Breski fjölmiðillinn The Guardian birti frétt um blóðmerahald á Íslandi í dag þar sem meðal annars er rætt við nokkra Íslendinga um starfsemina:
Þrýst er á Ísland að banna framleiðslu á hormóni sem unnið er úr fylfullum hryssum, iðnað sem margir álíta dýraníð.
Hormónið er notað af bændum víðs vegar um Bretland og Evrópu til að ýta undir frjósemi svína, kúa og annarra kvenkyns dýra.
Hormónið PMSG (Pregnant Mare Serum Gonadotropin) er unnið úr fylfullum hryssum á Íslandi á sumrin í blóðmerahaldi áður en því er breytt í duft og flutt um allan heim.
Dýraverndunarsinnar á Íslandi sem heimsóttu blóðmerabú með blaðamönnum Guardian sýndu þeim brotna blóðtökubása og girðingar sem sjá mátti að hestarnir höfðu bitið í, sem þeir fyrrnefndu sögðu vera merki um kvíðafulla hesta.
Myndir sem teknar hafa verið í leyni af blóðmerahaldi, af baráttufólki fyrir velferð dýra, virtust einnig sýna hrædda hesta vera barða og berjast í blóðtökubásum áður en blóð var dregið úr þeim með stórri nál sem stungið var í hálsæð.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagði að hún hefði miklar áhyggjur af blóðmerahaldi en Evrópuþingið hefur kallað eftir því að innflutningur á hormóninu verði bannaður.
Í lok mars lagði alþjóðlegt bandalag 17 frjálsra félagasamtaka fram kvörtun gegn Íslandi til Eftirlitsstofnunar Evrópu (ESA), sem hefur eftirlit með því að reglum Evrópska efnahagssvæðisins sé fylgt á Íslandi, Liechtenstein og Noregi.
Í kvörtuninni er Ísland sakað um brot á EES-lögum um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni og sagt að íslensk yfirvöld ættu að banna blóðsöfnun.
Matvælastofnun Íslands, sem veitti líftæknifyrirtækinu Ísteku leyfi fyrir starfseminni segir: „Það er ekkert sem bendir til þess að blóðsöfnun upp á fimm lítra á viku í allt að átta vikur hafi neikvæð áhrif á heilsu og velferð meranna eða folalda þeirra.“
Ingunn Reynisdóttir, dýralæknir sem hefur unnið með hesta alla sína tíð, er ósammála. „Þetta er of mikið blóð og ef þú tekur of mikið þá fara hryssurnar að skjálfa og eiga erfitt með gang,“ sagði hún.
Mette Uldahl, varaforseti Samtaka dýralækna í Evrópu (FVE), sagði um framkvæmdina: „Þetta er misnotkun á dýrum og það er grimmd. Það á ekki að nota óþjálfaða hesta því þeir verða of hræddir.“
Á Íslandi eru um 80.000 íslenskir hestar, þar af eru 5.383 notaðir sem blóðmerar. Í landinu eru starfrækt 119 blóðmerabú.
Talið er að blóðmerabú hafi verið starfrækt hér á landi í um 40 ár, en Íslendingar sem Guardian ræddu við sögðust hafa lítið vitað um þau fyrr en í nóvember sl. þegar Dýraverndunarsamtökin Animal Welfare Foundation sýndu upptöku af starfseminni í sjónvarpi. Könnun í desember leiddi í ljós að flestir íbúar landsins væru andvígir blóðmerahaldi.
„Ég hafði ekki hugmynd um að við værum að gera þetta hér á landi og ég varð hneyksluð þegar ég sá þetta,“ sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Ferðaiðnaðarsambandsins. „Þetta er hræðilegt.“
„Mig langar að fólk viti að Ísland er í raun og veru að stinga hálfvilltar fylfullar merar, taka úr þeim blóð oft í miklu magni, bara til að svín geti eignast fleiri svín,“ sagði Rósa Líf Darradóttir, læknir og hestaeigandi í Reykjavík.
Rósa Líf bætti því við á facebook síðu sinni þar sem hún deildi frétt Guardian að lyfið væri vinsælt í svínarækt erlendis og valdi því að gylltur eignist fleiri grísi og oftar en þeim er eðlilegt til þess að tryggja stöðugt flæði af ódýru svínakjöti. „Við stingum hræddar fylfullar mjólkandi merar í hálsinn og drögum úr þeim blóð í óhóflegu magni til þess að vinna úr því frjósemislyf.“
Í Þýskalandi voru 6,4 milljónir skammtar af PMSG sem samsvarar um 32.000 lítrum af blóði gefnir gyltum á árunum 2016 og 2019, samkvæmt matvæla- og landbúnaðarráðuneytinu.
PMSG er hægt að fá með löglegum hætti í Bretlandi hjá dýralæknum, ásamt annars konar varningi, þar á meðal leggöngusvömpum fyrir sauðfé, sem valda sauðburði fyrir tímann. Ávinningurinn af svampinum er auglýstur sem „lambaframleiðsla á besta tíma fyrir haustsöluna.“