn höfðu mánuðum saman sýnt að efnin veittu svo litla vernd gegn smiti að þau uppfylltu ekki þá grunnkröfu sem almennt er gerð til bóluefna. Einnig var farið að koma glöggt á daginn hversu hættuleg þessi efni væru; þegar lá fyrir að alvarlegar aukaverkanir af þeim væru um það bil þúsund sinnum tíðari en vegna flensubóluefna. Fullyrðing ritstjórans um að 95% þeirra sem lægju á sjúkrahúsi væru óbólusettir var auk þess fjarstæða ein.

Með öðrum orðum stóð ekki steinn yfir steini í röksemdafærslu ritstjórans; hún grundvallaðist einfaldlega á röngum upplýsingum, sem hverjum sem hafði fyrir að kynna sér málið mátti vera ljóst. Og þá erum við ekki einu sinni byrjuð að tala um það mannfjandsamlega viðhorf sem greinin ber vott um og var raunar bergmálað í yfirlýsingum ýmissa einstaklinga á svipuðum tíma, sem sumir vildu jafnvel ganga svo langt að setja óbólusett fólk í stofufangelsi til lífstíðar án dóms og laga.

Ég átti um daginn orðastað við fréttamann RÚV þar sem rætt var hvernig fjölmiðlar hefðu þaggað niður í sjónarmiðum sem ekki féllu að yfirlýsingum yfirvalda meðan kórónuveiran geisaði. Fréttamaðurinn réttlætti þetta framferði með „almannavarnahlutverki“ RÚV. Með öðrum orðum; hlutverk fjölmiðilsins væri ekki að veita almenningi réttar upplýsingar heldur að bergmála fullyrðingar stjórnvalda. Og í þessa gryfju féllu nánast allir fjölmiðlar, ekki einungis hérlendis heldur víðast hvar um heiminn. Líklega hefur tjáningarfrelsið aldrei átt jafn mikið undir högg að sækja á síðari tímum. Líklega hafa rangupplýsingar aldrei átt jafn greiða leið að augum og eyrum almennings, ekki þrátt fyrir, heldur einmitt vegna hinna ritstýrðu meginstraumsfjölmiðla sem fluttu í sífellu ósannindi og mannhatursboðskap á borð við fyrrgreindan leiðara.

Það er ekkert nýtt af nálinni að alls kyns ósannindi og rangupplýsingar séu á kreiki, hvort sem slíkt er sjálfsprottið eða runnið undan rifjum valdhafa. En svarið við slíku er ekki að láta aðra hugsa fyrir sig. Árið 1784 orðaði Immanúel Kant þetta svo í ritgerðinni Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?: „Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum þess ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á. Ósjálfræði er vanhæfni mannsins til að nota eigið rökvit án handleiðslu annarra. Maðurinn á sjálfur söká þessu ósjálfræði þegar orsökin er ekki skortur á hyggjuviti heldur vöntun á einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra. Einkunnarorð upplýsingarinnar eru því „Sapere aude!, hafðu hugrekki til að nota þitt eigið hyggjuvit!“

Svarið við ofgnótt upplýsinga sem stundum reynast rangar er ekki í því fólgið að fela hefðbundnum fjölmiðlum, stjórnvöldum eða risafyrirtækjum vald til að dæma um hvað er sannleikur og hvað ekki. Við höfum séð glöggt hvernig þessir miðlar hafa gersamlega brugðist í hlutverki sínu og því ber fyrrnefndur leiðari skýrt vitni. Svarið nú er hið sama og fyrir 240 árum; að fólk hafi „einurð og hugrekki til að nota hyggjuvit sitt án handleiðslu annarra“. Forsendur þessa eru tvær. Annars vegar skólakerfi sem rækir það grunnhlutverk að þjálfa börn í gagnrýninni hugsun og innræta þeim gildi hennar og hins vegar, eins og Kant segir, „frelsi til óskertrar notkunar skynseminnar á opinberum vettvangi“, með öðrum orðum, fullt og óskorað tjáningarfrelsi.

Þorsteinn Siglaugsson, formaður Málfrelsis – samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi.

Greinin birtist fyrst á DV.is 2.maí 2023.

Skildu eftir skilaboð