Eftir Ögmund Jónasson fyrrv. ráðherra og þingmann:
Anne-Laure Bonnel heitir frönsk fréttakona og lengi vel kennari við Parísarháskóla. Hún fór til Donbass héraðs í austurhluta Úkraínu í ársbyrjun 2015, hálfu ári eftir að stríð braust þar út. Hún fór þangað til að ljá almenningi rödd sem ekki hafði fengið að heyrast.
Hér að neðan er slóð á afraksturinn. Heimildarmynd hennar var almennt vel tekið – hlaut meira að segja lof margra. En fljótlega tóku veður að skipast í lofti.
Skömmu fyrir innrás Rússa í Úkraínu í byrjun síðasta árs hélt Anne-Laure Bonnel aftur á sömu slóðir til þess að fylgja fyrri heimildarmynd sinni eftir. Nú var allt orðið breytt. Enginn vildi af Anne-Laure Bonnel vita, hún varð fyrir hótunum og hún missti vinnu sína við Parísarháskóla. Í bréflegum skýringum háskólans þegar henni var greint frá því að ráðningarsamningur hennar yrði ekki endurnýjaður, sagði að verk hennar væru ekki í samræmi við “gildi skólans”.
Eftir þetta fengust myndir hennar ekki sýndar.
Svipaða sögu get ég sagt af vestur-evrópskum stjórnmálamönnum sem fóru til Donbass á árunum upp úr 2014 til kynna sér ástand þar af eigin raun. Þeir urðu fyrir aðkasti fyrir það eitt að hafa vogað sér að fara á þennan forboðna vettvang.
Meira um þetta síðar – hugsanlega. Fæstir eru tilbúinir að ræða þessa reynslu sína; hafa fengið nóg af uppnefnum og persónuníði bæði af hálfu þeirra sem eru öllum hnútum kunnugir en ekki síður hinna sem ekki hafa kynnt sér málin en telja sig engu að síður hafa höndlað sannleikann.
Því miður er þetta myndband ekki með íslenskum textum, aðeins textum á ensku fyrir þá sem ekki skilja rússnesku.
En myndin byrjar á orðum Poroshenko, þáverndi forseta Úkraínu, þar sem hann segir löndum sínum hvernig farið verði með það fólk í austurhéruðunum sem ekki þýðist Kænugarðsvaldið, nefnilega svipt greiðslum úr almannatryggingum og öðrum stuðningi hins opinbera. Miðstjórnarvaldið í Kænugarði beitti sér um tíma fyrir hömlum á rússneska tungu í skólakerfinu og olli það mikilli reiði í héruðum þar sem nánast allir töluðu rússnesku.
Myndbandið hefst á orðum Poroshenko forseta en iðulega virðist koma á ruglingur og annað myndefni kemur í staðinn einsog einhverjir ósýnilegir fingur taki stjórnina.
Greinin birtist fyrst á Ömgundur.is 25. maí 2023