Flokkadrættir í Noregi vegna gervigreindar

frettinBjörn Bjarnason, Erlent, PistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Hægriflokkurinn í Noregi hefur kallað saman hóp sérfræðinga og til að skilgreina hvaða pólitískar ráðstafanir þurfi að gera til að nýta megi gervigreind (n. kunstig intelligens, KI) í Noregi.

Paul Chaffey er formaður hópsins. Chaffey á rætur í norsku atvinnulífi. Stjórnmálaafskipti hans hófust í SV – Sósíalíska vinstriflokknum. Síðar gekk hann til liðs við Hægri og hefur gegnt trúnaðarstöðum á vegum flokksins. Hann segir að markmiðið sé að benda á góðar leiðir til að efla þekkingu í Noregi og leggja grunn að því að þjóðin standi framarlega við nýtingu á gervigreind til að skapa verðmæti og við lausn samfélagsvandamála samhliða því sem litið sé til þess hvort og hvernig beri að reglubinda notkun gervigreindar (GG).

AI: Artificial Intellegence – GG: gervigreind.

Þáverandi ríkisstjórn Noregs undir forsæti Ernu Solbergs, formanns Hægri, lagði árið 2020 fram stefnu um notkun gervigreindar í norsku samfélagi. Í stjórnarsáttmála mið-vinstristjórnarinnar sem nú situr í Noregi er einnig minnst á gervigreind.

Í erindisbréfi sérfræðingahóps norska Hægriflokksins eru þessar fjórar spurningar:

  • Hvernig er unnt að nýta GG betur innan stjórnsýslunnar til að bæta þar þjónustu á skilvirkari hátt?
  • Hvernig nýtist GG til að skapa ný störf og stuðla að aukinni verðmætasköpun?
  • Þurfum við reglur til viðbótar við AI-reglur ESB (AI: Artificial Intellegence) til að nýta GG á þann hátt að norsk gildi og meginviðhorf séu virt?
  • Er þörf á algoritmaeftirliti?

Hægri ákveður að setja af stað þessa sérfræðivinnu á flokkslegum grundvelli vegna þess að norskir vinstrisinnar, Rødt og SV, lýsa áhyggjum yfir því að GG kunni að leiða til atvinnuleysis og skaða innviði norsks samfélags.

Vill SV að ekkert sé aðhafst af opinberri hálfu vegna GG fyrr en regluverk hafi verið mótað, til þessa hafi tæknin ráðið ferðinni en samfélagið setið á hakanum.

Verkamannaflokkurinn, forystuflokkur ríkisstjórnarinnar, er hallur undir nauðsyn þess að gert sé hlé á nýtingu GG á meðan hugað sé að opinberu regluverki.

Afstaða norskra hægrimanna mótast af meira raunsæi en vinstrisinna. Byltingunni sem hefur nú þegar orðið vegna vaxandi aðgangs almennings og fyrirtækja að GG er líkt við það sem gerðist þegar dreifing raforku varð almenn. Vafalaust óttuðust ýmsir þá miklu breytingu á sínum tíma og félagslegar afleiðingar hennar. Kostirnir voru hins vegar svo yfirgnæfandi að enginn boðar nú að horfið skuli til baka til rafmagnsleysis.

Hér á landi er á pólitískum vettvangi einkum rætt um GG og stöðu íslenskrar tungu. Staða hennar í heimi GG var þó tryggð með ákvörðunum sem teknar voru fyrir nokkrum áratugum. Þeim þarf að fylgja eftir á markvissan hátt. Hitt er miklu brýnna til hvaða ráðstafana þarf að grípa til að innleiða GG á þann veg að stjórnsýsla á öllum sviðum verði einfaldari og skjótvirkari og unnt sé að greiða fyrir frjálsara og opnara nýsköpunarsamfélagi sem stendur öflugan vörð um eigin gildi.

Skildu eftir skilaboð