Í Bretlandi hefur borgarstjórn Lundúna ákveðið að útvíkka Ulez svæðið (Ultra Low Emission Zone) og skikka alla sem aka um í London eftir 29. ágúst og uppfylla ekki ströngustu kröfur um hreinan útblástur bifreiða til að borga 12.50 punda sekt á dag. Íbúar hafa ekki tekið þessun nýju reglum vel og hefur hópur manna sem kallar sig Blade Runners tekið upp á því að kortleggja hvar myndavélar sem notaðar séu til að fanga mengunarvalda séu staðsettar og eyðileggja þær, skemma eða gera tímabundið óvirkar. Einn úr hópnum segist í viðtali við Daily Mail hafa stolið 34 slíkum og að aðrir hafi fjarlægt hundruðir þeirra. Félagarnir kaupa það ekki að tilgangurinn með þessari gerð sé að draga úr mengun í London, það sé ekkert að andrúmsloftinu þar. Þeir segjast berjast fyrir frelsi sínu. „Takmarkið sé algjör yfirráð. Fletti menn upp skilgreiningu á siðleysingja í orðabók, þá er þar lýsing á Khan borgarstjóra. Maðurinn getur ekki hætt að ljúga," er haft eftir einum þeirra.
Byggt á ESB stöðlum
Þó að Bretar hafi yfirgefið Evrópusambandið að nafninu til þá eru umræddar reglur byggðar á ESB stöðlum um takmörkun nituroxíðs og sótagna frá bifreiðum. Bensínbílar sem eru framleiddir eftir 2005 uppfylla flestir kröfurnar en aðeins þeir díselbílar sem hafa fyrst verið skráðir eftir september 2015. Þessar kröfur koma því verst við eigendur díselbíla, sem hafa ekki endilega efni á nýrri bílum, því atvinnuástandið í Bretlandi er ekki sérlega gott um þessar mundir.
Nýjar reglur hafi ekkert með mengun að gera
Í grein Daily Mail segir að nú þegar hafi Transport of London eytt 60-70 milljónum punda í Ulez myndavélar og skilti og að fjárhagsáætlunin hljóði upp á 130-140 milljónir punda. Haft er eftir forstjóra Clean Air in London, Simon Birkett, að viðvaranir um að útblástur díselbíla valdi krabbameini hafi skilað því að aðeins 7,595 díselbílar hafi verið nýskráðir í allri London árið 2021 og einnig segir að stækkun Ulez svæðisins til að ná yfir 5 milljónir fólks til viðbótar, muni valda að minnsta kosti 200,000 manns sem eigi mengandi bíla höfuðverk. Það á sem sagt að eyða allt að 140 milljónum punda til að geta sektað 200,000 bíleigendur (sem eiga gamla bíla sem hverfa úr notkun ár frá ári) og gert þeim erfiðara fyrir með að keyra börn sín í skóla, komast til læknis o.fl. Einnig munu smáfyrirtæki missa viðskiptavini. Það er nokkuð augljóst að þessar nýju reglur hafa ekkert með mengun að gera.
Dýrara að keyra um á rafmagnsbíl
Síðastliðið haust birti Expressen grein um að aðrir bílar en rafmagnsbílar og bílar með litlum CO2 útblæstri verði bannaðir á svæðum í miðbæ Stokkhólms á næsta ári og í síðasta lagi 2030 skuli umferðin í allri miðborginni vera útblástursfrí. Græninginn Åsa Lindhagen gefur yfirvofandi loftslagskrísu sem ástæðu og segir að minnka þurfi bílumferð um 30% milli áranna 2017 til 2030. Á sumum götum muni bílarnir hverfa með öllu. Hið sama haust rataði það í sænskar fréttir að á yfirstandandi vetri gæti það orðið dýrara að keyra um á rafmagnsbíl en bensínbíl í suðurhluta Svíþjóðar og vegna orkukreppunnar í Evrópu, þá gæti það ástand varað lengi.
Í höfuðborg Bretlands er þrengt að þeim sem eiga gamla bíla í nafni baráttu gegn loftmengun, en í höfuðborg Svíþjóðar er það meint hamfarahlýnun sem kallar á sams konar aðgerðir. Í báðum tilfellum bitna aðgerðirnar harðast á efnaminna fólki. Það virðist meiningin að slíkt fólk eigi bara að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur, innan 15 mínútna radíuss væntanlega í samræmi við hugmyndina um 15 mínútna borgir