Varaborgarfulltrúi Miðflokksins segir sig úr flokknum

frettinInnlendar

Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokksins hefur sagt sig úr flokknum. Þetta er þriðji áhrifamaður innan flokksins sem segir sig úr Miðflokknum á stuttum tíma. Eftirminnilega sagði Birgir Þórarinsson sig úr flokknum rétt eftir síðustu kosningar og flutti sig yfir í Sjálfstæðisflokkinn við misgóðar undirtektir. Þá sagði Sveinn Hjörtur Guðfinnsson sig úr flokknum ekki löngu seinna.

Miðað við færslu Baldurs þá virðist hann ekki sáttur við forystu flokksins í borginni og starfshætti sem eru viðhafðir þar en oddviti er Vigdís Hauksdóttir.

Færsluna má sjá hér að neðan: 

Yfirlýsing.

Ég tilkynni hér með úrsögn mína úr Miðflokknum.

Ég lýsi því jafnframt yfir að ég mun standa við kjör mitt með framboði M-lista og sitja áfram sem fyrsti varamaður framboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur til loka yfirstandandi kjörtímabils.
Sveitarstjórnarmenn eru sjálfstæðir í störfum sínum og ég hyggst rækja skyldur mínar gagnvart kjósendum mínum af sömu heilindum og einlægni og ég hef gert frá upphafi.
Ekki er þörf á að tíunda ástæður ákvörðunar minnar að öðru leyti en því að ég hef í störfum mínum í borgarstjórn ítrekað orðið vitni að starfsháttum og framkomu undir merkjum Miðflokksins sem ég get með engu móti sætt mig við.

Með vinsemd og virðingu,

Baldur Borgþórsson Varaborgarfulltrúi M-lista í Reykjavík