Tjáningarfrelsið á stríðstímum

frettinStríð, Tjáningarfrelsi, Tjörvi SchiöthLeave a Comment

Fyrri heimsstyrjöldin 1914-1918 var merkilegt sögulegt tímabil fyrir margar sakir og það eru margar lexíur sem hægt er að læra af henni.

Allir sagnfræðingar nú á dögum eru nokkurn veginn sammála um að þetta stríð hafi verið fullkomlega tilgangslaust glapræði. Fleiri milljónum hermanna var fórnað fyrir ekki neitt. Heil kynslóð glataðist. Það voru stríðsóðir konungar, keisarar og þeirra ríkisstjórnir og fylgilið, studdir dyggilega af yfirstéttinni og embættismannastéttinni, sem leiddu þjóðir sínar út í þetta hyldýpi. En það var kannski auðvelt fyrir þá að gera slíkt, á meðan þeir þurftu sjálfir ekkert að berjast á víglínunni, heldur var það sótsvartur almúginn sem var sendur út í opinn dauðann í skotgröfunum.

Það er í raun alveg merkilegt hversu margir á þessum tíma studdu þetta fullkomlega tilgangslausa stríð, og allt brjálæðið sem í því fólst. Meirihluti fólks í hverju landi studdi stríðsátak þjóðar sinnar, en þess eðlis er einmitt þetta kröftuga fyrirbæri sem kallast þjóðernishyggja, sem nær gjörsamlega yfirhöndinni í svona stríðsástandi.

En… eins furðulegt og það er, þá var það þannig að þeir sem studdu stríðið hvað mest var menntastéttin í hverju ríki fyrir sig! Eða nánar tiltekið fræðimannasamfélagið, þ.m.t. sagnfræðingar þess tíma. Þýskir fræðimenn studdu Þýskaland, franskir fræðimenn studdu Frakkland, breskir fræðimenn studdu Bretland, o.s.frv. Þeir sáu um að koma með vitsmunalegar réttlætingar og rök fyrir þátttöku þjóðar sinnar í stríðinu, stríðsátakinu öllu og hernaðarbröltinu. En segja má að það hafi verið „hlutverk” þeirra.

Þekkt dæmi var þegar 93 annálaðir fræðimenn í Þýskalandi gáfu út yfirlýsingu sem þeir skrifuðu undir, þar sem kallað var eftir því að heimurinn ætti sko að styðja Þýskaland í stríðinu. En í yfirlýsingunni var talað um hvernig Þýskaland væri siðmenntaðasta þjóð veraldar, sem hafði m.a. gefið af sér menn eins og Beethoven, Goethe og Kant. Þýskaland var nefnilega bara í varnarstríði og þess vegna var málstaður þeirra sá rétti. Á hinn bóginn var í Bretlandi og Bandaríkjunum lagt bann við að spila þýska tónlist í tónlistarhúsum. Beethoven og Wagner voru fjarlægðir af dagskrá sinfoníuhljómsveita. Þjóðverjar voru afmennskaðir („dehumanized”) þar sem orð eins og „húnar”, „krauts” o.fl. voru almennt notuð til að vísa til þeirra.

Stríðsáróðurinn og afmennskun óvinarins var á þessa vegu, eins og sjá má á eftirfarandi dæmum. Þetta eru plaggöt Bandamanna sem sýndu Þjóðverja eins og hina mestu villimenn:

Stríðsaróður gegn Þjóðverjum í fyrri heimsstyrjöldinni.
Stríðsáróður í fyrri heimsstyrjöldinni: Drekinn er með „Pickelhaube” hjálminn sem táknar þýska keisarann.
Stríðsáróður í fyrri heimsstyrjöldinni: Vilhjálmur II Þýskalandskeisari.

Fáir þorðu síðan mótmæla eða tala gegn allri vitleysunni og móðursýkinni sem var allsráðandi á þessum tíma. Gagnrýnisraddir voru kerfisbundið þaggaðar niður og málfrelsi var af skornum skammti. Í Bretlandi var Bertrand Russell, heimspekingur, friðarsinni og sósíalisti, einn af þeim fáu sem þorðu að tala gegn meginstraums narratívinu, en hann andmælti opinberlega herskyldu og var fyrir það handtekinn og fangelsaður á meðan stríðinu stóð.

Bertrand Russell (1872 – 1970)

Svipaða sögu er að segja frá Bandaríkjunum, en þar sat sósíalistinn Eugene Debs í fangelsi fyrir að hafa talað gegn stríðinu.

Eugene V. Debs (1855 — 1926). Hann var ennþá í fangelsi árið 1920, en bauð sig samt fram til forseta það ár, á meðan fangelsisvistinni stóð, og fékk 914.191 atkvæði eða 3,41%

Þetta er ágætis umhugsunarefni. Maður spyr sig: hversu mikið hefur breyst? Er sagan að endurtaka sig enn eina ferðina?

Þessi hugdetta hérna um málfrelsi á stríðstímum er að mestu fengin frá Noam Chomsky, sem er einnig þekktur fyrir að hafa skrifað greinina The Responsibility of Intellectuals. Þar gagnrýnir hann fræðimannasamfélagið fyrir að hafa verið varðhundar stjórnvalda í gegnum tíðina, og fyrir að styðja öll stríð — sama hvað — eins og stríðið í Víetnam, sem var í algleymingi á meðan Chomsky skrifaði þessa grein árið 1967. Það er einmitt eins og hlutverk fræðimanna sé bara að koma með réttlætingar og rök fyrir stefnu sinna eiginn stjórnvalda, eftir því í hvaða þjóðríki þeir eru staddir, en þó sérstaklega fyrir öllu stríðsátaki og hernaðarbrölti. Á stríðstímum eru fræðimenn kallaðir út til að gegna þeirri skyldu sinni að vera hinn vitsmunalegi armur yfirvaldsins. En það gera þeir frekar en að koma með nauðsynlega gagnrýni og vera stöðugt á varðbergi gagnvart offari stjórnvalda. En ef fræðimenn (og blaðamenn) gera það ekki, hver gerir það þá? Raddir almennings sem slíks fá sjaldan að heyrast, enda eru flestir of uppteknir í vinnu til að hafa tíma til að setja sig inn í þessi mál og skrifa greinar um það í blöðin. Ábyrgð fræðimanna, segir Chomsky (samanber: „responsibility of intellectuals”), ætti einmitt að vera að gagnrýna stjórnvöld, frekar en að vera handbendi þeirra.

Ég, sem nemandi og upprennandi fræðimaður, reyni eftir bestu getu að taka þessari ábyrgð alvarlega og fylgja þessu prinsippi. Sem flestir fræðimenn virðast þó ekki gera skikkanlega, því miður.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 13. maí 2023.

Skildu eftir skilaboð