Leó líður stanslausar kvalir, fær verki í bakið þegar hann stendur upp eða gengur. Það er erfitt líf fyrir ungling og hann hefur ekki hugmynd um hvort verkirnir muni nokkurn tíma hverfa.
Ekki heldur móðir hans Natalie, sem er sorgmædd yfir þjáningum barns síns sem fæddist stúlka en var aðeins tíu ára þegar hún sagði að draumur sinn væri að verða strákur.
„Leó var lítill þegar hún vildi verða hann,“ segir Natalie. „Ég hélt að fyrst þetta væri hans vilji, þá ætti ég að vera honum sammála. Allir sögðu að Leó væri hugrakkur að koma út úr skápnum sem transgender og að ég ætti að vera stolt af honum.“
Natalie hélt að hún væri að gera það besta fyrir Léo og fór með hann 11 ára gamlan á eitt besta sjúkrahús í Evrópu þar sem læknar reyndu að verða við ósk hans.
Þeir settu hann í hormónameðferð til að koma í veg fyrir að hann yrði kynþroska og fengi brjóst, mjaðmir og blæðingar. Það var upphafið að áköfu og móðursýkislegu ferli til að breyta Leó í karlmann.
Í dag er Leó miðpunktur umræðunnar um allan heim um eitt umdeildasta læknisfræðilega vandamál okkar tíma: að setja börn í bælingameðferð.
Eftir því sem fleiri og fleiri lönd, þar á meðal Bretland, byrja að deila um hvað sé rétt og rangt í því að dæla svo öflugum lyfjum í ungan líkama, hefur kastljósið beinst að Leó sem býr í Stokkhólmi.
Rannsókn sænska ríkissjónvarpsins
Rannsókn sem gerð var af sænska ríkissjónvarpinu hefur leitt í ljós að Leó er einn af 13 transbörnum af þeim 440, sem gengust undir meðferð á Karolinska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð, og vitað er um, sem hafa hlotið alvarlegan skaða af lyfjunum.
Kvillarnir eru meðal annars lifrarskemmdir, óútskýrð þyngdaraukning, geðræn vandamál, og í tilfelli Leó, skemmdir í beinagrind auk vaxtaskerðingar.
Hann er með mænubrot og kvilla sem kallast beinrýrð, beinin veikjast sem gerir það að verkum að þau brotna frekar. Það er sjúkdómur sem sést of hjá fólki á aldrinum 60 til 70 ára og er nánast ómögulegt að lækna.
Uppljóstrun sænska sjónvarpsins olli uppnámi og læknarnir sem meðhöndluðu Leó neituðu ekki fyrir það sem hefur gerst.
Karonlinska sjúkrahúsið tilkynnir breytingu
Eftir að þátturinn var sýndur tilkynnti Karolinska sjúkrahúsið heilbrigðisyfirvöldum í Svíþjóð að spítalinn væri hættur að ávísa kynþroskabælandi lyfjum til yngri en 18 ára, nema í undantekningatilfellum þar sem viðkomandi er undir ströngu eftirliti sérfræðinga.
Þetta leiddi til þess að heilbrigðisráð landsins dró úr bælingameðferðum fyrir yngri en 18 ára, og viðurkenndi að áhættan væri meiri en ávinningurinn.
Einn af fremstu barnalæknum Svíþjóðar, Ricard Nergardh, hefur sagt að lyfin „geldi“ börnin og geti skaðað andlega líðan þeirra.
Í rannsókn sænska sjónvarpsins var því haldið fram að deildin innan spítalans sem hefur umsjón með transbörnum og starfar undir skammstöfuninni KIDS, hafi drifið í meðferðum án þess að kanna sálfræðileg vandamál barnanna sem telja að þau hafi fæðst í röngum líkama.
Rannsóknin komst að því að stúlkur allt niður í 14 ára höfðu undirgengist tvöfalt brjóstnám því þær vildu lifa lífinu sem strákar.
Keira Bell frá Bretlandi
Heilbrigðisyfirvöld Svíþjóðar sögðu að mál hinnar bresku 24 ára gömlu Keira Bell hafi haft áhrif á ákvörðun þeirra um að hætta að nota lyf sem bæla kynþroska.
Keira Bell voru gefin lyfin sem unglingur eftir aðeins þriggja tíma samtalsráðgjöf á heilsugæslustöð sem hefur umsjón með kynvitundarþjónustu á vegum NHS (National Institute of Health) í London.
Keira, sem hafði lifað sem karlmaður um tíma en hefur nú snúið aftur til fyrra kyns, þ.e. konu, sagði í viðtali við Daily Mail að hún óttist að hafa orðið ófrjó af lyfjunum sem henni voru gefin.
Hún vonast til að fá Hæstarétt Englands til að úrskurða að börn yngri en 16 ára séu ekki nógu þroskuð til að veita samþykki fyrir bælingameðferð.
Hún sagði nýlega: „Alþjóðleg umræða er hafin um þessi lyf. Það er hugarburður lækna að barn allt niður í tíu ára geti veitt samþykki sitt fyrir lyfjameðferð sem þessari eða samþykkt það að verða gert ófrjótt.“
Í þessum mánuði hóf heilbrigðisráðherra Bretlands, Sajid Javid, endurskoðun á notkun bælingameðferðar. Hann telur það rangt af NHS að setja ungt fólk á þess konar lyfjameðferð og vonast til að ákvörðunin leiði til nýrrar og öruggari leiðar til að hjálpa ungu fólki sem efast um kynvitund sína.
„Geðheilsa, einelti og kynferðisofbeldi eru nokkrir af þeim þáttum sem gætu verið að valda ungu fólki vanda,“ sagði hann.
„Þessi nálgun þar sem fullorðið fólk tekur því sjálfkrafa sem sjálfsögðum hlut, sem barnið segir, og fer svo beint í að ræða bælingarmeðferð, er eitthvað sem er alls ekki í þágu barnsins.“
Javid óttast að málið sé hugmyndafræðilegt: í ætt við málið þar hylmt var yfir kynferðislegri misnotkun barns í Rotherham, þar sem yfirvöld flöskuðu á því að taka tillit til þjóðernis gerenda vegna þess að þau töldu að það gæti flokkast undir kynþáttarfordóma.