María Sigrún og bakdyr RÚV

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Þóra Arnórs fór út bakdyramegin á RÚV, Rakel Þorbergs einnig og líkt fór fyrir Helga Seljan. Sigríður Dögg var send í ótímabundið leyfi. Fjórmenningarnir voru orðnir óþægilegir fyrir RÚV. María Sigrún lenti upp á kant við handhafa ritstjórnarvaldsins á Efstaleiti vegna innslags sem kom óþægilega við ríkjandi vinstrislagsíðu fréttastofu. Hverfur hún út um bakdyrnar?

Innslagið fjallaði um gjafmildi vinstrimeirihlutans í Reykjavík gagnvart olíufélögunum. Um er að ræða dýrar lóðir í grónum hverfum. Bensínstöðvar eru á lóðunum en þær eiga að víkja. Borgin ætti að leysa lóðirnar til sín en gaf þær olíufélögum. Ef sjálfstæðismenn hefðu verið í meirihluta hefði RÚV fjallað grimmt um spillinguna. En vinstrimenn ráða Reykjavíkurborg og samkvæmt ritstjórnarstefnu Efstaleitis skal fréttum um spillingu í ráðhúsinu sópað undir teppið.

Fréttastofa RÚV er faglega gjaldþrota. Fréttastofan hefur enn ekki gert grein fyrir aðkomu sinni að byrlunar- og símastuldsmálinu. Þóra er sakborningur og Rakel og Helgi urðu að hætta á fréttastofu vegna tengsla við málið. Sigríður Dögg er skattsvikari. Þegar skattsvikin voru upplýst sl. haust gat fréttastofa ekki gefið út einfalda yfirlýsingu um að skattsvik fréttamanns gerðu hann vanhæfan til fréttamennsku.

Mál Maríu Sigrúnar sýnir að fréttastofan getur ekki svarað faglegum álitamálum með öðru en skætingi, sbr. ,,María Sigrún ætti að vera þula" eða útúrsnúningi, að innslagið hafi ekki verið tilbúið.

Meinsemdin sem grafið hefur um sig á RÚV kallast aðgerðafréttamennska. Ritstjórnarstefnan er að leita uppi fréttir sem falla að fyrirframgefinni afstöðu. María Sigrún vann sér til vanhelgi að setja saman fréttainnslag er gekk í berhögg við fyrirframgefna forsendu - að spillingu og vinstriflokka megi aldrei nefna í sömu setningu. Það brýtur gegn ríkjandi frásagnarhefð á Efstaleiti.

Skildu eftir skilaboð