Stærsta kaffihúsakeðja heims, Starbucks, ætlar ekki lengur að krefjast þess að starfsmenn fyrirtækisins í Bandaríkjunum fari í Covid bólusetningu, og hefur fyrirtækið þannig fallið frá því sem það tilkynnti fyrr í þessum mánuði.
Í skilaboðum sem send voru á þriðjudag til starfsmanna sagði Starbucks að með þessu væri fyrirtækið að bregðast við dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna frá því í síðustu viku. Dómstóllin dæmdi þá gegn og ógilti áætlun Biden-stjórnarinnar þar sem krefja átti starfsfólk allra fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri að fara í Covid bólusetningu, ellegar skyldi það fara reglulega í sýntöku og vera með grímu.
„Við virðum niðurstöðu dómstólsins og munum fara eftir henni“ skrifaði John Culver, rekstrarstjóri Starbucks, í skilaboðunum.
Viðsnúningur stórfyrirtækisins Starbucks hefur vakið mikla athygli, en mörg önnur stórfyrirtæki, þar á meðal Target, hafa ekki gefið upp hvað þau ætli að gera. En Biden-stjórnin hefur verið að þrýsta á að fyrirtæki myndu, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar, leggja bólusetningaskyldu á starfsfólk sitt.
Þann 3. janúar sögðu stjórnendur Starbucks að fyrirtækið myndi gera kröfu til þess að allir starfsmenn yrðu bólusettir fyrir 9. febrúar, annars yrðu þeir að fara vikulega í sýnatöku. Á þeim tíma sagði Culver að það væri á ábyrgð stjórnenda Starbucks að gera allt sem þeir gætu til að skapa öruggt vinnuumhverfi.
Í minnisblaði þriðjudagsins sagði Culver að fyrirtækið muni halda áfram að hvetja eindregið til bólusetninga og örvunarskammta. Fyrirtækið sagði starfsmönnum sínum einnig á þriðjudag að þeir ættu ekki lengur að vera með taugrímur, heldur þess í stað að nota grímur eins og heilbrigðisstarfsmenn nota.
Starbucks hafði krafist þess að starfsmenn upplýstu um bólusetningarstöðu sína fyrir 10. janúar. Fyrirtækið sagði á miðvikudag að 90% starfsmanna hafi veitt þær upplýsingar og mikill meirihluti væri að fullu bólusettur. Starbucks vildi ekki gefa upp hversu stór hluti starfsmanna væri ekki bólusettur að fullu.
Hjá Starbucks starfa 228.000 manns í Bandaríkjunum.
Heimild APnews