Páll Vilhjálmsson skrifar:
Lögmaðurinn og fyrrum þingmaður Samfylkingar, Helga Vala Helgadóttir, tilkynnir fyrir hönd lögreglunnar að mútugjafir Íslendinga til erlendra embættismanna verði ekki rannsakaðar. Ekki er langt síðan að Helga Valda taldi fátt brýnna en að lögreglan á Íslandi rannsakaði mútugjafir, í Namibíumálinu.
Mútur í Egyptalandi eru allt annað en mútugjafir í Namibíu, er viðhorf Helgu Völu, sem tekur að sér að tala fyrir hönd lögreglunnar, samkvæmt þessari frétt. Fjölmiðlar láta það gott heita að lögmaður út í bæ fullyrði um afstöðu lögreglunnar.
Tilfallandi fjallaði fyrir tveim mánuðum um mútugjafir Íslendinga í Egyptalandi og skrifaði:
Íslenskir aðgerðasinnar múta embættismönnum í Egyptalandi til að kaupa sérvalda Palestínuaraba yfir landamærin við Gasa. Í viðtali á mbl.is viðurkenna aðgerðasinnar að bera fé á embættismenn:
það kostar í kringum 5000 dollara fyrir einstakling að koma í gegnum landamærin með flutningi
Fimm þúsund dollarar eru tæpar 700 þúsund krónur. Hér er ekki um að ræða greiðslu fyrir skjöl og flutninga heldur er verið að bera fé á opinbera starfsmenn er sjá um landamæragæslu á milli Egyptalands og Gasa. Það er lögbrot samkvæmt íslenskum lögum að múta. [...] Mútugjafir Íslendinga í Egyptalandi eru fullframdar, játning liggur fyrir. Það hlýtur að hafa afleiðingar. Varla eru lög um bann við að bera fé á fólk upp á punt.
Einar S. Hálfdánarson lögmaður kærði til lögreglu tvo Íslendinga sem játuðu að stunda mútur í Egyptalandi. Helga Vala er lögmaður annars þeirra, Semu Erlu Serdaroglu.
Erlendir fréttamiðlar, t.d. Bloomberg og CBC, staðfesta að stórfelld mútustarfsemi fer fram á landamærum Egyptalands og Gasa. Íslendingar hafa játað mútugjafir. En fyrir hönd lögreglu tilkynnir Helga Vala að engin rannsókn muni fara fram.
Á RÚV segist Helga Vala hafa lagt fram gögn til lögreglu er sýni fram á sakleysi þeirra sem áður hafa viðurkennt mútugjafir. En Helga Vala leggur ekki fram gögnin á opinberum vettvangi. Lögmaðurinn blekkir, segist hafa gögn en leggur þau ekki fram.
Þegar Namibíumálið kom upp, fyrir tæpum fimm árum, var annað hljóð í strokknum hjá Helgu Völu. Málið snýst um ásakanir á hendur Samherja um að mútugjafir í Namibíu. Þá sagði Helga Vala:
Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur. Um er að ræða rannsókn á mögulegu mútubroti, peningaþvætti og skattalagabrotum.
En nú má ekki einu sinni rannsaka játningu íslenskra aðgerðasinna í Egyptalandi að hafa greitt mútur þar í landi. Annað hvort eru mútur afbrot eða ekki. Játning íslenskra ríkisborgara að hafa greitt mútur hlýtur að kalla á rannsókn yfirvalda.
Á alþingi krafðist Helga Vala ítrustu aðgerða þegar komu fram ásakanir um mútur. Sem lögmaður hafnar hún lögreglurannsókn þegar fyrir liggur játning á mútugjöfum. Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.
Eitt í lokin: mun lögreglan staðfesta að Helga Vala sé orðin fjölmiðlafulltrúi lögreglunnar, sem komi fram opinberlega og tilkynni hvaða mál séu til rannsóknar og hver ekki?