Eftir Brynleif Siglaugsson:
„Ráðstefna þessi, sem kostaði skattgreiðendur 2-3.000 milljónir króna, varð auðvitað til góðs, auðvitað fengum við helling til baka…“
Nú er nýlokið ráðstefnu sem samkvæmt okkar háttvirta forsætisráðherra og annarra „stoltra gestgjafa“ mun marka endalok alls ófriðar í Evrópu og koma Rússlandi aftur til fornaldar. Ráðstefna sem kostaði skattgreiðendur 2-3.000 milljónir króna. En undirritun tjónalista Evrópuráðsins sem senda ber Pútín svo að hægt sé að byggja aftur upp hina óspilltu Úkraínu var sennilega hápunktur þessarar samkomu … að öllum líkindum. Væntanlega eru þær stöllur Katrín og Kolbrún einnig með opið veski gagnvart ríkjum sem Nató og Bandaríkjamenn hafa lagt í rúst á síðustu árum. Ráðstefna þessi, sem kostaði skattgreiðendur 2-3.000 milljónir króna, varð auðvitað til góðs, auðvitað fengum við helling til baka, eða a.m.k. frest á ofurskatt á flugferðir í boði hinnar íðilfögru Úrsulu von der Leyen, sem ræður ráðum og ríkjum í hinu mannúðlega og lýðræðissinnaða Evrópusambandi. Frest, sem hefði víst sjálfkrafa komið til vegna aðlögunartímabils. Við sáum líka hversu mikilvæg flugvél Landhelgisgæslunnar er á ögurstundu, sem nota bene er þegar „mikilvægt fólk“ heimsækir okkur á skerið, annars er sú sama vél, sem stendur víst til að selja í sparnaðarskyni, stödd við Miðjarðarhafið á flóttamannafiskiríi, auðvitað leigð af hinu friðelskandi Evrópusambandi. Og þó að yfir standi sumarvertíð rúmlega 700 íslenskra trillukarla er ekki talin þörf á jafn dýru öryggistæki hérlendis, þeir karlar eða aðrir Íslendingar eru ekki nógu verðmætir. Í krónum talið.
Ísland, best í heimi …
… og nú kemur að krónunni, sem stýrt er af kommúnistasyni og fyrrverandi „greiningarstjóra“ eins af föllnu bönkunum okkar, Ásgeir Jónsson er sá, sem agnúast út í almúgann, sem leyfir sér tveggja vikna ferð til Tene og dirfist að taka myndir af illa lyktandi tám þar í sælunni. Það eru ekki flatskjáir sem fella hina stórkostlegu krónu nú eins og áður, heldur illa lyktandi tær kærulausra gengissóða.
Þó svo að hinn háttvirti seðlabankastjóri fljúgi um á business class með hinum hærra settu er það ekki hans sök að hækka þurfi vexti. Þó svo að hann hafi lækkað vexti hérlendis í sögulegt lágmark, sem varð til methækkana og bólumyndunar á fasteignamarkaðnum, þá ætlar hann að bæta um betur og koma þeim líka í sögulegt hámark, og það á mettíma. Þar með tryggir hann algjöra stöðnun á fasteignamarkaði og nær örugglega aleigunni af stórum hópi fólks, aftur. Á sama tíma eru fluttar til landsins þúsundir „flóttamanna“, en engin svör fást um einhverja sýn um fjölda þeirra sem taka á við.
Ísland, best í heimi …
… er sennilega slagorð ferðaskrifstofa sem auglýsa ferðir til Íslands, aðra leiðina, í Venesúela. Á Íslandi hefur auðvitað sérskipuð nefnd um málefni flóttamanna, skipuð okkar helstu sérfræðingum í neysluvatni þarlendis, fundið út að vatnið í Venesúela er hættulegt heilsu þessara flóttamanna og því beri okkur skylda til að taka á móti þeim með 66°Norður-úlpum, frírri íbúð og neti.
Ísland, best í heimi
Á hinu svokallaða alþingi sitja 63 hálaunaþiggjendur ásamt aragrúa aðstoðarmanna, sem samþykkja umhugsunarlaust allar reglugerðir og lög sem koma frá hinum nýju yfirboðurum, ESB, þar með talið hina 35. grein sem kveður á um að lög hins friðelskandi Evrópska efnahagsbandalags skuli vera yfir okkar eigin lög hafin, komi til álitsmunar. Auðvitað samþykkja allir þetta, þar sem lög og reglugerðir eru samdar af hámenntuðu fólki, sem veit auðvitað mun betur en einhver alþingismaður á Íslandi sem ekur rútu eða ræktar sauðfé sér til tekjuaukningar í frítíma sínum.
Ísland, best í heimi
Á sama tíma hafa samtök kennd við ártalið 1978 komið hressilega út úr skápnum á markaðnum, þiggja nú alls kyns styrki bæði frá ríki, sveitarfélögum og einkafyrirtækjum, þar sem þau bjóða upp á ómissandi ráðgjöf um kyn fólks og kynhegðun þess. Skilst að klukkutímaráðgjöf í leikskóla kosti um 25.000 en á móti kemur að kostnaður vegna barnabóta og þess háttar mun hríðlækka í framtíðinni þegar nánast allar áður kallaðar konur verða búnar að finna í sér hánið og karlmenn orðnir getulausir, afkynjaðir transar. En auðvitað er rétt að kynna börnum þessa möguleika um breytingu á kyni ekki seinna en um fimm ára aldur.
Þá má ekki gleyma nýjasta útspili Bandalagsríkja Evrópu sem er svokölluð „græn fjárfestingarstefna“. Þar ber hæst að fyrirtækjum mun verða óheimilt í framtíðinni að eiga viðskipti sín á milli, nema til komi vottun um kolefnisspor viðskiptavinarins, auðvitað mun vottunin koma frá þar til gerðri vottunarstofu þar sem hópur sérfræðinga reiknar út kolefnisspor hvers einasta atriðis fyrirtækjanna, kannski ekki alveg að kostnaðarlausu, en auðvitað skiptir kostnaður ekki máli þegar „Global Warming“ á í hlut; ekki viljum við verða til þess að Ísland verði óbyggilegt sökum meðalhita langt yfir frostmarki. Að endingu munu einyrkjar einnig þurfa umrædda vottun hvort sem er harðfisksali eða einstæður pípulagningamaður. Fylgi þeir ekki stefnu ESB munu þeir verða útilokaðir frá viðskiptum. Landsvirkjun mun sennilega þurfa að punga út dágóðum summum til að kaupa kolefnissporaaflátsbréf sín til baka frá kola- og olíuframleiðendum, en eins og allir vita er nánast öll raforka hérlendis framleidd með kolum og olíu, samanber raforkureikninga landsmanna.
Og til að toppa þetta allt stendur til að hætta að selja Tuborg á krana! Því verður örugglega mótmælt duglega.
Ísland, best í heimi!
Höfundur er kartöflubóndi í Lettlandi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2023 og birt hér með leyfi höfundar.
2 Comments on “Ísland, best í heimi!”
island er ekki best í heimi fyrir neitt, nema kannski ofurvexti og skatta
Ég hvet alla Íslendinga til að stuðla að hlýnun jarðar. Ėg væri ekkert á móti örlítið meiri hita.