Fyrr í maí upplýsti útvarpsstöðin P4 Kronoberg að stjórnmálamaður Moderaterne í Tingsryd kommúnu, að nafni Cemil Aygan hefði skrifað á Facebook að Rasmus Paludan ætti skilið að brenna til dauða fyrir að brenna Kóraninn og óskaði honum sömu örlaga og Lars Vilks. Hann sagði af sér embættum í framhaldinu en sagan er ekki búin. Á lista Erdogans yfir þá 23 Tyrki/Kúrda er hann vill fá framselda áður en hann samþykkir umsókn Svíþjóðar um inngöngu í NATO var sami maður - undir öðru nafni. Mun hann hafa viðurkennt þátttöku í 36 pólitískum morðum á vegum PKK, sem er sjálfstæðishreyfing Kúrda í Tyrklandi. Erdogan hefur reyndar líka kallað eftir meðlimum YPG/PYD, sem eru sýrlenskir Kúrdar og Gúlenistum. Tyrkir ráða yfir níu moskum í Svíþjóð, skv. Samnytt.se og hafa yfir góðu upplýsinganeti að ráða um þá Tyrki/Kúrda er halda sig þar.
Erdogan veit trúlega að Svíar eru mjög tregir að senda glæpamenn úr landi, jafnvel þótt þeir hafi ekki sænskan ríkisborgarrétt og aðhyllist hugmyndafræði sem ekki er almennt viðurkennd í Svíþjóð - eins og á við um Cemil Aygan - því í kröfugerðinni sem Tyrkir settu fram seint í maí er ekki minnst á framsal, aðeins kvartað undan viljaleysi Svía til að framselja "hryðjuverkamenn". Sænska RÚV birti lista yfir þær kröfur er Svíar þyrftu að ganga að til að Tyrkir samþykktu umsókn þeirra. Tyrkir segjast hlynntir því að öll lönd geti sótt um aðild að NATO en þau lönd þurfi að taka virkan þátt í baráttunni gegn hryðjuverkum. Svíar þurfi því að hætta að styrkja hryðjuverkahópa með peningum og vopnum (sem Tyrkir hafi komið höndum yfir) og séu það einkum vopn er granda skriðdrekum og drónar. Tyrkir hafa einnig ásakað Finna um að styðja hryðjuverkahópa í Tyrklandi svo sömu kröfum verður beint til þeirra. Hvað skyldu Tyrkir annars flokka sem aðstoð við hryðjuverkamenn? Myndi aðstoð við Kúrdana sem voru reknir frá Afrin, svæði sem var skráð þeirra á tíma Ottómanaveldisins, flokkast þannig?
En svo gæti þessi kröfugerð bara verið fyrirsláttur. Tyrkir þurfa nú að kljást við 60% verðbólgu sakir óhefðbundinnar stjórnunar Erdogans á efnahagnum. Er hann kannski að fiska eftir meiri peningum og aðstoð við að rétta við efnahaginn, e.t.v. með aðstoð IMF? Stjórnkænska Erdogans hefur ekki skilið við hann. Honum hefur tekist að halda hlutleysi í proxýstríði BNA/NATO/ESB gegn Rússum og reynt að miðla málum. Hann bauðst til að taka við hermönnunum úr Azovstahl verksmiðjunni, ef þeir vildu síður gefast upp fyrir Rússum, og hefur ítrekað reynt að fá Pútín og Zelensky til sín til viðræðna. Hann virðist virkastur þjóðaleiðtoga í að koma á friði, enda gæti áframhaldandi ófriður í Úkraínu eyðilagt áform hans um að halda völdum er kosið verður í Tyrklandi að ári.