Það er ekkert „stríð“ milli Ísraels og Hamas

frettinErlent, Íris ErlingsdóttirLeave a Comment

Íris Erlingsdóttir skrifar:

Vestrænar fréttastofur hafa talað um „átökin fyrir botni Miðjarðarhafs…” í áratugi, þökk sé endalausum voðaverkum hryðjuverkasamtaka eins og Hamas og PLO.   

Eins og það er klisjukennt að tala um „átök“ Ísraels og Hamas, er enn verra að vísa gagnrýnislaust til þeirra sem „stríðs“. Alþjóðalög hafa ekki sloppið við málfarslögregluaðgerðir pólitískra rétttrúnaðarsinna, sem hafa fáviskuvætt allar vestrænar stofnanir, svo að í stað „stríðs“ á nú víst að nota „vopnuð átök,” en ég neita að nota þessi sýndaryrði. Samkvæmt alþjóðalögum og Genfarsáttmálanum er ekkert „stríð” á milli Hamas og Ísraels. Að undangengnu stríði er „formleg yfirlýsing lögmætrar stjórnar ríkis um fjandsamlegar  hernaðaraðgerðir gegn öðru ríki.” (eða ríkjum). 

Hamas er ekki ríki. Það er ekki einu sinni til „Palestínuríki.” Hamas eru hryðjuverkasamtök, sem hafa að yfirlýstu markmiði samkvæmt þeirra eigin sáttmála að tortíma Ísrael og myrða Gyðinga og í því skyni hefur Hamas í tvo áratugi staðið fyrir hryðjuverkaárásum á Ísrael. Allt tal um „vopnahlé“ er því vitleysa. Vopnahlé krefst stríðs. Árás hryðjuverkasamtaka á sjálfstætt ríki og villimannsleg morð 1,200 borgara þess ríkis og mannrán 253 annarra er ekki stríðsyfirlýsing að alþjóðalögum heldur hryðjuverkaárás. 

Hryllingsverk hryðjuverkasamtaka voru ekki alltaf tilefni til fagnaðarláta á götum vestrænna stórborga, né heldur áttu vestrænir leiðtogar í samningaviðræðum við hryðjuverkamenn. En það var þegar vestrænar þjóðir gátu kallað sig „siðmenntaðar.”

Höfundur er fjölmiðlafræðingur

Skildu eftir skilaboð