Bólusettir sjúklingar flokkaðir sem óbólusettir sex mánuðum eftir síðari sprautu – uppfært

frettinErlent

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum frettin.is þá er fólk sem hefur verið sprautað tvisvar með Covid bóluefnunum nú flokkað sem óbólusett á sjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar, m.a í Noregi. Frettin.is hefur rætt við konu sem starfar sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi þar í landi sem staðfesti þessar upplýsingar. Þá hefur frettin.is einnig rætt við hjúkrunarfræðing hér á landi sem sagði nýlega upp störfum og hefur hún staðfest að það sé rétt að fólk sé flokkað sem óbólusett sex mánuðum eftir síðari sprautuna og einnig að fólk teljist óbólusett ef ekki eru liðnir 14 dagar frá nýlegri bólusetningu.

Blaðamaður hjá fréttinni hafði samband við Andra Ólafsson upplýsingafulltrúa hjá Landspítalanum til að spyrja út í málið en hann svaraði því að sóttvarnarlæknir gæti einn svarað þessu þar sem hann tæki ákvörðun um þessar skilgreiningar. Blaðamaður hafði þá samband við Þórólf Guðnason í gegnum tölvupóst en Þórólfur svaraði því að hann gæti ekki svarað fyrir spítalann og beindi því blaðamanni aftur á spítalann, nánar tiltekið að ræða við farsóttanefnd. Blaðamanni  var sem sagt vísað í hringi og enginn gat svarað því hvernig flokkunin á Landspítalanum er, ekki upplýsingafulltrúi spítalans og ekki sjálfur sóttvarnarlæknir.

Mikil þögn og vandræðagangur virðist ríkja um þetta einfalda skilgreiningarmál, en það ætti að teljast grafalvarlegt ef þjóðin er upplýst á röngum forsendum, þ.e að óbólusettir séu að halda pestinni gangandi þegar staðan er í raun sú að meirihlutinn er bólusettur með ,,útrunna bólusetningu."  Ákvörðunin um að breyta skilgreiningunni virðist hafa verið tekin þegar þriðji skammturinn stóð til boða.  En eins og flestir vita þá hefur að undanförnu skapast mikil úlfúð í garð óbólusettra og valdið miklum deilum.

Þetta kemur þó allt heim og saman við nýjustu rannsóknir þ.e. að dregið hefur verulega úr virkni bóluefnanna eftir sex mánuði og eins hélt prófessor í veirufræðum frá Kanada því fram nýlega að virknin sé nánast horfin eftir fjóra til fimm mánuði.

Þá hefur sóttvarnarlæknir og samgönguráðherra nýlega látið að því liggja að þeir sem fari í þriðju sprautu eða svokallaðan örvunarskammt muni fá meira frelsi en aðrir, hugsanlega í formi bóluefnapassa. Þetta gefur til kynna að þeir sem þegið hafa aðeins tvær sprautur verði í flokki með óbólusettum.

Þá hafa komið fram upplýsingar þess efnis að Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna (CDC) leyfir sjúkrahúsum að flokka látið bólusett fólk sem „óbólusett“ og ættu þessar tilfærslur að skekkja heildarmyndina töluvert og því erfitt að vita hvað sé raunverulega á seyði.

Ekki hafa enn fengist skýr svör frá Landspítalanum vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og má því túlka það sem svo að þögn sé sama og samþykki, þar til annað kemur í ljós.

Þá birtist frétt nýlega á CNN þess efnis að skilgreiningin ,,fullbólusettur" miðist við þrjár sprautur og þess má einnig geta að nú stefnir Ísrael á á fjórða skammtinn.

Uppfært: Andri Ólafsson upplýsingafulltrúi hefur nú loks svarað með skýrum hætti en hann segir að fólk sé skráð fullbólusett eftir tvær sprautur og að skráningin fyrnist ekki. Athygli vekur að bæði farsóttanefnd og sóttvarnarlæknir hafa ekki enn viljað svara þessu með skýrum hætti og virðast því ekki vilja vera ábyrg fyrir þessu svari sem kom frá upplýsingafulltrúanum og vísa enn á hvert annað. Farsóttanefnd ítrekaði að spítalinn fer í hvívetna eftir leiðbeiningum og reglum sem sóttvarnarlæknir setur en Þórólfur Guðnason vill ekki kannast við það og segist ekki getað svarað fyrir spítalann.