Norska knattspyrnufélagið Sogndal hefur sent frá sér yfirlýsingu varðandi Emil Pálsson sem hneig niður í leik liðsins nú í kvöld.
Í stuttri yfirlýsingu félagsins segir að Emil hafi farið í hjartastopp en hann hafi verið endurlífgaður á staðnum.
Emil Pálsson er 28 ára fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu sem leikur með norska fyrstu deildar liðinu Sogndal. Hann er þar á láni frá Sarpsborg.
Leikur Sogndal og Stjørdals/Blink var flautaður af þegar knattspyrnumaðurinn hné niður eftir tólf mínútna leik. Emil lá á vellinum í um tíu mínútur en var kominn til meðvitundar þegar hann var settur um borð í sjúkraþyrlu.
Það sætir mikilli furðu að Emil er fjórði leikmaðurinn á stuttum tíma sem hnígur niður í leik með hjartsláttartruflanir en Barcelona tilkynnti um helgina að argentínski sóknarmaðurinn Sergio Aguero sem er 33 ára muni ekki spila næstu þrjá mánuði. Sergio fékk verk fyrir brjóstið í leik gegn Alaves á laugardaginn. Aguero var með hjartsláttartruflanir og var sendur með sjúkrabíl á spítala.
Þá fékk danski miðjumaðurinn Christian Eriksen hjartaáfall og hneig niður í júní síðastliðnum. Hann er 29 ára gamall.
Við þetta má bæta að hinn 22 ára Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks var fluttur með sjúkrabíl af vellinum í sumar í leik gegn FH, eftir að leggjast í jörðina með verk fyrir brjósti .